Rétthafagátt
RétthafaGagátt fyrir handritshöfunda fræðslu- og heimildamynda
ÚTHLUTUNARSTEFNA HAGÞENKIS VEGNA 11. GR. L. NR. 73/1972
1. Félagið er aðili að Innheimtumiðstöð rétthafa (IHM) og annast úthlutun til handritshöfunda fræðslu- og heimildamynda á greiðslum sem berast frá IHM á grundvelli 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972.
2. Stjórn félagsins setur úthlutunarreglur á grundvelli úthlutunarstefnu þessarar og hefur umsjón og eftirlit með úthlutun.
3. Stjórn skal leitast við að bera kennsl á hlutaðeigandi rétthafa og skal auglýsa úthlutun opinberlega.
4. Félaginu er heimilt að innheimta umsýslukostnað til að standa straum af umsýslu og draga af réttindatekjum. Slíkur kostnaður getur falist í rekstrarkostnaði s.s. við gerð og viðhald heimasíðu, launakostnaði, kostnaði vegna aðstöðu, ráðgjafarkostnaði s.s. frá lögmönnum og endurskoðendum svo og öðrum kostnaði sem fellur til í því skyni að félagið uppfylli skilyrði laga til þess að geta sinnt úthlutun. Umsýslukostnaður skal þó að hámarki nema 20 % af heildargreiðslum.
5. Félaginu er heimilt að veita félagslega, menningarlega eða menntunartengda þjónustu sem fjármögnuð er með frádrætti frá tekjum af réttindum, s.s. í formi styrkja. Skal slík þjónusta veitt á grundvelli sanngjarnra viðmiða þar sem jafnræðis er gætt og að hámarki nema 18 % af heildargreiðslum.
6. Miða skal við að greiða út rétthafagreiðslur eigi síðar en níu mánuðum eftir lok þess fjárhagsárs þegar tekjur af réttindunum voru innheimtar, nema hlutlægar ástæður komi í veg fyrir það.
7. Félagið heldur aðskilið bókhald vegna innheimtu og úthlutunar réttindagreiðslna og birta árlega gagnsæisskýrslu um starfsemina í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2019 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og samþykktir félagsins, sem kynnt skal á aðalfundi.
8. Úthlutunarreglur skulu gagnsæjar og taka mið af eftirfarandi viðmiðum við úthlutun:
a. Að úthlutað sé til handritshöfunda fræðslu – og heimildamynda.
b. Að úthlutað sé til höfunda verka sem hafa verið gerð aðgengileg almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði er viðkomandi kýs sjálfur eða hafi verið gefið út á myndriti.
c. Að greiðslum sé úthlutað til hlutaðeigandi rétthafa, óháð félagsaðild.
d. Að skilgreint sé hvað þurfi að koma fram í umsókn og hversu lengi hún er í gildi.
e. Að skilgreind séu viðmið við úthlutun, þ.á m. lágmarksviðmið til þess að hljóta úthlutun.
Samþykkt á aðalfundi í apríl 2021.
Reglur um bætur vegna eintakagerðar til einkanota skv. 11.gr. höfundalaga
1. gr. Gildissvið. Reglur þessar taka til greiðslna til höfunda skv. 11. grein höfundalaga nr. 73/1972. Hagþenkir – félag fræðirithöfunda og höfunda kennslugagna tekur við greiðslum frá Innheimtumiðstöð rétthafa (IHM) og úthlutar síðan til handritshöfunda fræðslu- og heimildamynda.
2. gr. Réttur til greiðslu. Réttur til greiðslu er bundinn því að viðkomandi verki hafi verið útvarpað, að það hafi verið gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði er hann sjálfur kýs eða hafi verið gefið út á hljóðriti eða myndriti. Rétturinn nær til fræðslu- og heimildamynda. Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist réttur til úthlutunar eftir samkomulagi þeirra. Ef samkomulag næst ekki um skiptingu, úrskurðar stjórn Hagþenkir um úthlutun.
