Viðurkenningu Hagþenkis 2012 hlaut Jón Ólafsson fyrir bókina

""

Viðurkenning Hagþenkis veitt í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega afhöfn 6. mars.

Í greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis 2012 segir um bókina: Áhrifamikil og gagnrýnin greining á kommúnismanum og Gúlagi Sovétríkjanna sem afhjúpar varnarleysi hins almenna borgara.

Jón Ólafsson er fæddur í Reykjavík 1964. Hann stundaði nám við Menntaskólann í Hamrahlíð og svo Háskóla Íslands en þaðan lauk hann BA prófi í heimspeki árið 1989. Hann var við nám í Þýskalandi veturinn 1986 til 1987 og í Moskvu 1989 til 1990. Eftir það starfaði hann sem fréttamaður hjá RUV til ársins 1992, en þá hann hóf framhaldsnám í heimspeki við Columbia háskóla í New York. Jón varði doktorsritgerð sína haustið 1999 en frá því ári og til loka árs 2002 starfaði hann við Háskóla Íslands sem forstöðumaður Hugvísindastofnunar. Jón var sjálfstætt starfandi fræðimaður hjá ReykjavíkurAkademíunni frá 2003 til 2005, og var formaður stjórnar hennar árin 2004 og 2005. Hann hefur gegnt stöðu prófessors við Háskólann á Bifröst frá 2005, en auk þess var hann deildarforseti félagsvísindadeildar skólans 2006 til 2011 og hefur verið aðstoðarrektor frá 2011. Auk bókarinnar Appelsínur frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu er Jón höfundur ritsins Kæru félagar. íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 1920 til 1960 (Mál og menning, 1999). Árið 2009 gaf hann út greinasafnið Andóf, ágreiningur og áróður.

 Ávarp Jón Ólafssonar

 

 Þegar þessi bók var loksins fullgerð og handritið komið svo langt í vinnslu hjá forlaginu sem gefur bókina út, JPV, að það væri borin von að einhverju yrði framar breytt, fór ég að velta því fyrir mér hvernig henni yrði tekið. Ég hafði enga skýra tilfinningu fyrir því. Mér fannst alveg jafn líklegt að henni yrði illa tekið og vel. Vanþóknunarfullir ritdómarar myndu finna henni allt til foráttu, aðferðin við að segja söguna yrði gagnrýnd eða véfengd, notkun mín á endurminningum úr Gúlaginu dæmd ósiðleg, eða eitthvað þaðan af verra. Ég átti að minnsta kosti ekkert erfitt með að sjá fyrir mér margar leiðir til að gagnrýna hana.

 Á meðan ég var að skrifa hana velti ég því líka oft fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ég væri að þessu. Að eltast við allskonar smáatriði úr lífsferlum fólks sem átti sameiginleg þau þungbæru örlög að eyða mörgum árum í furðuheimi stalínskra fangabúða og púsla saman annarsvegar einstöku lífshlaupi, eins og hægt væri, hinsvegar svipmynd af þeim veruleika sem gerði þetta lífshlaup skiljanlegt, hörmuleg svo sem endalokin eru.

 Svona efasemdir, um tilgang og viðbrögð eru alveg nauðsynleg fyrir mann, til að gera sér grein fyrir kjarna málsins: Svona bók skrifar maður ekki fyrir neinn annan en sjálfan sig og tilgangurinn með skrifunum er ekki annar en sá að fylgja þræði sem maður hefur fundið alla leið til enda. Og þegar maður er búinn að telja sér trú um þetta, lætur maður líka eins og viðbrögðin skipti engu máli. En auðvitað skipta þau máli. Og ekkert er ánægjulegra en verðlaun og vegtyllur, sérstaklega þegar maður er búinn að brynja sig fyrir því að ekkert slíkt sé í augsýn.

 Þess vegna er ég bæði hrærður og þakklátur yfir því að fá viðurkenningu Hagþenkis í ár. Mér finnst stórmerkilegt og eiginlega ævintýralegt að bókin sé talin verðskulda hana.

 Margar bækur hafa verið skrifaðar um hrylling stalínismans, ömurleika fangabúðanna, ofsóknir, kúgun, réttleysi og linnulaus dráp á saklausu fólki. Mörg þessara verka hafa orðið heimsþekkt og hafa miðlað sannleikanum um stjórnarhætti Stalíns á þann veg að enginn, með réttu ráði, getur réttlætt þá eða varið ógnarstjórnina. Þessi bók fjallar aðeins með óbeinum hætti um hryllinginn. Í frásögninni reyni ég fyrst og fremst að segja frá og greina það sem kalla má mekanisma valdsins. Markmiðið var að nota söguna um Veru Hertzsch og einstaklingana sem tengdust henni, Íslendinga, Pólverja og Þjóðverja, til að sýna hvernig samfélag stalínismans virkaði. Þetta er því hvorki hefðbundin ævisaga, né venjuleg sagnfræði. Ég vona að bókin skilji eftir hjá lesandanum einhverja innsýn í það hvernig samfélag sem verður ofurselt vænisjúku alræði þróast. Slíka innsýn er, að ég held, aðeins hægt að fá með því að upplifa og skilja örlög einstaklinga – venjulegs fólks.

 Það sem meira er, slíka sögu er ekki hægt að segja, nema maður sé sjálfur tilbúinn til að leggja á sig það sem þarf til að skynja rætur hennar og veruleika. Stundum heldur fólk að sovéskt samfélag – sögusvið þessarar bókar – hætti að vera til eða gufi upp í hvert sinn sem einu tímabili lýkur eða annað hefst. Eins og Sovétríki Khrusjovs séu gjörólík Sovétríkjum Stalíns eða Brezhnevs, eða að Rússland Pútíns sé einhvernveginn gjörólíkt samfélaginu eins og það var fyrir hrun Sovétríkjanna. En Rússland er Rússland hvað sem á dynur. Yfirbragð, leiðtogar og pólitík breytist að vissu marki, tímabil ofsafenginnar kúgunar líður hjá, en þegar upp er staðið heldur samfélagið megineinkennum sínum , sem kannski breytast og þróast hægt og hægt. Ég taldi mig þekkja Rússland ágætlega þegar ég byrjaði á þessari bók, en ég vissi minna en ég hélt. Lógík Gúlagsins hefur hjálpað mér að skilja hvílíka drauga Rússland þarf að slást við og hversu mikið vantar enn á að þeir hafi verið kveðnir niður.

 Að sumu leyti skrifaði þessi bók sig sjálf – en að öðru leyti naut hún góðs af margvíslegum stuðningi góðs fólks sem kannski hafði stundum meiri áhrif en það grunaði. Ég held að það sé best að fara ekki að nefna nein nöfn – þá endar maður bara með því að nefna ekki þá sem maður ætti helst að nefna. Mig langar samt að nefna eina manneskju, að öllum öðrum að sjálfsögðu ólöstuðum. Það er Guðrún Sigfúsdóttir hjá JPV sem las handritið á fyrri stigum þess. Guðrúnu tókst einhvernveginn að losa fræðimanninn undan óttanum við hið persónulega, sem ég held að hafi, þegar allt kemur til alls, gert mér mögulegt að klára þessa bók. Það er rétt að taka fram að lokum að stuðningur frá Rannís gerði mér kleift að fara í rannsóknaleiðangra til Rússlands sem voru alveg nauðsynlegir í heimildavinnu bókarinnar.