Viðurkenning Hagþenkis 2014: Ofbeldi á heimili – Með augum barna

Guðrún Kristinsdóttir hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis 2014 fyrir ritstjórn ritsins Ofbeldi á heimili – Með augum barna. Aðrir höfundar ritsins auk hennar eru: Ingibjörg H. Harðardóttir, Margrét Ólafsdóttir, Margrét Sveinsdóttir, Nanna Þ. Andrésdóttir og Steinunn Gestsdóttir. 

""

Guðrún Kristinsdóttir lengst til vinstri ásamt meðhöfundum: Ingibjörgu H. Harðardóttur,Steinunni Gestsdóttur, Margréti Sveinsdóttur, Nönnu Þ. Andrésdóttur og Margréti Ólafsdóttur.

Í ályktunarorðum Viðurkenningarráðs segir um verkið: Merkilegt brautryðjandaverk sem á ríkt erindi við kennara, foreldra og alla sem láta sér annt um börn og velferð þeirra.

Jón Yngvi Jóhannsson veitti viðurkenninguna fyrir hönd félagsins og Íris Ellenberger flutti greinargerð Viðurkenningarráðsins sem er birt hér á síðunni. 

Viðurkenningarráð Hagþenkis 2014 skipuðu:  Bjarni Ólafsson íslenskufræðingur, Íris Ellenberger sagnfræðingur, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorbjörn Broddason félagsfræðingur. Verkefnastýra Friðbjörg Ingimarsdóttir.

Um viðurkenningu Hagþenkis:

 

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum sem ákvarðar tilnefningarnar tíu og hvaða höfundur og rit hlýtur að lokum viðurkenningu Hagþenkis. 

Viðurkenning Hagþenkis telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna getur hlotnast. Öll fræðirit sem komu út á Íslandi árið 2013 og eru á íslensku komu til greina við veitingu viðurkenningarinnar óháð útgefanda eða tilnefningum. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna, sama upphæð og Félag íslenskra bókaútgefanda veitir til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.