Viðurkenning Hagþenkis 2016

""
Viðurkenning Hagþenkis var veitt þann 1. mars í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn en hana hlaut fræðimaðurinn Viðar Hreinsson fyrir bókina, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar sem Lesstofan gefur út. Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins sagði um ritið: Með nærfærnum hætti er fjallað um ævintýralegt lífshlaup manns á mörkum forneskju og nútímafræða í samhengi við evrópska vísindasögu. Viðurkenningin felst í árituðu skjali og einni milljón króna sem er sama upphæð og veitt er til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hilmar Örn Hilmarsson og Steindór Andersen fluttu við athöfnina hluta af Snjáfjallavísum sem Jón Guðmundson lærði orti 1611 og 1612  til að kveða niður draug á Stað á Snæfjöllum, Snjáfjalladrauginn.    

 

Hagþenkir– félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, ákvarðar tíu tilnefningarnar og hvaða höfundur hlýtur að lokum viðurkenninguna. Í Fréttablaðinu birtist leiðari eftir Magnús Guðmundsson þar sem vakin var athygli á  starfi Hagþenkis og hinum árlegum tilnefningum og Viðurkenningunni. http://www.visir.is/almennt-stand/article/2017170309992 

Hér fyrir neðan er ávarp Viðars Hreinsson flutt í Þjóðarbókhlöðunni:

 

Far niður, fýla,
fjandans limur og grýla;
skal þig jörð skýla,
en skeytin aursíla;
þú skalt eymdir ýla
og ofan eptir stíla,
vesall, snauður víla;
þig villi óheilla brýla.

