ENGLISH

DEUTSCH


Markmið Hagþenkis er að gæta hagsmuna og réttar
félagsmanna og bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita
og kennslugagna og annars sem félagsmenn vinna að.

 

FÉLAGSAÐILD
» Fréttir
10. mars 2021

Viðurkenningu Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2020 hlýtur Pétur Ármannsson Viðurkenning Hagþenkis var veitt 10. mars í Ljósmyndasafni Reykjavíkur við hátíðlega athöfn og hana hlaut Pétur Ármannsson fyrir ritið, Guðjón Samúelsson húsameistari, útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag. Í ályktunarorðum viðurkenningaráðsins sagði um ritið: Vandað og ítarlegt yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar. Verðugur minnisvarði um manninn sem mótaði byggingarlist og skipulagsmál hins nýsjálfstæða Íslands
 
Viðurkenninguna veitti formaður Hagþenkis, Snæbjörn Guðmundsson, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. og er settur upp sýningarkassi tengdu verkinu í Þjóðarbókhlöðunni. Tónlist á afhöfninni flutti Melkorka Ólafsdóttir. 

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt Viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað félagsmönnum til tveggja ára í senn, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða rit og höfundur hlýtur Viðurkenninguna. Í Viðurkenningarráðinu sátu: Árni Einarsson, Auðunn Arnórsson, Helga Birgisdóttir, Kolbrún S. Hjaltadóttir og Lára Magnúsardóttir.
 
