Viðurkenning Hagþenkis 2017 hlýtur Steinunn Kristjánsdóttir

""
Viðurkenning Hagþenkis var veitt þann 28. maí í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn en hana hlaut Steinunn Kristjánsdóttir fyrir ritið, Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir, sem Sögufélag og Þjóðminjasafn Íslands gáfu út. Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins segir um ritið: Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi. Viðurkenningin felst í árituðu skjali og 1.250.000 kr. Sverrir Guðjónsson tónlistarmaður  flutti tónlist.
 
Hagþenkir– félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða höfundur hlýtur að lokum viðurkenninguna og í ráðinu sátu: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Helgi Björnsson, Henry Alexander Henrysson og Sólrún Harðardóttir sem flutti greinargerð ráðsins. 

Ávarp Steinunnar Kristjánsdóttur 

 

Mér er það sannur heiður að taka við Viðurkenningu Hagþenkis hér í dag fyrir bók mína, Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Ég lít á viðurkenninguna sem staðfestingu þess að efnislegar leifar geti ekki síður en skjöl – eða aðrar heimildir – varpað ljósi á sögu okkar og fortíð. Þetta kann að hljóma sjálfsagt í eyrum margra en það er ekki svo því gjarnan er litið þannig á að það sem ekki hefur verið skráð eða skrifað niður sé hreinlega ekki til. Að bein sjúklings með sárasótt segi minna en skjal um kaup á jörð. Eða eins og að þjóð án ritmenningar eigi sér enga sögu.
Í mínum huga segja varðveitt skjöl aðeins hálfa söguna, rétt eins og bein sjúklingsins. Sem fornleifafræðingur vil ég halda því fram að hinar efnislegu leifar – efnismenningin – veiti jafnan upplýsingar um hversdaginn á meðan þær rituðu sýni öðru fremur hvernig lífið og tilveran hefði átt á að vera: hið æskilega líf út frá sjónarhorni þess sem skráði. Hafa ber sömuleiðis í huga að sá sem stundar fræðistörf hefur alltaf val um nálgun á viðfangsefni sín. Ekkert ratar til dæmis af sjálfsdáðum á spjöld sögunnar því hún er sjálf sett saman og mótuð af þeim sem hana ritar. Og þess vegna er líka svo endalaust mikil saga enn ósögð; sögur af konum, körlum, börnum, hinum jaðarsettu eða ráðandi, hvers kyns trú, siðum, menningu og pólitík eða bara af tíðandalausum hversdeginum. Sjónarhornin eru svo óteljandi mörg en saman geta þau vissulega byggt upp ríkulegri mynd af horfnum tíma en ella.

Ég viðurkenni að það reyndist mér meiri áskorun en ég áttaði mig á í fyrstu að draga íslensku klaustrin fram í dagsljósið með markvissri leit að þeim og skrifa um þau bók. Saga klaustranna er svo ríkuleg og margbrotin en hún nær einmitt yfir hversdaginn rétt eins og pólitískt amstur yfirvalda. Og enn er svo margt ósagt um þau. Mig langar því að nota þetta tækifæri til að þakka af öllu hjarta þeim sem studdu mig og fylgdu mér á þessari ströngu vegferð. Efst í huga mér er fjölskylda mín og vinir, og þeir samstarfsmenn mínir sem lögðu sitt af mörkum við leitina: Vala Gunnarsdóttir, Hermann Jakob Hjartarson, Helga Jónsdóttir, Scott Riddell, Joe W. Walser og fleiri. Félögum mínum á Þjóðminjasafni þakka ég einnig fyrir að hafa haft endalausa þolinmæði að hlusta á misspennandi sögur úr leitinni og loks Hrefnu Róbertsdóttur forseta Sögufélags fyrir að hafa haft trú á mér þegar ég athugaði með útgáfu á bókinni hjá félaginu. Þá vil ég þakka Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði fyrir að styðja mig með svo margvíslegum hætti við útgáfuna og verkefni mitt allt, Sigrúnu Sigvaldadóttur fyrir að gera bókina svona fallega, Hildi Finnsdóttur og Helga Grímssyni fyrir frábæran yfirlestur, sem og öðrum sem lásu yfir handritið á vinnslustigi: þeim Árna Daníel Júlíussyni, Vilborgu Auði Ísleifsdóttur og Orra Vésteinssyni. Síðast en ekki síst vil ég þakka Gísla bróður mínum sem sannfærði mig um að hægt er að þjóna tveimur herrum í einu, þ.e. að skrifa bók fyrir jafnt fræðimenn sem og almenning í senn. Og það var hann sem kenndi mér enn fremur að reyna ekki að fela það að höfundurinn sjálfur er alltaf hluti af sínu eigin verki.

Fjárframlög til verksins alls komu frá Rannsóknasjóði Íslands, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Þjóðminjasafni Íslands, sjóðum ESB og Miðstöð íslenskra bókmennta.

Takk fyrir