Ávarp Þorleifs Haukssonar

 
"" Margar fór ég ferðir glæfra,
fætur mína vafði næfra,
kulda mér þá sviðinn sveið.
En hvað var það hjá hugarangri
hverja stund á vegferð langri
sem ég fyrir land mitt leið.

Þannig orti Grímur Thomsen fyrir munn Sverris konungs á dauðastundinni. Skáldið sér Sverri fyrir sér í rómantísku hetjugervi, þjóðhöfðingjann sem leggur á sig ómælda hrakninga og þjáningar vegna skyldu sinnar gagnvart landi sínu og þegnum.
Lýsing Sverris í sögunni er svo margþætt og djúp að menn hafa gert sérmjög mismunandi myndir af honum, allt frá því að sagan var fyrst gefin út 1813. Síðast á fornsagnaþinginu í Durham á Englandi í hitteðfyrra var tekist á um konungsímynd Sverris í sögunni, hvort beri að skilja hann sem útvalinn konung af Guðs náð eða konung í ætt við norræna víkingahöfðingja á fyrri tíð.

 

Viðtökusaga Sverris sögu væri efni í langan lestur og það má mikið vera ef nafnið Grýla sem notað er í formálanum um ótilgreindan fyrri hluta sögunnar er ekki fyrsti vitnisburðurinn. Nafnið gæti bent til þeirrar sérstöku velþóknunar sem klausturbræðurnir á Þingeyrum, fyrstu lesendur og áheyrendur bókarinnar sem Karl ábóti kom með úr Noregi 1188 höfðu á þessum færeyska presti sem ferðaðist til Noregs einn sins liðs, lítill og lágur maður utan af útskerjum eins og hann lýsti sér sjálfur, en tókst á fáum árum að leggja allt landið undir sig. Aðferðir hans eru skæruhernaður, hann kemur eins og Grýla í rökkrinu öllum að óvörum og skýtur óvinum sínum skelk í bringu.

Ég lít svo á að ritröðin Íslensk fornrit sem á sér nú um 80 ára sögu, eigi sinn skerf í þessari viðurkenningu. Fornritafélagið hefur haft forgöngu um að gefa út öll öndvegisrit íslenskra fornbókmennta í útgáfum sem eru í senn fræðilega grundvallaðar og aðgengilegar almennum lesendum. Það hafa verið mikil forréttindi að fá að vinna við þetta stórmerkilega bókmenntaverk, Sverris sögu. Það kom mér líka skemmtilega á óvart hve mikið var órannsakað og óútkljáð í sambandi við þessa sögu, eins og margir fræðimenn hafa upptendrast af henni í næstum tvær aldir.

Sagan er merkileg meðal annars vegna þess hvað hún er gömul. Þetta er elsta veraldlega konungasagan sem varðveitt er. Hún er samtímasaga frá lokum 12. Aldar, rituð eftir sjónarvottum skömmu eftir að atburðir gerðust; upphafið er meira að segja ritað eftir söguhetjunni sjálfri. Söguþráðurinn er ævintýri líkastur: færeyskur prestur fær að vita að hann sé sonur látins Noregskonungs. Hann ferðast til Noregs einn síns liðs, gerist foringi fámenns uppreisnarhóps, og sjö árum síðar sigrar hann og fellir konung landsins og alla helstu foringja hans. Þetta tekst honum með mikilli kænsku og óhefðbundinni herstjórnarlist. Höfðingjarnir og kirkjan sætta sig þó aldrei við þetta aðskotadýr, og hann er bannfærður af páfa en tekst að halda völdum og deyr á sóttarsæng.
Þó að ýmislegt virðist ótrúlegt í þessari atburðarás þá koma helstu staðreyndir heim við frásagnir erlendra samtímasagnarita sem prentaðar eru í Viðauka nýju útgáfunnar tjá málstað andstæðinganna, þar sem Sverrir er kallaður harðstjóri og guðníðingur sem jafnvel hafi notið aðstoðar djöfulsins.