Viðurkenning Hagþenkis – þakkarávarp

Ég vil færa stjórn og viðurkenningarráði Hagþenkis innilegar þakkir fyrir þann heiður sem mér er sýndur með þessari viðurkenningu. Hún er mér mikils virði, ekki síst í ljósi þess að vinna mín að rannsóknum og bókaskrifum hefur lengstum verið aukabúgrein með öðrum og krefjandi störfum. Því er oft haldið fram að bækur um söguleg efni segi jafn mikið um höfund ritsins og viðfangsefnið sjálft. Bókin um Guðjón húsameistara ber þess vissulega merki að vera rituð frá sjónarhóli starfandi arkitekts, sagnfræðingar eða listfræðingar hefðu vafalaust nálgast viðfangsefnið með öðrum hætti. Það hefur lengi verið skoðun mín að íslenskir arkitektar mættu gera betur í því að halda á lofti merki byggingarlistar, rannsaka og miðla merku framlagi eigin fagstéttar til íslenskrar menningar og samfélags. Ekki er þó sjálfgefið að arkitektar taki sér hlé frá annasömum teiknistofurekstri og vel borgaðri  ráðgjafarvinnu til að sinna að lítt launuðu hugsjónastarfi á sviði fræðimennsku. Afstaða mín hefur alla tíð verið sú að söguleg þekking og yfirsýn sé grundvöllur skapandi hugsunar í arkitektúr og öðrum listgreinum. Að enduruppgötva sé að það sama og skapa, að nýsköpun eigi sér aldrei stað í tómarúmi, án samhengis við stað og tíma, að þekkingarforði sögunnar sé mikilvægasta byggingarefni arkitektsins, ekki síður en steinsteypa, timbur og stál.
            Bókin um Guðjón Samúelssson á sér langan aðdraganda, allt aftur á 9. áratug síðustu aldar þegar Arkitektafélag Íslands efndi til sýningar í tilefni þess að öld var liðin frá fæðingu húsameistarans. Rætur míns sögulega áhuga má þó rekja lengra aftur. Ég þakka hann ekki síst góðu bókasafni á bernskuheimili mínu sem og aðgengilegu bæjarbókasafni Garðahrepps sem var í sama húsi og gagnfræðaskólinn sem ég gekk í. Í því safni rakst ég af tilviljun á bók sem nefndist Íslensk bygging : brautryðjandastarf Guðjóns Samúelssonar, eftir Benedikt Gröndal og Jónas Jónsson frá Hriflu, rit sem ég hafði ekki áður séð en kveikti strax áhuga. Ég nefni þetta hér til að minna á hversu mikilvægt það er að börn og ungmenni hafi aðgang að góðum bókakosti jafnt á heimili sínu og í menntastofnunum á öllum skólastigum. Engin upplýsingatækni kemur í stað þeirrar óvæntu gleði að uppgötva fyrir tilviljun spennandi bók í hillu á heimili, í búð eða á safni. Sem arkitekt gef ég lítið fyrir þann naumhyggjulífsstíl sem ekki leyfir bókaskápa á heimilum. Sá skóli er lítils virði sem ekki veitir nemendum sínum aðgang að góðu bókasafni með vönduðum fræðibókum. Þjóðin má vera þakklát fyrir það kraftaverk að slík rit séu enn gefin út á svo litlu málssvæði sem því íslenska - og að einhverjir fáist til að verja löngum stundum í krefjandi rannsóknir og skrif sem gefa lítið í aðra hönd. Í því sambandi er mikils virði að eiga traustan bakhjarl í Hagþenki sem heldur merki fræðibóka á lofti og stendur vörð um hagsmuni þeirra sem að þeim standa.
            Ég vil ljúka máli mínu með kærum þökkum til þeirra sem lögðu mér lið við gerð bókarinnar um Guðjón Samúelsson og eiga sinn þátt í þeim heiðri sem henni hlotnast hér í dag. Guðmundur Ingólfsson er höfundur flestra nýrra ljósmynda sem bókina prýða og fær hann  sérstakar þakkir fyrir mikilvægt listrænt framlag. Halldór Þorsteinsson sá um hönnun og umbrot sem var mikið þolinmæðisverk í riti þar sem rétt flæði þarf að vera milli texta,  teikninga og ljósmynda. Er honum þakkir færðar fyrir vel unnið verk og gott samstarf. Þeir Jón Torfason skjalavörður og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt lásu yfir textahandrit og bentu á margt í efni og orðfæri sem betur mátti fara. Þökk sé forstöðumanni og samstarfsfólki hjá Minjastofnun Íslands fyrir að gera mér kleift að sinna ritun bókarinnar samhliða hlutastarfi um tveggja ára skeið. Við vinnslu bókarinnar naut höfundur sex mánaða launa úr Starfslaunasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna auk dvalarstyrkja frá listasetrinu Bæ á Höfðaströnd og Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Þá eru ótaldir styrkir frá Hagþenki, Minningarsjóði Guðjóns Samúelssonar, Landsbankanum, Reykjavíkurborg og Miðstöð íslenskra bókmennta. Haustið 2019 stóð Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar, fyrir sýningu á verkum Guðjóns þar sem ég var annar sýningarstjóra. Sýningin naut góðs af rannsóknarvinnu vegna bókarinnar og myndefni frá sýningunni nýttist í bókinni. Eru þeim Ágústu Kristófersdóttur forstöðumanni og Ólöfu Bjarnadóttur verkefnisstjóra færðar kærar þakkir samstarfið. Eftir sýninguna var Ólöf mér til aðstoðar við öflun og skráningu sögulegs ljósmyndaefnis í bókinni. Starfsfólk Þjóðskjalasafns Íslands fær þakkir fyrir margháttaða fyrirgreiðslu og hjálp á tuttugu ára tímabili, sem og sérfræðingar Danmarks Kunstbibliotek, Ljósmyndasafns Íslands og Ljósmyndasafns Reykjavíkur fyrir mikilvæga hjálp við útvegun heimilda og myndefnis. Loks vil ég þakka útgefanda bókarinnar, Hinu íslenska bókmenntafélagi, fyrir gott samstarf og fyrir að hafa treyst mér fyrir að móta efnistök, uppbyggingu og útlit bókarinnar eftir eigin höfði.
10. mars 2021

Greinargerð Viðurkenningarráðs flutti Auðunn Arnórsson

Viðurkenningaráð Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021. Auðunn Arnórsson, Kolbrún S. Hjaltadóttir, Lára Magnúsardóttir, Árni Einarsson og Helga Birgisdóttir. 


 
Ágætu gestir, ég heiti Auðunn Arnórsson
 
Mér er það í senn heiður og ánægja að standa hér fyrir hönd viðurkenningarráðs Hagþenkis, nú þegar félagið veitir viðurkenningu sína í 34 sinn. Í ráðinu, sem starfaði með aðstoð Frið­bjargar Ingimarsdóttur fram­kvæmda­­stýru, sátu auk mín Árni Einarsson, Helga Birgisdóttir, Kol­brún Hjaltadóttir og Lára Magnúsardóttir.
 