Svona hefjast Snjáfjallavísur, þar sem Jón lærði ávarpar Lúsífer. „Þér meinhagyrðin ýkja / þú þarft ei snauður sníkja / snápurinn rauna ríkja“ segir hann og gefur í skyn að höfðinginn í neðra sé bara vel stæður fjárhagslega. Jón kveður hann niður í djúp vítis og fjötrar með orðkynngi, kremur hann, mylur hann, klemmir og klessir til að koma á friði í mannheimum.
Þetta voru fræði þess tíma, særingakvæði voru kölluð fræði, draugar voru raunveruleg vá sem kunnáttu þurfti til að kveða niður. Í dag er allur draugagangur þessa heims, aðallega á netinu.
  Snjáfjallavísur eru hið elsta sem varðveitt er eftir Jón. Yngst er ævikvæðið Fjölmóður, ort þegar hann var 75 ára. Þar vildi hann hvorki hafa „óbænir stórar / né heiftarkveðjur“ þrátt fyrir mótvinda sem hann hafði orðið fyrir. Fjölmóður, eða sendlingur, er merki hans og sjálfsmynd, lítill og knár fjörufugl, lítt aktaður, meinlaus og íhugull, óþreytandi að kroppa sér næringu úr fjöruborðinu, „kvíðir við mörgu / sem karlinn vesali.”
  Fuglinn hafði merkingu, á dögum Jóns lærða hafði allt merkingu í alheimssamhengi. Kvæðið rekur mótvindana en í eftirmála sem Jón kallar rófu er hann heimspekilegri, sjálfstæður og gagnrýninn. Hann talar um gáfurnar sem skaparinn hefur skikkað mönnum, „það hlýtur einn / sem annan vantar“ segir hann og bætir við að það sé náðargjöf en ekki nauðgun þegar sjálfur „sannleiksandinn“ fræðir menn. Svo geti mönnum verið nauðgað til bóknáms í háskólum. Jón vill „gægjast / í gaupnir drottins“ og ráða í sköpunarverkið. Skepnum væri „gefinn / skilnings andi“ og einnig ýmsum dularverum, loftlegum sem jarðneskum. Honum voru ekki vandaðar kveðjurnar fyrir slíka goðgá. „Þegi þú og þegi þú, / þrællinn aumi, / vér höfum valdið“ sögðu höfðingjar.
Jóni leist ekki á þras og sundurþykkju samtímans. „Öll heims skepnan / undrum kvíðir.“ Ágirnd, okur og „eiginvild“ ollu þessu. Marghöfða dýrið úr opinberunarbók Jóhannesar stendur að baki hörmungunum. Jón trúði því þó að um síðir mundi hver uppskera sem hann sáði. Það væri „fátækum / fagnaðaryndi“ að fá frið, fá að lifa angurlaus í meinleysi. Jóni er tíðrætt um smæð sína gagnvart valdinu en afhjúpar það um leið og trúir að menn geti þraukað myrknætti aldarfarsins og upp muni birta um síðir.
   Jón lærði hóf fræðimannsferilinn með því að reka út illt með illu en eftir langa ævi hafði hann komist að því að hið illa var ekki síður þessa heims. Marghöfða dýrið er enn á meðal okkar og nú fjölgar höfðum þess. Þau læðast inn í vitund manna og villa um. Það er ekkert skrýtið að skepna heims kvíði undrum.
   Fræðimenn þurfa að hafa auga með valdhöfum þessa heims, marghöfða afkvæmum spilltra stjórnmála og auðmagns sem steypir allt í sama mót. Meginstraumur upplýsingarinnar svokölluðu stefndi á endanlega þekkingu og vélræna skynsemishugmynd en afneitaði fjölbreytni, merkingu og samhengi. Í dag eru framsækin fræði að enduruppgötva merkingu í öllu og átta sig á fjölbreytninni, margslungnu samhengi krákustíganna, óvissunnar, óreiðunnar. Slíkar hugmyndir munu mynda kjarnann í andófi gegn ofurveldi auðmagnsins og brýnni endurlífgun lýðræðis.
   Sjálfstætt starfandi fræðimaður er eins og sendlingurinn, einyrki en samt í hóp, hleypur fram og aftur um mannlífsfjörurnar í leit að lífsbjörg og næringu. Smæðin og eljan eru styrkur hans. Fjölmóðurinn leitar útfyrir meginstrauma og samspil hins uppreisnargjarna einstaklings og hópsins getur jafnvel orðið ögrandi gagnvart miðstýrðum valdakerfum. Sá sendlingur sem hér stendur vill aðeins lúta einum guði. Náttúran er guð, guð er náttúran, sagði Spinoza sem einnig gerði sér hugmyndir um skilyrðislaust lýðræði. Náttúran er guð hinnar margslungnu og óreiðukenndu fjölbreytni fyrirbæra og merkinga sem við þurfum að ráða í.
   En sendlingurinn í fjöruborði mannlífsins er aldrei einn, aldrei í tómarúmi. Hann er alltaf í hóp. Þannig er það með fræðimanninn sem þykist sjálfstæður. Sá sem hér stendur hefði aldrei getað gert Jóni lærða nokkur skil án stuðnings. Sjóðir gefa salt í grautinn en félagskapur og vinátta veita innblástur. Ég er þakklátur fyrir fræðilega og persónulega aldavináttu í ReykjavíkurAkademíunni og fyrir stuðning Náttúruminjasafns Íslands, jafnt forstöðumanns sem fræðavina þar á bæ. Fjölskyldunni á ég allt að þakka, konu sem hefur þolað og stutt við skringilegar ástríður og fræðametnað í áratugi, föðurbetrungum með viðhengjum sínum sem veita stöðugan innblástur og barnabörnum sem fara með afa að skoða fugla í fjöru.
Ég hef einhvernveginn alltaf haft ómælda ánægju af því að fylgjast með því hvað börnin mín og vinir þeirra eru að bralla. Það er því ekki tilviljun, að ég hafi gengið til samstarfs við útgefendur sem einmitt eru nokkurnveginn af sömu kynslóð og börnin mín. Lesstofuliðinu þakka ég glaðværan metnað og bjartsýni, og fyrir að fá til liðs úrvalskrafta í bókaútgerð.
Að endingu þakka ég af alhug og auðmýkt Hagþenki fyrir að vera til og viðurkenningarráðinu fyrir að sjá verðleika í þessari bók minni um heillakarlinn Jón lærða.