Tilnefnt til viðurkenningar Hagþenkis 2010

 

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Viðurkenningarráð Hagþenkis ákveður hvaða 10 höfundar eru tilnefndir og velur þann sem hlýtur viðurkenninguna. Ráðið er skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af ólíkum fræðasviðum og hafa þeir fundað vikulega síðan um miðjan október. Í viðurkenningarráði eru: Þórður Helgason bókmenntafræðingur og er hann formaður ráðsins, Geir Svansson bókmenntafræðingur og þýðandi,  Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur,  Kristín Unnsteinsdóttir uppeldis- og kennslufræðingur og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur og ljósmyndari.  Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir. 

 

 Viðurkenning Hagþenkis telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum fræðilegra rita fyrir skóla og almenning getur hlotnast. Veiting hennar hefur oft vakið athygli en sjaldan deilur. Öll fræðirit sem koma út á Íslandi koma til greina við veitingu viðurkenningarinnar óháð útgefanda eða tilnefningum. Verðlaunaupphæðin er kr. 1.000.000 sem er hærri upphæð en Félag íslenskra bókaútgefenda veitir til íslensku bókmenntaverðlaunanna í hvorum flokki fyrir sig.

Í mars verður tilkynnt hvaða höfundur hlýtur viðurkenningu við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni.