Viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2007 hlýtur

""

Þorleifur Hauksson hlýtur viðurkenningu  Hagþenkis fyrir  árið  2007

Þorleifur Hauksson var einn af tíu höfundum sem voru tilnefndir til viðurkenningar Hagþenkis 2007 fyrir ritun framúrskarandi fræðirits. Hann hlaut tilnefningu „fyrir yfirburða þekkingu á íslenskri stílfræði sem kristallast í vandaðri útgáfu sérstæðrar fornsögu“. Þorleifur hafði umsjón með og ritaði formála að Sverris sögu sem Hið íslenska fornritafélag gaf út árið 2007.

Greinargerð viðurkenningarráðs er svohljóðandi:

 

Íslensk fræði hafa færst af þjóðlegum vettvangi á alþjóðlegan síðustu áratugi og fræðistörf taka æ meira mið af almennum kenningum. Að sama skapi hafa þau orðið meira krefjandi og því er erfitt að stunda þau án þess að hafa stofnanir að bakhjarli.

Þorleifur Hauksson hefur stundað fræðimennsku um 40 ára skeið og verið í hópi þeirra sem rutt hafa nútímalegum vinnubrögðum braut, oft við örðugar aðstæður. Hann hefur jafnframt með hógværum en einörðum hætti lagt drjúgt af mörkum til baráttunnar fyrir framgangi fræða og hagsmunum fræðimanna.

Þorleifur hefur starfað við ritstjórn bókmenntatímarits, þýðingar, fræðilegar útgáfur fornra texta og skrifað fjölda greina um bókmenntaleg efni. Framlag hans til íslenskra fræða felst þó ekki síst í brautryðjendastarfi í íslenskri stílfræði þar sem hann hefur átt drjúgan þátt í að leggja grunn að nútímalegri ástundun þeirrar fræðigreinar á íslensku með tveggja binda stórvirki um efnið, að hluta til í samstarfi við Þóri Óskarsson.

Yfirburðaþekking Þorleifs á stíl og stílfræði hefur fært útgáfu Íslenskra fornrita skrefi framar því vönduð og traust útgáfa hans á Sverris sögu hefur rofið þær skorður sem sú virðulega ritröð hefur verið í. Jafnframt því að halda til haga þeim grunnupplýsingum sem vera þurfa í slíkri útgáfu dregur hann af skarpskyggni fram bókmenntalegt samhengi sögunnar og sérkenni og varpar með því nýju og skýru ljósi á stöðu þessa mikilvæga verks í íslenskri bókmenntasögu.

Ályktunarorð: Fáir hafa unnið jafn farsælt starf á vettvangi íslenskra fræða og Þorleifur Hauksson þar sem saman fara vandvirkni, þrautseigja, fjölhæfni og fórnfýsi. Með tímamótaútgáfu á Sverrissögu í farteskinu er Þorleifur Hauksson einstaklega vel að viðurkenningu Hagþenkis kominn fyrir árið 2007.

Í viðurkenningarráði Hagþenkis fyrir árið 2007 voru: Allyson Macdonald, Baldur Hafstað, Karl Skírnisson, Sesselja G. Magnúsdóttir, Viðar Hreinsson.
Stjórn Hagþenkis óskar Þorleifi Haukssyni hjartanlega til hamingju.

Þorleifur Hauksson íslensku- og bókmenntafræðingur er fæddur 1941.
Sjá nánari upplýsingar um viðurkenningarhafann

Náms- og starfsferill
* Nám við Háskóla Íslands í íslenskum bókmenntum og íslenskri málfræði með latínu sem aukagrein 1963-1971. Lauk cand. mag. prófi 1971.
* Vann á námstíma við rannsóknir og útgáfu á Handritastofnun Íslands, síðar Stofnun Árna Magnússonar.
* Framhaldsnám í miðaldafræðum í Oxford 1972.
* Lektor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1972-1976.
* Útgáfustjóri Máls og menningar 1976-1982.
* Ritstjóri Tímarits Máls og menningar 1977-1982.
* Lektor við Uppsalaháskóla í Svíþjóð 1983-1990.
* Rannsóknir á vegum Styrktarsjóðs Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur við Háskóla Íslands 1990-1994.
* Sjálfstætt starfandi fræðimaður frá 1995.
* Prófdómari í íslenskum bókmenntum á MA-stigi við Háskóla Íslands frá 1991

 

 

Â