Inntökubeiðni

Inntökuskilyrði

Vinsamlega lestu vel inntökuskilyrðin fyrir neðan þennan ramma. Þú þarft að haka við reit til marks um að þú hafið lesið þau, teljir þig uppfylla þau og fallist á þau fyrir þitt leyti. Þegar þú hefur sent eyðublaðið inn færð þú sjálfvirkan tölvupóst með skilmálunum og vefkrækju sem þú þarft að smella á. Þannig sannreynum við að það sé eigandi netfangsins en ekki einhver annar aðili sem sendi inn inntökubeiðnina. Þegar þú hefur smellt á tölvupóstkrækjuna getum við tekið aðildarumsóknina til afgreiðslu. Ef þú færð ekki sjálfvirka póstinn innan fáinna mínútna eftir að hafa sent inn umsóknina, athugaðu þá hvort hann hafi e.t.v. lent í ruslpósthólfi en hafðu samband við okkur ef hann er heldur ekki þar.

Félagar geta orðið höfundar útgefinna fræðirita og kennslugagna og skylds efnis sem veita félaginu umboð til að annast fyrir sína hönd samninga í samræmi við 2. grein. Umsóknir um aðild skulu sendar stjórn félagsins, sem kannar rétt umsækjenda til aðildar að félaginu og ákveður hvort umsókn verður hafnað eða hún samþykkt. Ákvörðun stjórnar skal tilkynnt umsækjanda bréflega innan 4 vikna frá því umsókn berst.

Inntökuskilyrði eru að umsækjandi hafi skrifað um 100 síður af fræðitexta eða námsefni sem gefið er út af forlagi eða tímariti þar sem efni fer í gegnum formlegt ritstjórnarferli. Ef um þýðingu er að ræða er gert ráð fyrir um 200 síðum af texta. Höfundar fræðslu- og heimildamynda geta sótt um aðild að Hagþenki og er miðað við að umfang verka þeirra sé að lágmarki tvö heimildahandrit eða handrit að einni heimildaþáttaröð og að efnið hafi verið sýnt í sjónvarpi, flutt í hljóðvarpi eða kvikmyndað.

Dæmi um efni sem ekki fellur að inntökuskilyrðum eru skýrslur, námsritgerðir (t.d. meistara- og doktorsritgerðir), blaðagreinar og efni án útgefanda.  
 
Hagþenkir er samningsaðili við RÚV og Menntamálastofnun og Hagþenkir fer með réttindi félagsmanna gagnvart samningskvaðafélögunum Fjölís og IHM (Innheimtumiðstöð rétthafa).

Fjölís er hagsmunafélag sjö höfundaréttarsamtaka sem koma fram fyrir hönd rétthafa að verkum sem njóta höfundaréttar og nýtt eru með ljósritun, skönnun, rafrænni eftirgerð eða annarri hliðstæðri eftirgerð.
IHM eru hagsmunasamtök höfunda, listflytjenda og framleiðenda til réttargæslu í samræmi við 3.–6. mgr. 11 gr. höfundalaga.
 
Samkvæmt 2. grein laga Hagþenkis er  félagið  fagfélag höfunda fræðirita og kennslugagna og markmið þess er að gæta faglegra og fjárhagslegra, þar á meðal kjaralegra, hagsmuna félagsmanna sem og gæta réttar þeirra í hvívetna, þ.m.t. semja fyrir þeirra hönd sem og að bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita og kennslugagna. Félagið stendur vörð um réttindi félagsmanna og annarra rétthafa fræðirita og kennslugagna sem vernduð eru af höfundarétti og annast samningagerð félagsmanna við opinbera aðila og stjórnvöld um hvers kyns höfundaréttarleg hagsmunamál félagsmanna, fagleg sem og fjárhagsleg, þar á meðal um kjör. Að markmiðinu skal meðal annars vinna með því að:

  • afla upplýsinga og veita leiðbeiningar sem félagsmönnum mega að gagni koma.
  • annast samninga sem félagsfundir ákveða að gerðir skuli fyrir félagsmenn sameiginlega og vera aðili að rétthafasamtökum sem máli skipta í því sambandi.
  • úthluta, jafnt til félagsmanna og þeirra sem standa utan félagsins, því fé sem greitt er til félagsins samkvæmt slíkum samningum í samræmi við reglur sem samþykktar eru á félagsfundi.
  • vinna að því að lög, reglugerðir og reglur sem í gildi eru á hverjum tíma þjóni sem best markmiðum félagsins og vinna að sem víðtækastri viðurkenningu á gildi þess að starfsskilyrði höfunda fræðirita og kennslugagna séu sem best.
  • stjórn skipi samninganefndir þegar gerðir eru samningar við opinbera aðila og stjórnvöld, svo sem Menntamálastofnun um útgáfu námsefnis, um hagsmuni og kjör félagsmanna. Slíkar samninganefndir hafa fullt umboð stjórnar sem og félagsmanna til að gera samninga í nafni félagsins og félagsmanna.
  • Félagsmenn eru bundnir af samþykktum og gerðum samningum Hagþenkis.Markmið félagsins er að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita og kennslugagna.

 
Inntökuskilyrði þessi voru  uppfærð og samþykkt á stjórnarfundi 25. mars 2020.