ENGLISH

DEUTSCH


Markmið Hagþenkis er að gæta hagsmuna og réttar
félagsmanna og bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita
og kennslugagna og annars sem félagsmenn vinna að.

 

FÉLAGSAÐILD
» Fréttir
6. janúar 2021

Nýskráningar vegna greiðslna vegna útlána á bókasöfnum

Af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot á bókasöfnum er úthlutað til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa, samkvæmt útlánum og afnotum verka þeirra á bókasöfnum. Um úthlutun gilda lög nr. 91/2007 með síðari breytingum og reglur nr. 323/2008.

Til að öðlast rétt til úthlutunar úr sjóðnum þurfa höfundar og rétthafar að sækja um á sérstökum eyðublöðum sem finna má á heimasíðu,  https://rsi.is/bokasafnagreidslur/umsoknareydublad/ Umsóknarfrestur er til 31. janúar

Vakin er athygli á að þeir sem nú þegar hafa skilað skráningu þurfa EKKI að skrá sig aftur. Ný verk eru sjálfkrafa færð á skrá höfundar.
18. desember 2020

Bestu bækur árins 2020 - starfsfólks bókaverslanna

Ár hvert kýs starfsfólk bókaverslana á Íslandi bækur ársins og úrslitin voru tilkynnt í Kiljunni 16. desember. Hagþenkir óskar höfundunum innilega til hamingju

Fræðibækur og handbækur

1. Konur sem kjósa eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur.
2. Spænska veikin eftir Gunnar Þór Bjarnason.
3. Fuglinn sem gat ekki flogið eftir Gísla Pálsson.
3. desember 2020

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar 1 .desember í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV. Tilnefnt var í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, flokki barna- og ungmennabóka og flokki skáldverka.

Fræðibækur og rit almenns efnis:
  • Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir.Konur sem kjósa – aldarsaga. Sögufélag
Umsögn dómnefndar:
„Bókin er afrakstur mikilvægrar og vandaðrar fræðilegrar rannsóknar á jafnréttisbaráttunni á Íslandi í 100 ár, en einnig á stjórnmála- og menningarsögunni. Uppsetning bókarinnar er áhugaverð og hönnunin nýstárleg þar sem fjöldi ljósmynda, veggspjalda og úrklippa eru notaðar til að glæða söguna lífi.“ 
  • Gísli Pálsson. Fuglinn sem gat ekki flogið. Mál og menning
Umsögn dómnefndar:
„Aldauða dýrategunda hefur ekki verið gefinn mikill gaumur til þessa hér á landi. Því er mikill fengur að þessari bók, sem beinir sjónum okkar m.a. að útrýmingarhættu og margvíslegum umhverfisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Geirfuglabækur tveggja breskra fræðimanna sem héldu í Íslandsleiðangur 1858 og höfundur hefur rannsakað í þaula varpa nýju ljósi á sögu og örlög síðustu geirfuglanna við strendur landsins.“
  • Kjartan Ólafsson. Draumar og veruleiki –Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Mál og menning
Umsögn dómnefndar:
„Verkið er yfirgripsmikið og varpar áhugaverðu ljósi á stjórnmála- og stéttasögu vinstri manna hér á landi á 20. öldinni af miklu innsæi og hreinskilni. Um er að ræða tímamótarit þar sem nýjar og áður óaðgengilegar heimildir eru nýttar.“
  • Pétur H. Ármannson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Hið íslenska bókmenntafélag
Umsögn dómnefndar:
„Vandað og löngu tímabært ritverk um fyrsta Íslendinginn sem lauk háskólaprófi í byggingarlist á síðustu öld. Líf Guðjóns Samúelssonar húsameistara var helgað starfi hans og list. Saga hans og ævistarfsins er vel og skilmerkilega rakin í bókinni. Höfundur byggir á víðtækum rannsóknum sínum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Fjölmargar myndir og uppdrættir prýða bókina.“
  • Sumarliði R. Ísleifsson. Í fjarska norðursins : Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Sögufélag
Umsögn dómnefndar:
„Höfundi tekst að færa lesendum efni rannsóknar sinnar á mjög aðgengilegan og skýran hátt, þar sem hann varpar ljósi á rúmlega 1000 ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og vel myndskreytt.“

Dómnefnd skipuðu: Einar Örn Stefánsson, formaður dómnefndar, Björn Pétursson og Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir.