Það er karlaheimur sem þarna er lýst, höfundur er mjög upptekinn af bardögum og herstjórnarlist, og hann er mikill höfðingjasinni, bændur sem gera uppreisn gegn sífelldum herútboðum og gripdeildum fá heldur háðulega útreið. En sagan er meistaralega skrifuð og algerlega einstæð í evrópskri sagnaritun á þessum tíma. Ræðurnar eru bráðskemmtilega skrifaðar, bæði mælskufræðilega kórréttar og birta einatt skemmtilegar augnabliksmyndir af því umhverfi sem þær eru fluttar í.

Ég hóf þetta verk sumarið 2003 og hef átt góða samfylgd með Sverri konungi og Karli ábóta. Meðal annars höfum við farið allnokkrar ferðir saman, ekki ferðir glæfra, heldur fróðleiks og ánægju, meðal annars á fyrrnefnda fornsagnaráðstefnu í Durham og Jórvík. Tvisvar var mér úthlutað mánaðardvöl í fræðimannsíbúð húss Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn til að skoða handrit Sverris sögu. Eitt helsta ákvæðið í samningi nefndarinnar sem Íslendingar kölluðu skilanefnd handrita en Danir skiptanefnd var að handrit að verkum sem gerðust utan Íslands skyldu vera áfram í Danmörku. Á Árnasafni í Kaupmannahöfn eru því öll meginhandrit Sverris sögu nema Flateyjarbók. Tvær elstu bækurnar virðast hafa verið ritaðar beinlínis til útflutnings til Noregs. Einu sinni dvaldist ég í Ósló um hálfs mánaðar skeið og sat á Senter for vikingtid og nordisk middelalder og flutti tvo fyrirlestra um Grýlumálin við Óslóarháskóla. Allra skemmtilegust var þó ferð okkar Böðvars Guðmundssonar um Sverrisslóðir í Noregi. Þar var margt að skoða. Það eru um 400 örnefni í sögunni, tengd ferðum Sverris um landið þvert og endilangt og herbrögðum hans ýmis konar. Og allt þurfti að skoða. Í nýútgefinni norskri bók um Sverri sem við keyptum í ferðinni var til dæmis frásögn sögunnar um skipadrátt Sverris á landi milli vatnanna Randar og Mjörs dregin mjög í efa. Það væri ewngin leið að draga skip þarna á milli. Þessu hlytio Sverrir að hafa logið í eyra Karli ábóta, eins og svo mörgu öðru. Hér tókum við upp hanskann fyrir okkar mann og lauk með því að við þóttumst finna leiðina. Auðvitað var hún torsótt og torfundin. En það segir líka í sögunni að aldrei áður hafi skip verið dregin milli þessara vatna. Þarna er líka að finna lykilinn að herstjórnarlist Sverris sem þarf sífellt að koma óvinunum í opna skjöldu vegna þess hvað hann er fáliðaður. Það var alltaf gott ferðaveður, enda hétum við á Sverri að skála fyrir honum og Birkibeinum í næturstað ef veðrið héldist þurrt og bjart. Eina skakkafallið var þegar myndavélinni minni var stolið í bílastæðahúsinu í Errling den skakkes gate í Niðarósi, en Erlingur var eins og kunnugt er einn helsti andstæðingur Sverris. Alls lögðum við 15000 km að baki, sunnan úr Bohuslän og norður í Þrændalög og til baka, á 10 dögum. Þessi ferð var styrkt af norska kirkjumálaráðuneytinu.

Ég þakka stjórn Hins íslenska fornritafélags og ritstjórum mínum, Jónasi Kristjánssyni og Þórði Inga Guðjónssyni mjög gott samstarf.
Ég hef unnið við þetta verk á Stofnun Árna Magnússonar þegar ég hef þurft að leita í handrit og bækur sem þar eru. Á þeirri stofnun, sem í upphafi hét Handritastofnun Íslands, sat ég í sjö ár sem ungur maður, og það hefur verið gott að endurnýja þau kynni og fara aftur að grúska í handritum. Lengst af hef ég þó unnið í skrifstofu minni í ReykjavíkurAkademíunni þar sem ég hef haft aðsetur síðustu sjö árin. Það samfélag fólks úr ólíkum greinum hug- og félagsvísinda hefur reynst mér ómetanlegur stuðningur, ögrun og örvun.

Þessi viðurkenning er kærkomin og ég færi viðurkenningarráðinu kærar þakkir.