Viðurkenningarráð Hagþenkis 2013: Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Bjarni Ólafsson íslenskufræðingur, Íris Ellenberger sagnfræðingur, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorbjörn Broddason félagsfræðingur sem flutti ávarp fyrir hönd ráðsins.
Góðir samkomugestir.
Hlutverk viðurkenningar Hagþenkis er samkvæmt skipulagsskrá að vekja athygli á mikilvægu höfundarverki og fræðilegu framlagi. Verkin, sem koma til skoðunar, mega vera fræðirit, kennslugögn eða miðlun af öðru tagi. „Við veitingu viðurkenningar skal í senn tekið tillit til frumleika og fræðilegs eða menningarlegs gildis verkanna.“
Með þetta veganesti hóf viðurkenningarráð störf um miðjan október s.l. og fundaði síðan nær vikulega fram yfir áramót.
Í viðurkenningarráði Hagþenkis sitja Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Bjarni Ólafsson íslenskufræðingur, Íris Ellenberger sagnfræðingur, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorbjörn Broddason félagsfræðingur.
Viðurkenningarráðinu vannst mjög vel undir styrkri leiðsögn Friðbjargar Ingimarsdóttur. Skjótt kom í ljós að þessir fimm einstaklingar bættu hver annan upp eins og best varð á kosið.
Viðfangsefni viðurkenningarráðsins var ein samfelld hátíð; við fórum af hverjum fundi klyfjuð nýjum stafla gersemisbóka, sem unun var að kynnast. Alls voru ein sjötíu ritverk tekin til skoðunar og umræðu á fundum viðurkenningarráðsins og undir lok starfsins vorum við tilbúin með tíu bóka lista eins og fyrir okkur var lagt. Listinn varð til að lokinni langri og rækilegri umræðu og könnunum innan hópsins. En þrátt fyrir ánægju með listann held ég að óhætt sé að segja að við hefðum flest eða öll treyst okkur til að hafa hann töluvert lengri án þess að slá af kröfum skipulagsskrárinnar, slík var gnótt góðra bóka á liðnu hausti. Tíu bóka listinn lítur þannig út í stafrófsröð höfunda:
Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2013
- Karólína LárusdóttirGuðbjörg Kristjánsdóttir Crymogea. Sagan af Guðrúnu KetilsdótturHjörleifur Stefánsson . Crymogea.
- Inga Lára Baldvinsdóttir Sigfús Eymundsson myndasmiður. Frumkvöðull íslenskrar ljósmyndunar. Þjóðminjasafn Íslands.
- Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson, Bjarni Bessason (ritstjórar) Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan.
- Sigrún Pálsdóttir Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga. JPV.
- Þorleifur Friðriksson Dagar vinnu og vona. Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í kreppu og köldu stríði. Háskólaútgáfan.
Hverri tilnefningu fylgdi örstuttur rökstuðningur viðurkenningarráðs, sem finna má á vefsíðu Hagþenkis.
Í byrjun þessa mánaðar kom viðurkenningarráðið saman til lokafundar til að velja það verk, sem hljóta skyldi viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2013. Það var sannarlega ekki vandalaust en það var ljúfur vandi. Sömu aðferðum var beitt og áður til að tryggja að öll verkin stæðu jafnfætis og niðurstaðan fékkst í sömu eindrægni og einkennt hafði störf viðurkenningarráðsins fram að þessu.
Og niðurstaðan er að Hjörleifur Stefánsson skuli hljóta viðurkenningu Hagþenkis árið 2013 fyrir bók sína Af jörðu. Íslensk torfhús.
Engin leið er að gera þessu mikla verki sómasamleg skil í stuttu ávarpi en ég vil eigi að síður fara um það örfáum orðum áður en kemur að höfuðþætti þessarar athafnar.
(Guðmundur Hannesson (1918) „Byggingamálið“ Skírnir, 92(4):286).
Hjörleifur dregur saman fróðleik um húsakost þjóðarinnar frá upphafi Íslandsbyggðar. Með lýsingu og greiningu á um það bil tug fornbýla leiðir hann lesandann bæði inn í tilveru landnámsfólks, sem steðjaði hingað úr Vestur-Noregi og skoskum og írskum strandbyggðum, og Íslendinga á þjóðveldisöld. Hann nýtir allar tiltækar heimildir og gerir skil verkum fyrirrennara sinna af nákvæmni og smekkvísi þannig að niðurstöður þeirra njóta sín sem sýnilegir þættir í þeirri heildarmynd, sem Hjörleifur leitast við að draga upp. Á sama hátt leiðir hann fram húsameistara frá upphafi íslensks nútíma og lýsir djörfum tilraunum þeirra til að skapa samfellu byggingararfsins og tengja þannig með sýnilegum hætti þá miðalda- ef ekki hreinlega fornaldarhíbýlahætti, sem hér tíðkuðust fram á tuttugustu öld, við lífsmáta fólks í velmegandi Evrópuríki tæknialdar.
Lengsti hluti bókarinnar er helgaður lýsingum á torfbyggingum, einkanlega bæjarhúsum, sem flest standa enn uppi. Þessar lýsingar eru á fjórða tug talsins og veita samanlagðar afbragðsgóða mynd af fjölbreytileika íslenskra torfbygginga, hvað varðar stærð, lögun, byggingarmáta og byggingarefni. Í þessum hluta bókarinnar er einnig skyggnst aftur í aldir og varpað ljósi á þróunarsögu híbýlanna þannig að unnt er að álykta um almenna reglu útfrá sértækum dæmum. Einstakir kaflar eru ýmist helgaðir stórum eða smáum viðfangsefnum, allt frá margra blaðsíðna, ríkulega myndskreyttum ritgerðum um stórbýli eins og Glaumbæ eða Laufás að stuttum texta um svolítinn bút af hlöðuvegg í Krossanesi, sem skartar rómverskum dyraboga úr torfi.
Þetta er mikil bók að vöxtum, rúmar þrjú hundruð blaðsíður í mjög stóru broti, en þó furðustutt miðað við þann mikla og fjölbreytta fróðleik, sem þarna rúmast á milli spjalda. Glæsilegt myndefni, bæði ljósmyndir höfundar, Guðmundar Ingólfssonar og fleiri, og afbragðsgóðar skýringarteikningar Sólar Hrafnsdóttur, stóreflir gildi bókarinnar, svo og frágangur allur, sem er útgefandanum til mikils sóma.
Fyrir hönd viðurkenningarráðs Hagþenkis óska ég Hjörleifi Stefánssyni hjartanlega til hamingju með þetta góða verk og bið hann vel að njóta verðskuldaðs heiðurs.