Viðurkenning Hagþenkis er veitt fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“ og í þetta sinn fyrir verk sem komu út á heims-faraldursárinu 2020. Ófáar bækur hafa runnið í gegnum okk­ar hendur síðan í haust. Þótt smám saman hafi grynnkað í pottinum eins og til var ætlazt má vel koma fram að flestar þótti okkur þær góðar og margar hreint frábærar. Úrslitin voru óráðin fram á síðustu stundu.
 
Um miðjan febrúar voru kynnt tíu rit sem hlutu tilnefningu til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2020:
 
Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen. Námsefni í dönsku á grunnskólastigi. Menntamálastofnun og Námsgagnastofnun.
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir. Fræðaskjóða. Bókmenntafræði fyrir forvitna. Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands. Sæmundur.
Gísli Pálsson. Fuglinn sem gat ekki flogið. Mál og menning.
Gunnar Þór Bjarnason. Spænska veikin. Mál og menning.
Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring. Hestar. Angústúra.
Jón Hjaltason. Fæddur til að fækka tárum. KÁINN. Ævi og ljóð. Völuspá útgáfa.
Kjartan Ólafsson. Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. DRAUMAR OG VERULEIKI. Stjórnmál í endursýn. Mál og menning.
Kristján Leósson og Leó Kristjánsson †. SILFURBERG. Íslenski kristallinn sem breytti heiminum. Mál og menning.
Pétur H. Ármannsson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Hið íslenska bókmenntafélag.
Sigurður Ægisson. Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar. 
Bókin sem á endanum varð fyrir valinu sem sú sem að okkar mati var best að því komin að hljóta viðurkenningu Hagþenkis í ár er: Guðjón Samúelsson húsameistari eftir Pétur H. Ármannsson.

Þegar við í viðurkenningarráðinu völdum bókina á tíu bóka tilnefningarlistann komum við okkur saman um þessi umsagnarorð: Vandað og ítarlegt yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar. Verðugur minnisvarði um manninn sem mótaði byggingarlist og skipulagsmál hins nýsjálfstæða Íslands.
 
Þessi meitlaða umsögn fellur mjög vel að þeim umsagnarorðum sem Jón Sigurðsson, forseti Hins íslenzka bókmenntafélags, skrifar fyrir hönd útgefenda í aðfararorðum sínum í bókinni. Tilvitnun hefst:
„Bók Péturs um hið mikla æviverk Guðjóns Samúelssonar og greining hans á því er byggð á víðtækum og vönduðum rannsóknum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Að henni er mikill fengur fyrir íslenska menningarsögu. Útgáfa hennar er fagnaðarefni öllum almenningi og áhugamönnum um húsagerðarlist.“
 
Viljum við í viðurkenningarráðinu taka undir þetta heils hugar. Það fer ekki framhjá neinum sem flettir þessari bók og les að hér er á ferðinni gríðarlega vandað verk, sannarlega byggt á „víðtækum og vönduðum rannsóknum og djúpum skilningi á viðfangsefninu.“
 
Dæmi um þetta er sá fjöldi upprunalegra uppdrátta Guðjóns, sem í bókinni eru og aldrei hafa sést á prenti áður, ljósmyndir af byggingum hans, bæði frá því þær voru í byggingu, nýbyggðar eða eins og þær líta út í nútímanum. Deilum sem um margar bygginga hans stóðu eru gerð skil, rétt eins og öðrum þáttum sem máli skipta og vert er að halda til haga.
 
Umdeildust var án efa Hallgrímskirkja, sem aðeins var búið að byggja brot af þegar Guðjón féll frá árið 1950. Má ég til með að nota tækifærið og hafa eftir eitt þekktasta ljóð Steins Steinarr, sem orti (skömmu fyrir andlát þeirra beggja):

Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir
og horfði dulráðum augum
á reislur og kvarða:
 
51 x 19 + 18 ÷ 102,
þá útkomu læt ég mig
raunar lítils varða.
 
Ef turninn er lóðréttur
hallast kórinn til hægri.
Mín hugmynd er sú,
að hver trappa sé annarri lægri.
 
Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir,
og Hallgrímur sálugi Pétursson
kom til hans og sagði:
 
Húsameistari ríkisins!
Ekki meir, ekki meir!
 
Þetta ljóð Steins er eflaust sá minnisvarði um verk Guðjóns Samúelssonar sem flestum Íslendingum er kunnugur. Þessi háðslegi minnisvarði er þó mjög ósanngjarn. Það var því tími til kominn að hinum merku verkum Guðjóns væri reistur verðugri minnisvarði, og það hefur Pétur H. Ármannsson svo sannarlega gert í þessu riti.
 
