Viðurkenningu Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2020 hlýtur Pétur Ármannsson

""

 Viðurkenning Hagþenkis var veitt 10. mars í Ljósmyndasafni Reykjavíkur við hátíðlega athöfn og hana hlaut Pétur Ármannsson fyrir ritið, Guðjón Samúelsson húsameistari, útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag. Í ályktunarorðum viðurkenningaráðsins sagði um ritið: Vandað og ítarlegt yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar. Verðugur minnisvarði um manninn sem mótaði byggingarlist og skipulagsmál hins nýsjálfstæða Íslands
 
Viðurkenninguna veitti formaður Hagþenkis, Snæbjörn Guðmundsson, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. og er settur upp sýningarkassi tengdu verkinu í Þjóðarbókhlöðunni. Tónlist á afhöfninni flutti Melkorka Ólafsdóttir. 

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt Viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað félagsmönnum til tveggja ára í senn, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða rit og höfundur hlýtur Viðurkenninguna. Í Viðurkenningarráðinu sátu: Árni Einarsson, Auðunn Arnórsson, Helga Birgisdóttir, Kolbrún S. Hjaltadóttir og Lára Magnúsardóttir.
 
Viðurkenning Hagþenkis – þakkarávarp

Ég vil færa stjórn og viðurkenningarráði Hagþenkis innilegar þakkir fyrir þann heiður sem mér er sýndur með þessari viðurkenningu. Hún er mér mikils virði, ekki síst í ljósi þess að vinna mín að rannsóknum og bókaskrifum hefur lengstum verið aukabúgrein með öðrum og krefjandi störfum. Því er oft haldið fram að bækur um söguleg efni segi jafn mikið um höfund ritsins og viðfangsefnið sjálft. Bókin um Guðjón húsameistara ber þess vissulega merki að vera rituð frá sjónarhóli starfandi arkitekts, sagnfræðingar eða listfræðingar hefðu vafalaust nálgast viðfangsefnið með öðrum hætti. Það hefur lengi verið skoðun mín að íslenskir arkitektar mættu gera betur í því að halda á lofti merki byggingarlistar, rannsaka og miðla merku framlagi eigin fagstéttar til íslenskrar menningar og samfélags. Ekki er þó sjálfgefið að arkitektar taki sér hlé frá annasömum teiknistofurekstri og vel borgaðri  ráðgjafarvinnu til að sinna að lítt launuðu hugsjónastarfi á sviði fræðimennsku. Afstaða mín hefur alla tíð verið sú að söguleg þekking og yfirsýn sé grundvöllur skapandi hugsunar í arkitektúr og öðrum listgreinum. Að enduruppgötva sé að það sama og skapa, að nýsköpun eigi sér aldrei stað í tómarúmi, án samhengis við stað og tíma, að þekkingarforði sögunnar sé mikilvægasta byggingarefni arkitektsins, ekki síður en steinsteypa, timbur og stál.
            Bókin um Guðjón Samúelssson á sér langan aðdraganda, allt aftur á 9. áratug síðustu aldar þegar Arkitektafélag Íslands efndi til sýningar í tilefni þess að öld var liðin frá fæðingu húsameistarans. Rætur míns sögulega áhuga má þó rekja lengra aftur. Ég þakka hann ekki síst góðu bókasafni á bernskuheimili mínu sem og aðgengilegu bæjarbókasafni Garðahrepps sem var í sama húsi og gagnfræðaskólinn sem ég gekk í. Í því safni rakst ég af tilviljun á bók sem nefndist Íslensk bygging : brautryðjandastarf Guðjóns Samúelssonar, eftir Benedikt Gröndal og Jónas Jónsson frá Hriflu, rit sem ég hafði ekki áður séð en kveikti strax áhuga. Ég nefni þetta hér til að minna á hversu mikilvægt það er að börn og ungmenni hafi aðgang að góðum bókakosti jafnt á heimili sínu og í menntastofnunum á öllum skólastigum. Engin upplýsingatækni kemur í stað þeirrar óvæntu gleði að uppgötva fyrir tilviljun spennandi bók í hillu á heimili, í búð eða á safni. Sem arkitekt gef ég lítið fyrir þann naumhyggjulífsstíl sem ekki leyfir bókaskápa á heimilum. Sá skóli er lítils virði sem ekki veitir nemendum sínum aðgang að góðu bókasafni með vönduðum fræðibókum. Þjóðin má vera þakklát fyrir það kraftaverk að slík rit séu enn gefin út á svo litlu málssvæði sem því íslenska – og að einhverjir fáist til að verja löngum stundum í krefjandi rannsóknir og skrif sem gefa lítið í aðra hönd. Í því sambandi er mikils virði að eiga traustan bakhjarl í Hagþenki sem heldur merki fræðibóka á lofti og stendur vörð um hagsmuni þeirra sem að þeim standa.
            Ég vil ljúka máli mínu með kærum þökkum til þeirra sem lögðu mér lið við gerð bókarinnar um Guðjón Samúelsson og eiga sinn þátt í þeim heiðri sem henni hlotnast hér í dag. Guðmundur Ingólfsson er höfundur flestra nýrra ljósmynda sem bókina prýða og fær hann  sérstakar þakkir fyrir mikilvægt listrænt framlag. Halldór Þorsteinsson sá um hönnun og umbrot sem var mikið þolinmæðisverk í riti þar sem rétt flæði þarf að vera milli texta,  teikninga og ljósmynda. Er honum þakkir færðar fyrir vel unnið verk og gott samstarf. Þeir Jón Torfason skjalavörður og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt lásu yfir textahandrit og bentu á margt í efni og orðfæri sem betur mátti fara. Þökk sé forstöðumanni og samstarfsfólki hjá Minjastofnun Íslands fyrir að gera mér kleift að sinna ritun bókarinnar samhliða hlutastarfi um tveggja ára skeið. Við vinnslu bókarinnar naut höfundur sex mánaða launa úr Starfslaunasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna auk dvalarstyrkja frá listasetrinu Bæ á Höfðaströnd og Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Þá eru ótaldir styrkir frá Hagþenki, Minningarsjóði Guðjóns Samúelssonar, Landsbankanum, Reykjavíkurborg og Miðstöð íslenskra bókmennta. Haustið 2019 stóð Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar, fyrir sýningu á verkum Guðjóns þar sem ég var annar sýningarstjóra. Sýningin naut góðs af rannsóknarvinnu vegna bókarinnar og myndefni frá sýningunni nýttist í bókinni. Eru þeim Ágústu Kristófersdóttur forstöðumanni og Ólöfu Bjarnadóttur verkefnisstjóra færðar kærar þakkir samstarfið. Eftir sýninguna var Ólöf mér til aðstoðar við öflun og skráningu sögulegs ljósmyndaefnis í bókinni. Starfsfólk Þjóðskjalasafns Íslands fær þakkir fyrir margháttaða fyrirgreiðslu og hjálp á tuttugu ára tímabili, sem og sérfræðingar Danmarks Kunstbibliotek, Ljósmyndasafns Íslands og Ljósmyndasafns Reykjavíkur fyrir mikilvæga hjálp við útvegun heimilda og myndefnis. Loks vil ég þakka útgefanda bókarinnar, Hinu íslenska bókmenntafélagi, fyrir gott samstarf og fyrir að hafa treyst mér fyrir að móta efnistök, uppbyggingu og útlit bókarinnar eftir eigin höfði.