ENGLISH

DEUTSCH


Markmið Hagþenkis er að gæta hagsmuna og réttar
félagsmanna og bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita
og kennslugagna og annars sem félagsmenn vinna að.

 

FÉLAGSAÐILD
» Fréttir
19. mars 2018

Aðalfundur 20. mars kl. 17:45

Aðalfundur Hagþenkis verður haldinn þriðjudaginn 20. mars kl. 17:45 í sal Bókasafns Dagsbrúnar 4. hæð, Þórunnartúni 2 / Skúlatúni 2. 105 Reykjavík. 
 
Dagskrá verður sem hér segir:
Skýrsla stjórnar og reikningar
Skipting tekna
Kjör stjórnar, formanns og fulltrúaráðs
Ákvörðun félagsgjalds fyrir næsta reikningsár
Önnur mál 
1. mars 2018

Viðurkenning Hagþenkis 2017 hlýtur Steinunn Kristjánsdóttir


Viðurkenning Hagþenkis var veitt þann 28. maí í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn en hana hlaut Steinunn Kristjánsdóttir fyrir ritið, Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir, sem Sögufélag og Þjóðminjasafn Íslands gáfu út. Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins segir um ritið: Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi. Viðurkenningin felst í árituðu skjali og 1.250.000 kr. Sverrir Guðjónsson tónlistarmaður  flutti tónlist.
 
Hagþenkir– félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða höfundur hlýtur að lokum viðurkenninguna og í ráðinu sátu: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Helgi Björnsson, Henry Alexander Henrysson og Sólrún Harðardóttir sem flutti greinargerð ráðsins. 

Ávarp Steinunnar Kristjánsdóttur 

Mér er það sannur heiður að taka við Viðurkenningu Hagþenkis hér í dag fyrir bók mína, Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Ég lít á viðurkenninguna sem staðfestingu þess að efnislegar leifar geti ekki síður en skjöl – eða aðrar heimildir – varpað ljósi á sögu okkar og fortíð. Þetta kann að hljóma sjálfsagt í eyrum margra en það er ekki svo því gjarnan er litið þannig á að það sem ekki hefur verið skráð eða skrifað niður sé hreinlega ekki til. Að bein sjúklings með sárasótt segi minna en skjal um kaup á jörð. Eða eins og að þjóð án ritmenningar eigi sér enga sögu.
Í mínum huga segja varðveitt skjöl aðeins hálfa söguna, rétt eins og bein sjúklingsins. Sem fornleifafræðingur vil ég halda því fram að hinar efnislegu leifar – efnismenningin – veiti jafnan upplýsingar um hversdaginn á meðan þær rituðu sýni öðru fremur hvernig lífið og tilveran hefði átt á að vera: hið æskilega líf út frá sjónarhorni þess sem skráði. Hafa ber sömuleiðis í huga að sá sem stundar fræðistörf hefur alltaf val um nálgun á viðfangsefni sín. Ekkert ratar til dæmis af sjálfsdáðum á spjöld sögunnar því hún er sjálf sett saman og mótuð af þeim sem hana ritar. Og þess vegna er líka svo endalaust mikil saga enn ósögð; sögur af konum, körlum, börnum, hinum jaðarsettu eða ráðandi, hvers kyns trú, siðum, menningu og pólitík eða bara af tíðandalausum hversdeginum. Sjónarhornin eru svo óteljandi mörg en saman geta þau vissulega byggt upp ríkulegri mynd af horfnum tíma en ella.