Við í viðurkenningarráði Hagþenkis, Árni, Helga, Kolbrún og Lára, óskum Pétri innilega til hamingju með bókina og verðlaunin!
9. mars 2021

Fjöruverðlaunin


Fjöruverðlaunin,  bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn þann 8. mars 2021, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur. Útgefandi Sögufélag.

Í flokki fagurbókmennta:
Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttu. Útgefandi Benedikt.

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Iðunn & afi pönk eftir Gerði Kristnýju. Útgefandi Mál og menning.

Þetta í fimmtánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í sjöunda sinn frá því að borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð höfunda velkomna í Höfða og streymt var af viðburðinum á samfélagsmiðlum. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.
10. febrúar 2021

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2020

 Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis voru kynntar miðvikudaginn 10. febrúar kl. 16:00 í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Viðurkenning Hagþenkis verður veitt  við hátíðlega athöfn um miðjan mars og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.250.000 kr. Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagmönnum til tveggja ára i senn og í því eru: Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Helga Birgisdóttir, Kolbrún S. Hjaltadóttir, Lára Magnúsardóttir. Eftirfarandir höfundar og rit eru tilnefnd:


Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen. Námsefni í dönsku á grunnskólastigi. Menntamálastofnun og Námsgagnastofnun.
Heildstætt og vandað námsefni í dönsku. Metnaðarfullt og fjölbreytt höfundarverk þar sem margra ára samstarf tveggja reynslumikilla kennara nýtur sín.
 
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir. Fræðaskjóða. Bókmenntafræði fyrir forvitna. Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands. Sæmundur.
Ítarleg og skemmtileg umfjöllun um bókmenntafræði. Hugtök eru skýrð á nýstárlegan hátt með mýmörgum dæmum. Mikill fengur fyrir áhugafólk um bókmenntir.
 
Gísli Pálsson. Fuglinn sem gat ekki flogið. Mál og menning.
Læsileg og þörf bók þar sem hugmyndin um útrýmingu og endalok dýrategundar er skoðuð frá óvenjulegu sjónarhorni.
 
Gunnar Þór Bjarnason. Spænska veikin. Mál og menning.
Vel skrifuð bók þar sem stjórnmálum á örlagatímum er fimlega fléttað saman við sögur einstakra manna og fjölskyldna með vandaðri sagnfræði.
 
Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring. Hestar. Angústúra.
Teflt er saman gömlum sögum og nýjum, skemmtilegum texta og líflegum myndum í bók sem bæði fræðir og gleður.
 
Jón Hjaltason. Fæddur til að fækka tárum. KÁINN. Ævi og ljóð. Völuspá útgáfa.
Kveðskapurinn talar sínu máli í hlýlegri frásögn af ævi drykkfellda hagyrðingsins og stemningin fyrir skáldskap í daglegu lífi Vestur-Íslendinga verður næstum áþreifanleg.
 
Kjartan Ólafsson. Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. DRAUMAR OG VERULEIKI. Stjórnmál í endursýn. Mál og menning.
Merk samantekt á sögu ysta vinstrisins í íslenskum stjórnmálum á 1930-1968 frá sjónarhóli manns sem sjálfur var í innsta hring þeirrar hreyfingar.
 
Kristján Leósson og Leó Kristjánsson †. SILFURBERG. Íslenski kristallinn sem breytti heiminum. Mál og menning.
Fróðlegt ferðalag um eðlisfræðisögu ljóssins og mikilvægt hlutverk silfurbergs frá Íslandi í henni.
 
Pétur H. Ármannsson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Hið íslenska bókmenntafélag.
Vandað og ítarlegt yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar. Verðugur minnisvarði um manninn sem mótaði byggingarlist og skipulagsmál hins nýsjálfstæða Íslands.
 
Sigurður Ægisson. Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar.
Ríkulega myndskreytt og frumlegt verk um íslenska varpfugla með margvíslegum fróðleik, ljóðum og frásögnum af sambúð náttúru og manns.
6. janúar 2021

Nýskráningar vegna greiðslna vegna útlána á bókasöfnum

Af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot á bókasöfnum er úthlutað til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa, samkvæmt útlánum og afnotum verka þeirra á bókasöfnum. Um úthlutun gilda lög nr. 91/2007 með síðari breytingum og reglur nr. 323/2008.

