Viðurkenningarhafi Hagþenkis 2011 er Sigríður Víðis Jónsdóttir

 

 

 

 

""

Sigríður Víðis Jónsdóttir er fædd á Akranesi árið 1979. Hún bjó á Skaganum þangað til um tvítugt þegar hún flutti til Reykjavíkur og lauk BA-prófi í heimspeki með mannfræði sem aukagrein. Hún tók síðan meistarapróf í þróunar- og átakafræðum frá University of East Anglia í Bretlandi. Frá árinu 2000 hefur Sigríður skrifað fréttaskýringar, viðtöl, pistla og ferðasögur – ýmist með fram námi, í lausamennsku eða í fullu starfi sem blaðamaður. Hún hefur sent frá sér efni frá Súdan, Afganistan, Írak, Sýrlandi, Rúanda, Indlandi, Eþíópíu, Úganda, Bosníu, Myanmar (Búrma) og víðarþ. Bókin, Ríkisfang: Ekkert. Flóttinn frá Írak á Akranes  er hennar fyrsta bók. Útgefandi er Mál og menning. Sigríður er í dag upplýsingafulltrúi hjá UNICEF á Íslandi. 

Ávarp Sigríðar Víðis Jónsdóttur:

 

 

Við móttöku viðurkenningar Hagþenkis

 Það er mér mikill heiður að vera hér í dag og taka við viðurkenningu Hagþenkis. Ég er full þakklætis fyrir þann sóma sem bókinni er með þessu sýndur og trúi þessu varla enn!

 Á þessum gleðidegi er ég jafnframt þakklát fyrir að hafa fengið að takast á við verkefni sem kenndi mér jafnmikið.

 Auðvitað vissi ég til að byrja með fátt um það hverju ég stæði frammi fyrir við vinnslu bókarinnar og allra síst gerði ég mér grein fyrir að þetta yrði að því langhlaupi sem það varð. Eftir á að hyggja finnst mér stundum eins og ég hafi nánast dottið út úr lífinu árin 2009 og 2010 og reyndar líka 2011 þegar ég lá yfir þessu og átti sjaldnast frí. En kannski var þetta einmitt lífið! Að spyrja og reyna að skilja, læra, sjá samhengi – sjá sig í samhengi við aðra. Og þó, kannski heitir þetta bara þroski og kannski er ég með þessu loksins vaxin úr grasi og orðin stór …

 Hvað sem öllu líður er ég þakklát fyrir að aðrir hafi trúað á verkefnið með mér og að draumurinn hafi því orðið að veruleika. Það eru forréttindi að geta sökkt sér ofan í efni sem á manni brennur.

 Þessi bók hefði aldrei orðið til ef ekki hefði verið fyrir stuðning og skilning frá fjölda fólks, sem margt er hér inni, frá útgefanda og stofnunum. Mig langar að vekja sérstaka athygli á mikilvægi styrkja til rannsókna og undirstrika þá hvatningu sem þeir bera með sér. Sjálf varð ég þess aðnjótandi að fá styrk úr Launasjóði fræðiritahöfunda, frá Hagþenki og utanríkisráðuneytinu, vinnuaðstöðu hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, og loks fékk bókin styrk úr Bókmenntasjóði. Að finna að á mann sé trúað af fólki sem þekkir til slíkrar vinnu er hvati til að gera vel. Að vilja rísa undir traustinu. Það er þessi viðurkenning sem styrkurinn ber með sér sem er svo mikilvæg.

 Já, ég er þakklát í dag. Ég er þakklát fyrir að hafa dottið í þann lukkupott að kynnast konunum á Akranesi – söguhetjunum í bókinni. Þær tóku mér ekki einungis opnum örmum heldur umvöfðu þær mig hlýju og hvöttu mig áfram við rannsóknir og skriftir. Þær voru boðnar og búnar til að svara spurningaflóði og rifja upp þungbæra reynslu, dýrmætar stundir og nístandi sorg.

 Ég mun aldrei geta fullþakkað þeim það óendanlega traust sem þær sýndu mér.

 Ég viðurkenni að þræðirnir í verkefninu voru stundum yfirþyrmandi, efnið sárt, ég sjálf svo smá gagnvart þessari stóru sögu, gagnvart Palestínu, Írak, öllum þessum áratugum af pólitík, öllu ofbeldinu sem lýst var fyrir mér. Af Akranesi kom ég hins vegar ævinlega suður aftur full af krafti. Lína, Ayda og allar hinar vildu segja þessa sögu, ég vildi segja hana, og það var ekkert annað að gera en að hella upp á kaffi enn á ný og halda áfram.

 Ætli mesti höfuðverkur minn hafi ekki verið að ætla að skrifa bók fyrir almenna lesendur sem þó væri fræðibók. Gerði fræðilegar kröfur en væri um leið einföld aflestrar og gerði ekki ráð fyrir að lesendur hefðu neina sérstaka þekkingu á pólitískri sögu Mið-Austurlanda. Hvernig gat ég unnið með tilvísanir þannig að almennir lesendur fældust ekki frá eða sofnuðu yfir bókinni?! Hvernig var best að vefa saman því pólitíska og hinu persónulega?

 Mér þótti þetta flókið og velti þessu löngum fyrir mér. Mörgum andvökunóttum síðar er einstakt fyrir mig að standa hér og taka á móti fræðilegri viðurkenningu fyrir þessa bók. Ég er snortin yfir því að nefnd fræðimanna á vegum virtra samtaka hafi rýnt í verkið og ákveðið að veita því þessa viðurkenningu.

 Og þá að flóttafólki …

 Ég þreytist ekki á að undirstrika að það þarf sterk bein til að yfirgefa allt sem maður þekkir og halda út í algjöra óvissu. Það flýr enginn að heiman án ríkrar ástæðu.

 Einmitt á þessu andartaki eru milljónir manna á flótta fyrir lífi sínu, hírast í tjaldbúðum eða heimkynnum til bráðabirgða. Milljónir manna sem eru eins og ég og þú og konurnar á Akranesi. Langmestur meirihluti þarf einungis tímabundið skjól frá óbærilegum aðstæðum í landi sínu og sér til dæmis fram á að geta snúið aftur heim að stríði loknu. Fyrir suma er hins vegar ekkert heima – lífið þar var tekið í burtu með ofsóknum og ofbeldi. Þetta er fólkið sem þarf að komast í burtu fyrir fullt og allt og á engra annarra kosta völ en að hefja nýtt líf í nýju landi.

 Konurnar á Skaga eru jafnólíkar innbyrðis og átta íslenskar konur sem valdar væru af handahófi. Þær Lína, Ayda, Abeer, Narjis, Sawsan, Wafa, Fatín og Manal eiga það hins vegar allar sameiginlegt að hafa verið í lífshættu í Írak og tekið slaginn um að koma til framandi lands vegna þess að þær vildu veita börnunum sínum möguleika á framtíð. Það er kjarkað.

 Minn er heiðurinn að fá að vera hér í dag og taka við viðurkenningu fyrir bókina um þær – viðurkenningu sem er mér óskaplega dýrmæt.

 

Hjartans þakkir.