Fréttin í heild sinni á RUV: https://www.ruv.is/frett/2020/12/02/tilnefningar-til-islensku-bokmenntaverdlaunanna-kynntar
3. desember 2020

Ósk um leyfi til að nýta útgefna texta þína í málrannsóknum og máltækniverkefnum

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum vinnur nú að því, sem hluta af nýbyrjuðu máltækniverkefni stjórnvalda, að bæta textum í safn sitt sem gengur undir heitinu Risamálheild. Þetta er safn fjölbreyttra texta úr ýmsum áttum, nú alls 1,5 milljarðar orða. Stærsti hlutinn er efni úr prentuðum blöðum, tímaritum og vefmiðlum en einnig eru þarna dómar, lagasafnið, Alþingisræður, efni af Vísindavefnum og Wikipediu, og ýmislegt fleira.

Þessir textar eru nýttir á tvo vegu. Annars vegar eru þeir aðgengilegir til leitar í Risamálheildinni http://(https://malheildir.arnastofnun.is) gegnum leitarviðmótið KORP. Þannig nýtast þeir almenningi og fjölmiðlafólki en ekki síst fræðimönnum á ýmsum sviðum – málfræðingum, sagnfræðingum, bókmenntafræðingum, stjórnmálafræðingum, félagsfræðingum o.s.frv. Óhætt er að segja að þessi aðgangur að textunum gerbreyti aðstöðu til ýmiss konar rannsókna í hug- og félagsvísindum, hliðstætt því sem vefurinn http://tímarit.is hefur þegar gert.

Hins vegar eru textarnir nýttir í máltækni, einkum áðurnefndu máltækniverkefni stjórnvalda. Úr þeim má vinna mállíkön – margvíslegar tölfræðilegar upplýsingar um tíðni og notkun orða, orðasambanda og setningagerða o.m.fl. Þessi tölfræðigögn og mállíkön eru undirstaða hvers kyns máltæknibúnaðar – vélrænna þýðinga, talgervla, talgreina, leiðréttingarforrita o.fl. Textarnir eru vistaðir hjá CLARIN-miðstöðinni á Árnastofnun (https://clarin.is) og þangað er hægt að sækja þá til nota í máltækniverkefnum.
3. desember 2020

Fjöruverðlaunin tilnefningar


Tilkynnt hefur verið hvaða bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi. Dómnefndir hafa tilnefnt bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir sem og fræðibækur og rit almenns eðlis.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna. Í ljósi COVID-19 faraldursins og samkomutakmarka var horfið frá hefðundinni tilnefningahátíð en vonast er til að hægt verði að afhenda verðlaunin, samkvæmt venju, við hátíðlega athöfn í snemma árs 2021.

Eftirfarandi höfundar og bækur hluti tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
  • Íslenskir matþörungar – ofurfæða úr fjörunni eftir Eydísi Mary Jónsdóttur, Hinrik Carl Ellertsson, Karl Petersson og Silju Dögg Gunnarsdóttur                                                                                                                                    
  • Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur                                                                                                                                     
  • Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 eftir Hilmu Gunnarsdóttur
Sjá allar tilnefningar og rökstuðning á heimasíðu Fjöruverðlaunna http://fjoruverdlaunin.is/
5. nóvember 2020

Veittar þóknanir vegna ljósritunar útgefinna verka og skannaðra

Hagþenkir auglýsti í september eftir umsóknum um þóknun vegna ljósritunar útgefinna verka og skannaðra og barst 71 gild umsókn. Stjórn Hagþenkis ákvaðar þóknanir á stjórnarfundi og er tekið mið að rökstuðningi umsækjanda og var einni umsókn hafnað. 15 umsækjendur hlutu 105.000 kr., 15 umsækjendur 35.000 kr. og 41 umsækjandi 70.000 kr. Samtals 4.970.000 kr.  Eftirfararndir umsækjendur hlutu þóknun:  
 
20. október 2020

Minningarorð um Hörð Bergmann - heiðursfélaga HagþenkisHörður Bergmann f. 24. apríl-d. 10. október 2020, var einn af stofnendum Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna árið 1983. Hann var formaður 1983-1989 og  framkvæmdastjóri 1993-2001. Hann sat fyrir hönd Hagþenkis í stjórn Fjölís 1986-2002. Á 25 ára afmæli Hagþenkis voru Hörður Bergmann og Ágúst H. Bjarnason fyrrum varaformaður gerðir að heiðursfélögum.

Gísli Sigurðsson, prófessor og fyrrum formaður Hagþenkis, ritaði minningargrein í Morgunblaðið um Hörð Bergmann, kennarann, baráttu- og hugsjónamanninn sem er birt á vef Hagþenkis með leyfi hans:
Þórunnartúni 2, annarri hæð.  —  Skrifstofa nr. 7  —  105 Reykjavík  —  Sími: 551 95 99  —  hagthenkir[hja]hagthenkir.is
Umsjón