Ávarp formanns Jóns Yngva Jóhannssonar vegna tilnefninga

Góðir gestir
 
Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis eru nú kynntar í 10. skipti. Viðurkenningin sjálf á sér lengri sögu en hún var fyrst veitt árið 1987 eftir að félagið hafði unnið sína fyrstu áfangasigra í baráttunni fyrir viðurkenningu fræðiritahöfunda og höfunda námsefnis.
Viðurkenningin er þannig með elstu bókmenntaverðlaunum á Íslandi. Frá upphafi hafa peningaverðlaun fylgt viðurkenningunni. Þeir peningar koma, líkt og allir þeir styrkir sem félagið veitir, af hlutdeild fræðirita- og kennslugagnahöfunda í samningsgreiðslum fyrir ljósritun og aðra afritun í skólum, opinberum stofnunum og víðar. Þetta eru peningar sem höfundar vinna fyrir og samtök þeirra úthluta.
 

 

Fræðibókaútgáfa á Íslandi er og hefur verið blómleg. Fjölbreyttur listi yfir tilnefnd verk í ár endurspeglar þetta, þar má finna kennslubækur, fornritaútgáfu, fræðirit á sviði náttúruvísinda, hugvísinda, félagsvísinda og hagfræði. Þegar litið er yfir þennan lista og lista undanfarinna ára er ástæða til bjartsýni, en það eru blikur á lofti.
Útgáfa kennslubóka og fræðirita fyrir alla aldurshópa á Íslandi glímir við margvíslega erfiðleika þessi misserin. Námsbókamarkaður fyrir framhaldsskóla hefur hrunið á undanförnum árum, ekki síst vegna þess að stórir bóksalar hafa ákveðið að slátra gæsinni sem verpir þeim gulleggjum með því að leggja alla áherslu á skiptibókamarkaði. Afleiðingarnar eru að útgáfa nýrra námsbóka í mörgum greinum stendur ekki lengur undir sér. Reyndir höfundar námsefnis fá því verk sín ekki útgefin og það verður ekki eðlileg endurnýjun í hópi þeirra sem skrifa námsbækur fyrir framhaldsskóla.
Á síðasta ári urðu líka þau tíðindi eins og við vitum að ríkisstjórn og Alþingi hækkuðu virðisaukaskatt á bækur. Það er í sjálfu sér áhyggjuefni fyrir alla sem vilja veg bókaútgáfu á Íslandi sem mestan. Hitt er þó verra að í aðdraganda skattahækkunarinnar mættu hagsmunasamtök rithöfunda og útgefenda fullkomnu sinnuleysi og skilningsleysi þeirra ráðamanna sem stóðu að henni. Enn höfum við ekki heyrt rök þeirra fyrir skattahækkun á bækur og ekkert bólar á þeim mótvægisaðgerðum sem boðaðar voru.
Enn sem fyrr er það því þannig að stjórnmálamenn minnast bókmenntanna í ræðum og tala hátt og snjallt um mikilvægi þjóðmenningar og læsis, en virðast lítinn áhuga hafa á að kynna sér undirstöður bókmenningar í landinu eða styðja við hana á myndarlegan hátt.
 
En í dag ætlum við ekki bara að hugsa til misviturra stjórnmálamanna. Í dag er ástæða til að gleðjast með þeim höfundum sem viðurkenningaráðið hefur ákveðið að tilnefna. Í viðurkenningarráði sitja fimm fræðimenn og höfundar af ólíkum fræðasviðum sem hafa kannað útgáfu síðasta árs. Starf þeirra er skemmtilegt, það þekki ég af reynslu, en ekki auðvelt og við kunnum þeim bestu þakkir fyrir. Tilnefningarnar eru nú í fyrsta sinn kynntar í samvinnu við Borgarbókasafn og Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO. Í kjölfarið munu tilnefndum höfundum standa til boða að kynna verk sín í söfnum Borgarbókasafns.

Þótt listinn yfir tilnefndar bækur sé glæsilegur söknum við auðvitað öll einhverra framúrskarandi fræðibóka og kennslubóka sem komu út á síðasta ári. Mér, og raunar viðurkenningarráðinu sjálfu, finnst sérstök ástæða til að nefna hér eina bók, Sveitina í sálinni eftir Eggert Þór Bernharðsson sem ekki er lengur á meðal okkar. Sú bók er sannkallað stórvirki og ber Eggerti fagurt vitni, bæði sem sagnfræðingi og frábærum höfundi og miðlara.
Viðurkenning Hagþenkis er veitt til höfunda af höfundum, eitt markmið hennar eins og alls starfs félagsins er að hvetja höfunda til áframhaldandi starfa á fræðaakrinum og stuðla að því að ný verk verði til. Þetta var sérstakt áhugamál Eggerts Þórs. Hann sat lengi í fulltrúaráði félagsins og mætti á flesta aðalfundi síðastliðinna ára. Á aðalfundi samþykkjum við hvernig fjármunum félagsins skuli varið, hversu háar upphæðir renni til Viðurkenningarinnar, til starfsstyrkja til ritstarfa og handritagerðar, til þóknana fyrir ljósritun og ferðastyrkja.

Um skeið var félagið rekið með hagnaði þannig að nokkrir sjóðir söfnuðust upp. Eftir að Eggert komst að þessu flutti hann á nokkrum aðalfundum í röð tillögu um að hækka styrki verulega frá varfærnum áætlunum formanns og stjórnar. Honum fannst ótækt að félag eins og okkar lægi á sjóðum þegar fræðimenn þyrftu á peningum að halda. Það er ekki síst honum að þakka að við höfum á undanförnum árum gengið á sjóðina og hækkað styrki til fræðimanna myndarlega. Eggert Þór var ekki að hugsa um sjálfan sig en brann fyrir því að ungir fræðimenn og aðrir sem þurftu stuðning til fræðistarfa eða námsefnisgerðar fengju sem mest í sinn hlut. Við minnumst Eggerts með hlýju og þakklæti og höldum áfram að starfa í hans anda, að gera okkar besta til að styðja við störf þeirra sem miðla sögum og fræðum.