3. gr. Auglýsing um úthlutun. Ár hvert skal auglýsa fyrirhugaða úthlutun til rétthafa IHM-greiðslna í dagblöðum og/á netmiðlum. a)Þeir einir fá greitt sem sækja um samkvæmt auglýsingunni. Skráningarupplýsingar á þar til gerðu viðmóti skulu innihalda fullt nafn rétthafa og umboðsmanns ef því er að skipta, kennitölu rétthafa og umboðsmanns, netföng og heimilisföng aðila og reikningsnúmer hjá íslenskri bankastofnun. b) Sé verk grundvöllur úthlutunarréttar, þar sem höfundar eru fleiri en einn, þarf að geta hlutfalls höfundar í hverju verki fyrir sig. c) Í auglýsingu skal þess getið að réttur til úthlutunar skv. 2. gr. sé án tillits til félagsaðildar.
4. gr. Skipting. Því fé sem Hagþenkir veitir móttöku frá IHM til greiðslu bóta vegna eintakagerðar til einkanota skal ráðstafa sem næst því sem hér segir, að frádregnum kostnaði: 97 % til höfunda handrita fræðslu- og heimildamynda. 3% skal haldið eftir vegna krafna sem gætu hafa misfarist. Það fé bætist við IHM-fé til úthlutunar að fjórum árum liðnum.
5. gr. Úthlutun. Úthlutun til rétthafa miðast við liðið almanaksár. Úthlutun fer fram með tvennum hætti: Rétthafagreiðslur skv. skráðum flutningi. Skráningarupplýsingar hafa verið skráðar einu sinni og gildir skráning þá ótímabundið. Það er á ábyrgð höfunda að bæta við skráninguna nýjum verkum. Rétthöfum ber að tilkynna breytingar á heimilisfangi, netfangi eða bankareikningi og hlutfallsskiptingu í nýjum verkum, ef á við. Greitt skal skv. flutningstíma í mínútum á grundvelli upplýsinga frá stofnunum.
Berist ómerkt frá frá IHM skal því veitt í handritsstyrki fyrir handritshöfunda fræðslu- og heimildamynda og ferða- og menntastyrki, óháð félagsaðild. Umsýslukostnaður skal þó að hámarki nema 20% af heildargreiðslunni. Þriggja manna úthlutunarráð til tveggja ára í senn metur umsóknir um handritsstyrki. Stjórn Hagþenki ákvarðar ferða- og menntastyrki og einungis eru styrktar ferðir sem hafa verið farnar.
6. gr. Gagnaöflun. Hagþenkir – félag fræðirithöfunda og höfunda kennslugagna gerir samkomulag við RÚV, 365 miðla og aðrar sjónvarps- og útvarpsstöðvar um að veita upplýsingar um birtingar verka á viðkomandi almanaksári. Í upplýsingum skulu koma fram nöfn höfunda, heiti verka, heiti framleiðslufyrirtækis eða dreifingaraðila, útsendingartími, fjöldi endursýninga og lengd í mínútum.
7. gr. Umsýsluaðilar úthlutunar. Framkvæmdastjóri Hagþenkis sér um úthlutun eftir skráðum upplýsingum. Þegar vafaatriði koma upp er þeim vísað til stjórnar.
8. gr. Umsýsla. Framkvæmdastjóri Hagþenkis sýslar um féð frá IHM. Í ársreikningi Hagþenkis komi fram tekjur frá IHM og ráðstöfun þeirra, þar með talinn kostnaður og úthlutun. Raunkostnaður umsýslu vegna meðferðar tekna frá IHM skal greiddur af óskiptu framlagi frá IHM til Hagþenkis. Umsýslukostnaður Hagþenkis skal aldrei nema stærri hluta en 20% af heildartekjum frá IHM.
9. gr. Endurskoðunarákvæði. Reglur þessar skulu endurskoðaðar eftir fyrstu úthlutun á grundvelli þeirra. Eftir það skulu þær endurskoðaðar á að minnsta kosti þriggja ára fresti