Viðurkenningu Hagþenkis hlaut Hjalti Pálsson fyrir mikilsumvert framlag til lengri tíma, ritin: Byggðasaga Skagafjarðar. I.-X. bindi. Útgefandi Sögufélag Skagfirðinga. Í ályktunarorðum viðurkenningarráðsins sagði: Yfirgripsmikið fjölbindaverk, skrifað af þekkingu og stutt margvíslegum heimildum ásamt fjölda ljósmynda. Viðurkenninguna veitti formaður Hagþenkis, Gunnar Þór Bjarnason, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. og var settur upp sýningarkassi í Þjóðarbókhlöðunni í samstarfi við Ólaf J. Engilbertsson. Tónlist flutti Óskar Pétursson söngvari og Stefán Gíslason spilaði undir.
Þakkarávarp Hjalta flutt i Þjóðarbókhlöðunni:
Snemmsumars árið 1947 kom í heiminn á Sauðárkróki piltungi einn. Móðir hans hafði oft verið lasin á meðgöngunni og var því ákveðið að hún færi á sjúkrahúsið í stað þess að ala afkvæmið í heimahúsum eins og löngum hafði tíðkast fram að þessu. Bóndi var heima í sveitinni að sinna búi sínu enda hábjargræðistíminn að fara í hönd og fráleitt að eiginmaðurinn færi að hanga yfir konu sinni „ufrá Krók“ eins og við sögðum í Hjaltadalnum. Hins vegar þurfti að fylgjast grannt með rollunum um og eftir sauðburðinn en barnsfæðing var annað mál. Ljósmóðirin átti að sjá um þá framvindu. Tvær miðaldra systur úr heimasveitinni, búsettar á Sauðárkróki, komu að heilsa upp á móðurina og afkvæmið og önnur spurði hvort Páll hefði nokkuð komið. Neei, ekki hafði hann gert það. Þá hnussaði í hinni sem vel þekkti annríkið í sveitinni og sagði. „Mér þætti nú ekki mikið þótt hann kæmi aldrei.“ Eftir nokkra daga kom svo móðurbróðirinn á vörubíl sínum, sótti mæðginin og fór með heim í dalinn – og hvorki öryggisbelti né barnastóll í bílnum.
Drengurinn var svo sem ekkert sérstaklega efnilegur en lifði þó og var skírður í höfuðið á Hjalta landnámsmanni á Hofi. Með tímanum komst hann á fót og tognaði úr honum að eðlilegum hætti og þegar hann var orðinn þriggja ára skrifaði Páll á Hofi bróður sínum bréf, sagði tíðindi frá heimilinu og hvernig krakkarnir örtuðu sig. Og þegar kom að því að lýsa örverpinu gaf Páll þann úrskurð að Hjalti litli væri bæði ódæll og ófyrirleitinn og alls ólíkur systkinum sínum. En til að sýna þó örlitla jákvæðni bætti hann því við að líklega væri hann óheimskur. Pjakkurinn var nefnilega búinn að læra að þekkja með nöfnum allar gimbrarnar 46 sem komið höfðu haustið 1950 eftir fjárskiptin 1949 og flestallar kollóttar. Það er því mesta furða að þessi ódæli og ófyrirleitni strákur skuli nú í dag standa í þessum sporum og hljóta viðurkenningu fyrir unnin störf. Þetta kann vera til marks um sannindi hins forna spakmælis: Ekki veit að hverju barni gagn verður.
Strákurinn ólst síðan upp við landbúnaðarstörf og reri meira að segja eina vertíð frá Grindavík. Þumbaðist í gegnum skóla og og tók pungapróf í íslenskum fræðum. Öll sín menntaskóla- og háskólaár og meira til vann hann sumar hvert á jarðýtum, mest í Skagafirði, kynntist þá vel héraðinu, lærði að þekkja hvern bæ og fólk um allar sveitir sýslunnar. Ómeðvitað var þetta kannski dýrmætur undirbúningur að ritun Byggðasögu Skagafjarðar.
Árið 1976 fluttist ég alfarinn til Sauðárkróks og tók um haustið við rekstri Safnahúss Skagfirðinga og stöðu héraðsbókavarðar. Þar með lenti ég undir verndarvæng Kristmundar Bjarnasonar rithöfundar á Sjávarborg og héraðsskjalavarðar í Skagafirði. Hann tjáði mér fljótlega umbúðalaust að þegar ég þyrfti að senda frá mér einhver skrif yrði ég að sýna sér ritsmíðina til lagfæringar því að ég gæti auðvitað ekkert skrifað. Og það var vissulega mikið rétt. Svo leið tíminn og að því kom að eggið ætlaði að fara að kenna hænunni en því var svosem ekkert vel tekið. En Kristmundur varð ótvírætt fóstri minn í fræðunum, fékk mér efni og leiðbeindi við gerð lokaritgerðar í sagnfræðinni, reyndi sitt besta að koma mér til nokkurs þroska og réði því að ég tók við Héraðsskjalsafninu af honum árið 1990.
Hér hefur nú þegar í máli Súsönnu Margrétar verið gerð nokkur úttekt á Byggðasögu Skagafjarðar og ég ætla ekki að fjölyrða um hana. Það yrði of langt mál. Ég vil aðeins nefna að það féll í minn hlut að ritstýra þessu verki og reyndar skrifa stærstan hluta þess en Byggðasaga Skagafjarðar hefur aðeins orðið til fyrir áhuga og samstarf fjölmargra aðila, bæði þeirra ótalmörgu sem lögðu lið með upplýsingagjöf og þeirra sem komu að skrifum og úrvinnslu en ekki síður heimaaðila sem héldu það út að fjármagna verkið í 26 ár. Áætla má að í ritun og útgáfu Byggðasögunnar hafi farið að minnsta kosti 50 starfsár.
Það væri ófært að nefna alla þá sem að gagni komu við tilbúnað Byggðasögunnar. Þeir skipta fjölmörgum hundruðum. Vil ég samt telja fjögur nöfn manna sem lengst og best unnu með mér. Egils Bjarnasonar ráðunauts á Sauðárkróki frá 1996-2007 og síðan Kára Gunnarssonar frá Flatatungu 2007-2019, Guðmundar Sigurðar Jóhannssonar ættfræðings sem yfirfór, bætti í og leiðrétti ábúendatalið á þann hátt sem enginn annar hefði betur getað og Þorgils Jónassonar sem bjó til nafnaskrána. Hún var ekki prentuð vegna stærðar en hefur birst á heimasíðu Sögufélags Skagfirðinga og er raunar ekki fullunnin ennþá. Fyrirgreiðsla og aðstaða á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga var lykillinn að því að hægt var að vinna þetta verkefni og samvinna við fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga skilaði mikilli vitneskju um fornbyggð í Skagafirði.
Fyrir hönd okkar allra sem höfum í aldarfjórðung staðið að útgáfu sögu byggðar í Skagafirði færi ég stjórn og viðurkenningarráði Hagþenkis hugheilar þakkir fyrir þann sóma sem mér hefur verið sýndur og verkinu Byggðasögu Skagafjarðar sem ég var svo lánsamur að fá tækifæri til að skapa og ritstýra.
Að svo mæltu þakka ég enn og aftur fyrir mig og bið ykkur öllum velfarnaðar.