Það er mér í senn ánægja og heiður að taka við viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, og verður þá hugsað til þess hve bilið hefur jafnan verið mjótt á milli fræða og fagurbókmennta á íslensku.
Nægir að nefna nöfn eins og Jón Helgason, Björn Th. Björnsson, Sigurð Nordal, Kristján Eldjárn, Sigurð Þórarinsson, Björn Þorsteinsson, Önnu Sigurðardóttur, Sverri Kristjánsson… svo aðeins sé dvalið við nokkur þeirra sem gengin eru. Hugsanlega blundar sú krafa í íslenskunni að svona skuli það vera, við munum hvernig Fjölnismenn settu í stefnuskrá sína að ræðan ætti að fela í sér fegurð og fróðleik, gerandi hæstu kröfur um framsetningu:
“Ennfremur verða menn að varast, að taka mjög dauflega til orða, annars er hætt við, að nytsamasta efni verði vanrækt og fyrirlitið af góðfúsum lesara”, segir þar.
Vissulega getur verið erfitt að búa við þessa kröfu og freistandi eins og fræðimenn stærri málsamfélaga að tala í sinn hóp á sértæknilegu málfari. Þetta er óneitanlega sú ögrun sem af fámenninu hlýst: 300 þúsund sálir geta aldrei myndað elítu, annað hvort talar maður við alla eða sjálfan sig.
En krafan er ekki bara í eina átt, hún hlýtur að vera gagnkvæm. Og sennilega gangast Íslendingar enn við því að heita bókmenntaþjóð, það sýnir fjörleg bókaútgáfa og umfjöllun um bókmenntir. En eru þeir fræðaþjóð? Ég held að þeir séu það að upplagi sem aftur stafar af því hvernig þeir komu til í veröldinni. Skoðum það með hliðsjón af alheimsfræðunum, kosmólógíunni.
Fyrir hálfri öld eða svo var viðtekin skoðun að alheimurinn hefði alltaf verið til. Þar af leiðandi var lítil forvitni um tilurð hans, hvernig hann hefði orðið til. Síðan ruddi kenningin um miklahvell sér til rúms, að heimurinn hefði þvert á móti orðið til í einni frumsprengingu og um leið vaknaði forvitnin um hvernig og hvenær og hvert stefndi. Hin kyrrstæða heimsmynd var í einu vetfangi orðin dýnamísk. Eins er um sögu þjóða, þjóð sem hefur “alltaf” verið til staðar í landinu svo langt sem litið verður, hún spyr síður um uppruna sinn, tilurð og vegferð. Slíkt er aftur á móti innbyggt í hlutskipti Íslendinga og þess vegna er lifandi með þjóðinni forvitni og eftirspurn eftir fróðleik sögu. Þessa gætir á öllum sviðum – utan einu – sjónvarpinu. Þar er við lýði einhver fræðafælni, að ekki sé sagt fræðafóbía. Eða minnast menn þess að sjónvarpið hafi verið með þáttaröð um íslenska tungu, sem þó er lífæð okkar og stolt? Minnast menn þess að sjónvarpið hafi verið með framhaldsflokk um sagnaarfinn, sem allur heimurinn horfir þó til? Hefur farið fram hjá okkur þáttaröð um hinar stórkostlegu uppgötvanir í fornleifafræði hérlendis á síðasta áratug eða svo? Eru menn ekki stöðugt á rökstólum í sjónvarpssal að ræða ný og breytt viðhorf til okkar eigin sögu?
Hvernig stendur á þessu fálæti? Stundum hefur hvarflað að mér að það eigi eitthvað skylt við afstöðu heitttrúaðra múslima til kvenlíkamans. Að sjónvarpið búi yfir svo ríkri blygðunarkennd þegar kemur að fræðum að það vilji helst hjúpa þau slæðum – jafnvel búrku. Nema það sé þetta gamla sem Eggert Ólafsson á 18. öld vildi meina að væri hin raunverulega orsök fyrir mannlífskröm á Íslandi, hann nefndi ekki hallærin, eldgosin, plágurnar – og var þó af nógu að taka. Nei það var miklu huglægara: þokuandana, sljóleikann. Og Fjölnismenn áréttuðu að blása bæri burt í stefnuskrá fyrsta árgangs Fjölnis á fjórða tug nítjándu aldar.
Eitt er alveg víst, orsökin getur ekki verið af fjármunalegum toga, því eðli málsins samkvæmt er kostnaður við slíkt efni í lágmarki: borð, stóll og talandi munnar – þegar grannt er skoðað. Hitt er annað mál að af þessu efni hlýst síðan auðlegð sem menn setja nú ofar annarri og kalla því virðulega nafni: menningarkapítal eða menningarauðmagn. Öfugt við bóluféð kemur það að innan og nærir hugina og skapar mönnum tilgang og lífsfyllingu. Eða með orðum Fjölnismanna:
“Skynsemina þyrstir eftir sannleikanum vegna hans sjálfs; hann er henni dýrmætari en svo, að hún í hvert sinn spyrji sig sjálfa, til hvurra nota hann sé; hann er sálinni eins ómissandi og fæðan er líkamanum.”
Ég þakka fyrir mig.