Viðurkenningu Hagþenkis 2010 fyrir framúrskarandi rit hlýtur Una Margrét Jónsdóttir, höfundur ritanna, Allir í leik Söngvaleikir barna, I-II. Útgefandi er Bókaútgáfan Æskan. Formaður Hagþenkis, Jón Yngi Jóhannsson, afhenti Unu Margréti Jónsdóttur viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í ráðstefnusal Þjóðarbókhlöðunnar í Þjóðarbókhlöðunni 10 mars kl. 17. Viðurkenningin felst í árituðu viðurkenningarskjali og einni milljón króna. Í greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis 2010 segir um rit Unu Margrétar:
- Menningarsögulegt stórvirki um söngvaleiki barna á 20. öld í tali, tónum og látbragði með samanburði við eldri hefðir á Íslandi og leiki í nágrannalöndum.
Viðurkenningarráð Hagþenkis 2010 er skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af ólíkum fræðasviðum. Það hefur verið að störfum síðan um miðjan október. Í lok janúar voru tilnefnd 10 framúrskarandi rit og höfundar þeirra. Í viðurkenningarráði 2010 eru: Þórður Helgason bókmenntafræðingur, formaður, Geir Svansson bókmenntafræðingur og þýðandi, Hrefna Róbertsson sagnfræðingur, Kristín Unnsteinsdóttir uppeldis- og kennslufræðingur og Jóhann Óli fuglafræðingur og ljósmyndari. Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir.
Ferlisskrá Unu Margrétar Jónsdóttur:
Una Margrét Jónsdóttir er fædd 1966. Hún tók BA-próf í frönsku árið 1990 og stundaði tónlistarnám í Söngskólanum í Reykjavík, Tónlistarskólanum í Reykjavík og Schola Cantorum í París. Í nóvember 1990 hóf hún vinnu sem dagskrárgerðarmaður á Tónlistardeild Ríkisútvarpsins og hefur unnið þar síðan. Árið 1998 var hún, ásamt Ríkarði Erni Pálssyni og Jóhannesi Jónassyni, í íslenska liðinu í Kontrapunkti, norrænum spurningaþætti um sígilda tónlist sem sýndur var í sjónvarpi á öllum Norðurlöndum.
Árið 1999 byrjaði Una Margrét að rannsaka íslenska leikjasöngva og ferðast um landið til að hljóðrita þá. Hún talaði við fólk á öllum aldri og fór í barnaskóla í ýmsum landshlutum: á Egilsstöðum, Hallormsstað, Akureyri, í Hrísey, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum og í Borgarfirði, auk Reykjavíkur. Styrkir úr Grænlandssjóði og Sumargjafarsjóði gerðu henni kleift að fara til Grænlands, Færeyja og Bandaríkjanna og gera þar samanburðarrannsóknir. Hún gerði 12 útvarpsþátta röð um leikjasöngva, "Allir í leik", árið 2004, en hélt síðan rannsóknum sínum áfram til ársins 2010 og fór á þeim tíma í barnaskóla í Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Hveragerði, Stykkishólmi, Grímsey, á Kirkjubæjarklaustri, Sauðárkróki og í Húnaþingi vestra. Árangurinn af þessum tíu til ellefu ára rannsóknum má sjá í bókunum "Allir í leik I-II" sem út komu árin 2009 og 10. Þar eru birt á nótum lögin og textarnir sem Una Margrét safnaði auk fróðleiks um uppruna þeirra og leikina sem þeim tengjast.
Af útvarpsþáttaröðum sem Una Margrét hefur haft umsjón með, auk þáttaraðarinnar "Allir í leik", má nefna "Söngva um stríð og frið" 1993,"Vakið vakið! – Söngvar úr íslenskri sjálfstæðisbaráttu" 1995, "Ljóðabókin syngur" 2008, "Gullöld revíunnar" 2009 og "Silfuröld revíunnar" 2010.