Ég viðurkenni að það reyndist mér meiri áskorun en ég áttaði mig á í fyrstu að draga íslensku klaustrin fram í dagsljósið með markvissri leit að þeim og skrifa um þau bók. Saga klaustranna er svo ríkuleg og margbrotin en hún nær einmitt yfir hversdaginn rétt eins og pólitískt amstur yfirvalda. Og enn er svo margt ósagt um þau. Mig langar því að nota þetta tækifæri til að þakka af öllu hjarta þeim sem studdu mig og fylgdu mér á þessari ströngu vegferð. Efst í huga mér er fjölskylda mín og vinir, og þeir samstarfsmenn mínir sem lögðu sitt af mörkum við leitina: Vala Gunnarsdóttir, Hermann Jakob Hjartarson, Helga Jónsdóttir, Scott Riddell, Joe W. Walser og fleiri. Félögum mínum á Þjóðminjasafni þakka ég einnig fyrir að hafa haft endalausa þolinmæði að hlusta á misspennandi sögur úr leitinni og loks Hrefnu Róbertsdóttur forseta Sögufélags fyrir að hafa haft trú á mér þegar ég athugaði með útgáfu á bókinni hjá félaginu. Þá vil ég þakka Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði fyrir að styðja mig með svo margvíslegum hætti við útgáfuna og verkefni mitt allt, Sigrúnu Sigvaldadóttur fyrir að gera bókina svona fallega, Hildi Finnsdóttur og Helga Grímssyni fyrir frábæran yfirlestur, sem og öðrum sem lásu yfir handritið á vinnslustigi: þeim Árna Daníel Júlíussyni, Vilborgu Auði Ísleifsdóttur og Orra Vésteinssyni. Síðast en ekki síst vil ég þakka Gísla bróður mínum sem sannfærði mig um að hægt er að þjóna tveimur herrum í einu, þ.e. að skrifa bók fyrir jafnt fræðimenn sem og almenning í senn. Og það var hann sem kenndi mér enn fremur að reyna ekki að fela það að höfundurinn sjálfur er alltaf hluti af sínu eigin verki.

Fjárframlög til verksins alls komu frá Rannsóknasjóði Íslands, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Þjóðminjasafni Íslands, sjóðum ESB og Miðstöð íslenskra bókmennta.

Takk fyrir
28. febrúar 2018

Rökstuðningur Viðurkenningarráðsins - flutt af Sólrúnu HarðardótturÁgætu gestir.

Þetta er í 31. sinn sem Viðurkenning Hagþenkis er veitt „fyrir samningu fræðirita, kennslugagna eða aðra miðlun fræðilegs efnis“. „Hlutverk viðurkenningarinnar er að vekja athygli á mikilvægu höfundarverki og fræðilegu framlagi.“
Í viðurkenningarráði Hagþenkis eiga sæti fimm fulltrúar sem skipaðir eru af stjórn félagsins til tveggja ára í senn. Í núverandi ráði sitja Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur, Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Henry Alexander Henrysson heimspekingur og ég, Sólrún Harðardóttir námsefnishöfundur. Við hittumst vikulega frá því í október sl. og fram á nýtt ár og fjölluðum um fjölda verka. Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis var okkur dyggilega innan handar og sá um allt ytra skipulag, auk þess sem hún útvegaði okkur bækur! Þetta var skemmtilegt starf og góð samvinna. Þann 1. febrúar sl. voru síðan tíu rit tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis. Ritin og höfundar þeirra eru:
20. febrúar 2018

Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna auglýsir eftir umsóknum

Rannís hefur umsýslu með sjóðnum og næsti umsóknafrestur er til 20. mars 2018 kl. 16:00.
Sjá nánar á heimasíðu sjóðsins: https://www.rannis.is/sjodir/menntun/starfslaunasjodur-sjalfstaett-starfandi-fraedimanna/
1. febrúar 2018

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2017


Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2017 voru kynntar af formanni Hagþenkis, Jóni Yngva Jóhannssyni, í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið fimmtudaginn 1. feb. kl. 17 í Borgarbókasafni, Grófarhúsi.
Viðurkenning Hagþenkis verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni um mánaðamót 28. maí og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.250.000 kr. Á Degi bókarinnar þann 23. apríl standa Hagþenkir og Borgarbókasafnið fyrir kynningu á tilnefndum bókum í samstarfi við höfunda þeirra. 

