Viðurkenningarhafi Hagþenkis 2024

Viðurkenningu Hagþenkis hlaut Ólafur Gestur Arnalds fyrir ritið: Mold er þú. – Jarðvegur og íslensk náttúra. Útgefandi Iðnú. Í ályktunarorðum viðurkenningarráðsins sagði um ritið: Stórvirki á sviði náttúru- og umhverfisfræði með áherslu á sérstöðu íslensks jarðvegs. Fjallað er ýtarlega um mikilvægi moldarinnar í vistkerfum þurrlendis með ríkulegum gögnum og myndefni. Viðurkenninguna veitti formaður Hagþenkis, Gunnar Þór Bjarnason, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.500.000 kr. Settur var upp sýningarkassi í Þjóðarbókhlöðunni í samstarfi við Ólaf J. Engilbertsson. Tónlist flutti Rakel Sigurðarsdóttir og Axel Flóvent Daðason.

Þakkarávarp Ólafs flutt í Þjóðarbókhlöðunni þann 6. mars 2024.

Góðan daginn öllsömul 

Við, aðstandendur útgáfu bókarinnar „Mold ert þú“, erum stolt og þakklát fyrir að hljóta viðurkenningu Hagþenkis. Það er stórkostlegt að hljóta slíka viðurkenningu við lok formlegrar starfsævi – það yljar um hjartarætur.

Bókin „Mold ert þú“ er skrifuð inn í aðstæður sem eiga sér enga hliðstæðu í sögu mannkyns. Homo Sapiens er kominn að krossgötum og þarf að taka mikilvægar ákvarðanir um hvaða leið hann velur á vegferð sinni – vonandi ekki breiðu brautina niður á við sem hann hefur troðið hugsunarlaust um langa hríð í átt til tortímingar vistkerfa, og sjálfs sín. Hin leiðin er að feta slóðina upp brekkuna á ný með sjálfbærri landnýtingu og endurheimt vistkerfa − vistheimt.

Er orðræða síðustu kafla bókarinnar gildishlaðin? Ég fæ stundum gagnrýni í þá veru. En það er ákaflega mikilvægt að vísindamenn setji fram staðreyndir á skiljanlegu máli – forsendurnar – og taki þátt í að móta samfélagið. Þekking náttúrufræðinga verður æ mikilvægari eftir því sem gengur á náttúruauðlindir jarðar. Tæpitunga getur verið skaðleg – og ekki síst þegar kemur að kerfishruni manna og vistkerfa á jörðinni nú á tímum.

Bókin „Mold ert þú“ á sér langa forsögu, en ritun hennar hófst fyrir meira en aldarfjórðungi. Ég var beðinn um að kenna jarðvegsfræði við Háskóla Íslands – og það vantaði aðgengilegt lesefni fyrir nemendur. Fyrst varð til smá kver – en síðan fór köflunum að fjölga með hverju ári. Seinna fór ég að kenna við Landbúnaðarháskólann og alltaf jókst efnið – og á þessum tíma naut ég aðstoðar Margrétar Jónsdóttur við uppsetningu og framsetningu, en hún hefur verið einn helsti samstarfsmaður minn í marga áratugi.

Eftir því sem á leið óx áherslan á að tengja moldina við umhverfisþætti og stöðu vistkerfa – og í því felst kannski helsta sérstaða hennar. Í „Mold ert þú“ er fókusinn á náttúru landsins og umhverfismál – auk einlægs vilja til að gera bókina sem allra aðgengilegasta fyrir áhugafólk um náttúrufræði. Atgangurinn í lokaskorpunni við ritun bókarinnar var nokkuð harður og varði í tvö ár og ég þakka mínum nánustu fyrir þolinmæðina allan þennan tíma.

Það er ærinn starfi að skrifa texta, skapa og ná hugsun á blað, finna til myndir eða rissa dröft að skýringarmyndum og prufukenna efnið árum saman. En það er bara ekki nóg. Öll ritverk krefjast ritstýringar, skáldverk sem fræðibækur, sama hve höfundurinn er snjall og sjálfum sér nógur í störfum sínum. Þegar kemur að fræðibókum með myndum, teikningum og öllu sem því fylgir þá er framsetning farin að skipta mjög miklu máli – hún hefur áhrif á það hvort efnið nái til lesandans. Hönnuður og umbrotsaðili er orðin lykilpersóna í „sköpun“ verksins og framsetningu – sem hefur tekist ótrúlega vel í þessu tilfelli að okkar mati – en það verk vann Fífa Jónsdóttir hjá Landgræðslunni, sem nú heitir Land og skógur, en með henni deili ég hluta verðlaunanna. 

Svo er það líka þannig að þegar fræðafólk reynir að setja fram hugsanir á skiljanlegan máta þá er stundum skrifað hratt sem leiðir til málfarsvillna, sem textahöfundurinn sér síðan ekki nógu vel í yfirferðum – bestu þakkir Völundur Óskarsson. Það var Sigmundur Helgi Brink sem kom mér í samband við Iðnú, en hann gerði einnig kortin sem er að finna í bókinni og hafi hann þakkir fyrir.  Útgáfa bókarinnar var styrkt af Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslunni sem og af VOR, Vísindasjóði Orkuveitunnar, sem hér skal þakkað einlæglega. Ég vil ennfremur þakka samstarfsmönnum í nútíð og fortíð, margir eiga hlut í bókinni, sem og bókaútgáfunni IÐNÚ, Heiðari Inga Svanssyni og samstarfsfólki – en samvinna okkar hefur verið einkar ánægjuleg.

Ég er svo lánsamur að eiga mér lífsförunaut sem deilir með mér starfsvettvangi.  Hún heitir Ása L. Aradóttir og er prófessor í landgræðslufræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Áratugum saman höfum við deilt brauði í lífsbaráttunni – skipst á hugmyndum, jákvæðri gagnrýni og ferðast um landið og heiminn í lífi og starfi til að öðlast víðsýni og njóta lífsins. Takk Ása!

Við ítrekum innilegar þakkir fyrir þann heiður að fá viðurkenningu Hagþenkis.  Þetta er mikilvægt félag fyrir ritun fræði-  og kennslubóka á Íslandi og réttindi þeirra sem gefa sig að slíkum skrifum til heilla fyrir samfélagið. Viðurkenningin gleður og örvar okkur til frekari dáða. 

Takk fyrir