Höfundaréttur

réttur höfunda

Í 1. grein höfundalaga eru réttindi höfunda skilgreind með þessum orðum: „Höfundur að bókmenntaverki eða listaverki á eignarrétt á því með þeim takmörkunum, sem í lögum þessum greinir.“ Takmarkanirnar eru einkum fólgnar í heimildum sem gefnar eru í lögunum til að gera eintök af verki til einkanota, til að taka verk í safnrit, útvarpa verkum og ljósrita verk. 

Samkvæmt lögunum skal koma greiðsla fyrir útvarpsflutning og aðili sem óskar eftir að fá að ljósrita verk umfram einkanot skal gera um það samning við samtök höfundarréttarfélaga eða höfund. 

Eignarréttur höfundar á verki felur í sér þá grundvallarreglu að það verður að semja við hann um eintakagerð og flutning á hverju því verki sem réttur hans tekur til. Um þetta segir í 2.gr. höfundalaga: „Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum.“ Þennan einkarétt nota rithöfundar til að gera útgáfusamning við þá sem hafa hug á að gefa verk þeirra út. Þar er fjallað misítarlega um réttindi og skyldur samningsaðila, meðal annars það hve mörg eintök höfundur heimilar að gerð séu, hvað greitt skuli fyrir þá heimild og hvernig. Um útgáfusamninga er fjallað í sérstökum kafla í höfundalögum (33.- 40.gr.).

Höfundarréttur í skiptum starfsmanna og vinnuveitenda

Íslensku höfundalögin geyma ekki, frekar en hliðstæð lög á Norður-löndum, almenn ákvæði um höfundarrétt launþega eða vinnuveitenda. Í 42. gr. b- lið íslensku laganna er hinsvegar sérstakt ákvæði um höfundarrétt vegna gerðar tölvuforrita. Þar segir: Nú er gerð tölvuforrita liður í ráðningarskilmálum og eignast þá atvinnurekandi höfundarréttinn að forritinu nema áskilnaður sé gerður á annan veg. Þessu er á annan veg farið sé um ritverk að ræða eins og vikið er að hér á undan.
 

Þeim sem vilja kynna sér viðhorf sérfróðra aðila um höfunarrétt í vinnusambandi og óskráðar réttarreglur, sem miða má við í því efni, skal bent á tvenns konar heimildir sem vitnað verður til hér á eftir.
 

Fyrst skal nefna grein, sem birtist í Tímariti lögfræðinga, 3.h. 1985 eftir sérfræðing í höfundarrétti. Hún nefnist: Höfundarréttur í skiptum starfsmanna og vinnuveitenda og er eftir Sólveigu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra. Í greininni segir m.a. um það sem hér hefur verið fjallað um: „Gagnstætt engilsaxneska kerfinu gildir í flestum löndum Evrópu, þ.á m. Norðurlöndum, sú meginregla, sem áður hefur verið vikið að og kemur fram í 1.gr. íslensku höfundalaganna, að höfundurinn einn á höfundarrétt á verki, þegar það verður til. Réttindi annarra, þ.á m. vinnuveitenda, verða því afleidd réttindi. Þetta hefur oft verið nefnt meginlandskerfið í samskiptum starfsmanna og vinnuveitenda.“
 

Þar sem ekki er fjallað sérstaklega um samband starfsmanna og vinnuveitenda í íslensku höfundalögunum verður að mati Sólveigar að notast við hin almennu lagaákvæði um framsal.
 

Í öðru lagi skal nefnt að fjallað er allítarlega um höfundarrétt í vinnusambandi í sérstökum kafla í riti Páls Sigurðssonar, prófessors, Höfundaréttur. Meginreglur íslensks réttar um höfundavernd, Háskólaútgáfan 1994. Þar er minnst á gildi samninga milli vinnuveitenda og launþega um stöðu sína og réttindi á þessu sviði og síðan segir: „Við túlkun óljósra samningsákvæða af þessu tagi verður væntanlega almennt að beita þröngri túlkun, höfundi til hagsbóta, svo sem yfirleitt á við alla samninga um höfundarréttindi, þannig að atvinnurekandinn verði að jafnaði að bera halla af óskýrum eða illa orðuðum samningum.“ Páll nefnir að fleira en samningur gæti veitt vinnuveitanda hlutdeild í höfundarrétti, s.s. þegar sköpun hugverka tengist starfinu náið, og segir að við túlkun vinnusamnings sé „ … sennilegt að höfundarréttur launþegans verði, að öðru jöfnu, metinn því traustari eða ríkari gagnvart vinnuveitandanum sem tengsl aðilanna eru minni og eftir því sem launþeginn er sjálfstæðari í starfi sínu.“
 

Í báðum þeim heimildum, sem hér er vísað til, er fjallað um sérstöðu og styrk höfundarréttar á Norðurlöndum og kenningar norrænna fræðimanna um höfundarrétt í samskiptum launþega og vinnuveitenda. Páll segir þær kenningar m.a. fela í sér „ … að hafi eigi verið um annað samið fái vinnuveitandinn einungis þann höfundarrétt, sem honum er nauðsynlegur til þess að nýta verkið í venjulegri starfsemi sinni, að svo miklu leiti sem sanngjarnt, nauðsynlegt og eðlilegt getur talist, ef markmiðið með vinnusamningnum á að nást.“ Í framhaldinu er síðan vikið að túlkun á réttindum aðilanna með þessum orðum: „Virðist almennt vera efni til að beita þröngri túlkun á þessu sviði (þ.e. varðandi þegjandi samkomulag og forsendur) á sama hátt og um eiginlega samninga um framsal höfundarréttar, frumhöfundinum (launþeganum) í hag, þannig að niðurstaðan verði almennt sú, að vinnuveitandinn eignist ekki ríkari rétt yfir verki, sem til verður við þessar aðstæður, en honum er brýn þörf á, nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Að sjálfsögðu er síðan matsatriði, hverjar þarfir vinnuveitandans eru í raun, og vitanlega má ekki bera hagsmuni hans fyrir borð við túlkun vinnusambandsins, hér sem endranær.“