Efirfarandi höfundar og rit hlutu tilnefningu: 

Aðalheiður Jóhannsdóttir. Inngangur að skipulagsrétti – lagarammi og réttarframkvæmd. Háskólaútgáfan.
Heildstætt rit um flókinn heim skipulagsréttar. Handbók sem gagnast bæði lærðum og leikum.
 
Ásdís Jóelsdóttir. Íslenska lopapeysan – uppruni, saga og hönnun. Háskólaútgáfan.
Margþætt rannsókn í textílfræði sem lýsir samspili handverks, hönnunar og sögu prjónaiðnaðar í fallegri útgáfu.
 
Egill Ólafsson † og Heiðar Lind Hansson. Saga Borgarness I og II. – Byggðin við Brákarpoll og Bærinn við brúna. Borgarbyggð og Opna.
Áhugaverð saga sem á sér skýran samhljóm í þróun Íslandsbyggðar almennt, studd ríkulegu og fjölbreyttu myndefni.
 
Hjálmar Sveinsson og Hrund Skarphéðinsdóttir. Borgin – heimkynni okkar. Mál og menning.
Fróðleg hugvekja og framlag til þjóðfélagsumræðu um skipulag, lífshætti og umhverfismál í borgarsamfélagi.
 
Stefán Arnórsson. Jarðhiti og jarðarauðlindir. Hið íslenska bókmenntafélag.
Einstaklega ítarlegt rit um auðlindir í jörðu og brýn áminning um að huga að sjálfbærni við nýtingu náttúruauðæfa.
 
Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Ójöfnuður á Íslandi – skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi. Háskólaútgáfan.
Skýr og aðgengileg greining á þróun eigna og tekna á Íslandi og misskiptingu auðs í alþjóðlegum samanburði.
 
Steinunn Kristjánsdóttir. Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélag og Þjóðminjasafn Íslands.
Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi.
 
Unnur Jökulsdóttir. Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Mál og menning.
Óvenju hrífandi frásagnir af rannsóknum við Mývatn og sambandi manns og náttúru.
 
Úlfar Bragason. Frelsi, menning, framför – um bréf og greinar Jóns Halldórssonar. Háskólaútgáfan.
Næm lýsing á sjálfsmynd, væntingum og viðhorfum vesturfara við aðlögun þeirra að samfélagi og menningu Norður-Ameríku.
 
Vilhelm Vilhelmsson. Sjálfstætt fólk – vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Sögufélag.
Aðgengilegt og vel skrifað rit sem sýnir hvernig vinnufólk fyrri tíma gat haft áhrif á bága stöðu sína með hversdagslegu andófi og óhlýðni.

Viðurkenningarráð Hagþenkis er ævinlega skipað fimm félagmönnum til tveggja ára i senn í því eru: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Henry Alexander Henrysson, Helgi Björnsson og Sólrún Harðardóttir.
31. janúar 2018

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2017


Unnur Jökulsdóttir, Áslaug Jónsdóttir og  Kristín Eiríksdóttir eru handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 30. janúar. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum.
  • Unnur Jökulsdóttir hlaut verðlaun fyrir bókina Undur Mývatns: um fugla, flugur, fiska og fólk í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.
  • Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler hlutu verðlaun í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Skrímsli í vanda.
  • Kristín Eiríksdóttir hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt.
  •  
25. janúar 2018

Fjöruverðlaunin

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 15. janúar 2018. Verðlaunin hlutu í flokki fræðibóka og rita almenns, Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur. Í flokki fagurbókmennta, Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur. Í flokki barna- og unglingabókmennta, Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.

Tilnefndar voru eftirfarandi bækur:
Þórunnartúni 2, annarri hæð.  —  Skrifstofa nr. 7  —  105 Reykjavík  —  Sími: 551 95 99  —  hagthenkir[hja]hagthenkir.is
Umsjón