Til að öðlast rétt til úthlutunar úr sjóðnum þurfa höfundar og rétthafar að sækja um á sérstökum eyðublöðum sem finna má á heimasíðu,  https://rsi.is/bokasafnagreidslur/umsoknareydublad/ Umsóknarfrestur er til 31. janúar

Vakin er athygli á að þeir sem nú þegar hafa skilað skráningu þurfa EKKI að skrá sig aftur. Ný verk eru sjálfkrafa færð á skrá höfundar.
18. desember 2020

Bestu bækur árins 2020 - starfsfólks bókaverslanna

Ár hvert kýs starfsfólk bókaverslana á Íslandi bækur ársins og úrslitin voru tilkynnt í Kiljunni 16. desember. Hagþenkir óskar höfundunum innilega til hamingju

Fræðibækur og handbækur

1. Konur sem kjósa eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur.
2. Spænska veikin eftir Gunnar Þór Bjarnason.
3. Fuglinn sem gat ekki flogið eftir Gísla Pálsson.
3. desember 2020

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021


Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt á Bessastöðum við hátíðlega athöfn 28. janúar.

Sumarliði R. Ísleifsson fékk verðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina, Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Blokkin á heimsenda og Elísabet Kristín Jökulsdóttir í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Aprílsólarkuldi. Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar 1 .desember í Kiljunni á RÚV.
Tilnefnt var í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, flokki barna- og ungmennabóka og flokki skáldverka.

Fræðibækur og rit almenns efnis:
  • Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir.Konur sem kjósa – aldarsaga. Sögufélag
Umsögn dómnefndar:
„Bókin er afrakstur mikilvægrar og vandaðrar fræðilegrar rannsóknar á jafnréttisbaráttunni á Íslandi í 100 ár, en einnig á stjórnmála- og menningarsögunni. Uppsetning bókarinnar er áhugaverð og hönnunin nýstárleg þar sem fjöldi ljósmynda, veggspjalda og úrklippa eru notaðar til að glæða söguna lífi.“ 
  • Gísli Pálsson. Fuglinn sem gat ekki flogið. Mál og menning
Umsögn dómnefndar:
„Aldauða dýrategunda hefur ekki verið gefinn mikill gaumur til þessa hér á landi. Því er mikill fengur að þessari bók, sem beinir sjónum okkar m.a. að útrýmingarhættu og margvíslegum umhverfisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Geirfuglabækur tveggja breskra fræðimanna sem héldu í Íslandsleiðangur 1858 og höfundur hefur rannsakað í þaula varpa nýju ljósi á sögu og örlög síðustu geirfuglanna við strendur landsins.“
  • Kjartan Ólafsson. Draumar og veruleiki –Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Mál og menning
Umsögn dómnefndar:
„Verkið er yfirgripsmikið og varpar áhugaverðu ljósi á stjórnmála- og stéttasögu vinstri manna hér á landi á 20. öldinni af miklu innsæi og hreinskilni. Um er að ræða tímamótarit þar sem nýjar og áður óaðgengilegar heimildir eru nýttar.“
  • Pétur H. Ármannson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Hið íslenska bókmenntafélag
Umsögn dómnefndar:
„Vandað og löngu tímabært ritverk um fyrsta Íslendinginn sem lauk háskólaprófi í byggingarlist á síðustu öld. Líf Guðjóns Samúelssonar húsameistara var helgað starfi hans og list. Saga hans og ævistarfsins er vel og skilmerkilega rakin í bókinni. Höfundur byggir á víðtækum rannsóknum sínum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Fjölmargar myndir og uppdrættir prýða bókina.“
  • Sumarliði R. Ísleifsson. Í fjarska norðursins : Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Sögufélag
Umsögn dómnefndar:
„Höfundi tekst að færa lesendum efni rannsóknar sinnar á mjög aðgengilegan og skýran hátt, þar sem hann varpar ljósi á rúmlega 1000 ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og vel myndskreytt.“

Dómnefnd skipuðu: Einar Örn Stefánsson, formaður dómnefndar, Björn Pétursson og Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir.

Fréttin í heild sinni á RUV: https://www.ruv.is/frett/2020/12/02/tilnefningar-til-islensku-bokmenntaverdlaunanna-kynntar
Þórunnartúni 2, annarri hæð.  —  Skrifstofa nr. 7  —  105 Reykjavík  —  Sími: 551 95 99  —  hagthenkir[hja]hagthenkir.is
Umsjón