Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina kæmu en að valinu stendur sérstakt viðurkenningarráð. Viðurkenning Hagþenkis var veitt við hátíðlega athöfn 25. febrúar í Þjóðarbókhlöðunni og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1500.000 kr. Tónlist fluttu Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar, Vísur Vatnsenda – Rósu og Nú andar suðrið eftir Jónas Hallgrímsson.
Erla Hulda Halldórsdóttir hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis fyrir ritið Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871. Útgefandi Bjartur. Í umsögn viðurkenningarráðsins segir um ritið: Áhrifarík ævisaga sem varpar nýju ljósi á 19. öldina og veitir einstaka innsýn í heim kvenna. Byggir á ómetanlegum bréfum Sigríðar til bróður síns sem spanna hálfa öld.
Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagmönnum til tveggja ára i senn og í því voru: Halldóra Jónsdóttir, Kristján Leósson, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, Unnur Þóra Jökulsdóttir og Vilhjálmur Árnason.
Þakkarræða Erlu Huldu
Stjórn Hagþenkis, viðurkenningarráð, kæru gestir.
Það er mér mikils virði að fá viðurkenningu Hagþenkis fyrir bók mína, Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871. Ég tek á móti henni með þakklæti og gleði.
Í bókinni koma saman þræðir úr rannsóknum mínum til áratuga. Bókin byggir á sendibréfum, en það er heimildaflokkur sem ég hef lengi unnið með. Bókin snýst um konu, en saga kvenna hefur verið viðfangsefni mitt og ástríða í hartnær 40 ár. Loks er það ævisöguformið sjálft, hin sagnfræðilega ævisaga sem aðferð til að rannsaka og segja sögu. Til skamms tíma þótti það varla verðugt viðfangsefni að skrifa ævisögu um konu, hvað þá óþekkta konu á borð við Sigríði.
Bókin byggir á bréfum sem Sigríður skrifaði bróður sínum í rúmlega hálfa öld, frá 1817–1871, og sem slík eru þau frásögn af lífi sem var lifað, vitnisburður um ævi konu, vissulega brotakenndur, en þó hennar eigin orð um hversdaginn, ástina og dauðann. Mig langaði að veita innsýn í líf Sigríðar, eins og það birtist í bréfunum, og samferðafólks hennar, einkum kvenna, frekar heldur en að tengja hana við stjórnmála- og framfarasögu nítjándu aldar. Á þann hátt er bókin um Sigríði hluti af stöðugri og nauðsynlegri endurskoðun á því hvernig við rannsökum, skiljum og túlkum fortíðina þar sem konur, alþýðufólk og hversdagsleikinn hefur fengið sífellt meiri athygli.
En það eru blikur á lofti í heimi vísinda og fræða. Þar sem ég stend hér og tek á móti viðurkenningu sem veitt er fyrir fræðileg rit og kennsluefni get ég ekki annað en haft orð á þeim ógnum sem heimurinn stendur frammi fyrir, ekki aðeins af völdum firrtra valdsmanna, græðgi og vopna, heldur einnig af því að sögulegri þekkingu og sannindum er nú snúið á hvolf sem aldrei fyrr. Styrkir til rannsókna eru skornir niður, stofnunum lokað og viðurkenndum vísindum afneitað. Hér á landi hafa opinberir rannsóknasjóðir verið fjársveltir um margra ára skeið og hjá bæði almenningi og fólki í opinberum stöðum, má greina hliðstæða orðræðu og þá sem heyrist erlendis um rannsóknir og viðfangsefni sem eru þeim ekki þóknanleg. Það er því mikilvægara sem aldrei fyrr að standa vörð um rannsóknir og þekkingarsköpun og þar gegnir félag eins og Hagþenkir mikilvægu hlutverki.
Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa lagt mér lið við útgáfu bókarinnar, yfirlesurum, útgefendum mínum hjá Bjarti, kápuhönnuði, umbrotsmanni og aðstoðarkonum mínum. Bók er nefnilega ekki bara texti heldur líka gripur sem þarf að koma í form. Eiginmaður minn og fjölskylda fá ástarþakkir en viðurkenninguna fyrir þessa bók um fortíðina vil ég tileinka framtíðinni, barnabörnunum mínum, þeim Degi, Jökli og Þórdísi Móu, sem ég vona að muni auðnast að lifa við frið, frelsi, lýðræði og þekkingu.
Takk fyrir mig.