Af því sem hér hefur verið drepið á má ráða hve mikilvægt er fyrir alla þá sem eiga höfundarrétt á verkum, sem samin eru í vinnutíma hjá stofnun eða fyrirtæki, að vaka yfir rétti sínum og gera sem skýrast í ráðningarsamningi hvaða rétti er framsalað til vinnuveitandans. Ennfremur skal minnt á að höfundur getur ekki í umræddum tilvikum, fremur en endranær, afsalað sér sæmdarrétti sínum, þ. e. að ekki séu gerðar breytingar á verki hans án leyfis og að verk séu auðkennd honum með viðeigandi hætti.

Samantekt byggð á efni frá Kopinor um áminningar um höfundarétt. Einnig var grein um sama efni birt í Morgunblaðinu þann 24. júlí 2002.

Hvers konar ritverk njóta höfundarréttarverndar?

Í 1. gr. laganna er skilgreint nánar hvers konar verk njóta höfundar-réttarverndar: „Til bókmennta og lista teljast samið mál í ræðu og riti … á hvern hátt og í hvaða formi sem verkið birtist.“ Ennfremur segir:„ Uppdrættir, teikningar, mótanir, líkön og önnur þess háttar gögn, sem fræðslu veita um málefni eða skýra þau, njóta einnig verndar með sama hætti og bókmenntaverk.“ Einnig eru tölvuforrit nefnd í þessu samhengi. Enginn vafi leikur á því að fræðirit og námsefni í hvers konar formi njóta verndar höfundalaga og höfundar slíks efnis njóta allra réttinda sem höfundum eru veitt með lögunum.

Um framsal á rétti höfunda

Rithöfundar og fræðimenn geta framselt öðrum rétt til eintakagerðar á verkum sínum með útgáfusamningi. (Sbr. 33. – 40. gr. höfundalaga). Framsali getur ýmist fylgt einkaréttur samkvæmt samningi eða svokallaður leyfisrétur (licence). Sé gefinn einkaréttur til afnota verks er höfundi óheimilt að veita öðrum sams konar rétt eða nota hann sjálfur en sé leyfisréttur veittur geta fleiri haft afnotaheimildina. Samkvæmt ákvæðum 28. gr. höfundalaga er framsalshafa ekki heimilt að framselja öðrum höfundaréttinn án samþykkis höfundar.

Hver getur átt höfundarrétt?

Höfundur telst sá sem skapar verk af því tagi sem höfundalög taka til. Réttur hans yfir verkinu stofnast um leið og það verður til. Þar sem réttarvernd höfundalaga er veitt fyrir persónulegt framlag höfundar til verksins leiðir það af sér þá grundvallarreglu að höfundur getur aðeins verið einstaklingur en ekki lögaðili (félag eða stofnun). Þannig getur skóli eða stofnun t.d. ekki átt höfundarrétt á námsefni eða fræðsluefni sem kennari eða annar starfsmaður semur. Höfundur getur hins vegar framselt öðrum rétt til eintakagerðar á grundvelli réttar síns.

Útgáfa á verkum starfsmanna stofnana og fyrirtækja

Í starfi launþega við ýmsar stofnanir og fyrirtæki geta orðið til verk sem starfsmaðurinn á höfundarétt á. Höfundur getur veitt vinnuveitanda sínum rétt til að nýta slíkt verk í venjulegri starfsemi sinni með munnlegu eða skriflegu samkomulagi, t.d. með ákvæðum í ráðningarsamningi. Í slíkum samningi ætti að skýra hvaða rétt vinnuveitandinn fær gegn því að greiða höfundi laun og skapa honum starfsaðstöðu á meðan hann er að semja verkið. Um frekari notkun slíkra verka, þ.á m. útgáfu þriðja aðila, er óhjákvæmilegt að gera sérstakan samning milli hlutaðeigandi starfsmanns og stofnunar/fyrirtækis vilji aðilar hafa sitt á hreinu.
 

Ljóst er af því sem hér hefur verið rakið að stofnun eða fyrirtæki hefur ekki lagalega heimild til að semja um útgáfu eða aðra notkun á verkum starfsmanna sinna, sem njóta verndar höfundalaga, nema hafa áður náð samkomulagi við hlutaðeigandi starfsmenn. Ennfremur er ljóst að skriflegur samningur um þetta efni dregur úr hættu á misskilningi og rangtúlkun. Stofnun eða fyrirtæki getur heldur ekki samið við þriðja aðila um greiðslur fyrir útgáfurétt, þóknun höfunda eða annað sem höfundar eiga rétt á samkvæmt höfundalögum nema hafa áður fengið umboð höfundanna til að semja um slíkt.
 

Ástæða er til að hvetja rétthafa til að nota þann rétt sem höfundum er gefinn um skilagrein um upplag og sölu með ákvæðum 37. gr. laganna.

Lög og reglugerðir

Tenglar