Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2018

Formaður Hagþenkis, Jón Yngvi Jóhannsson kynnti 23. janúar kl. 16 tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis á Reykjavíkurtorgi Borgarbókasafnsins í Grófinni, Tryggvagötu. Hagþenkir og Borgarbókasafnið munu í framhaldi bjóða almenningi upp á kynningu á bókunum í samstarfi við höfunda þeirra, 2. febrúar kl. 15-17, á Reykjavíkurtorgi. Viðurkenningin verður síðan veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars. Verðlaunin nema 1.250.000 kr.
 
Viðurkenningaráð Hagþenkis er skipað félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn og stendur það að valinu. Það hóf störf um miðjan október og fundaði vikulega fram yfir síðustu áramót. Viðurkenningarráðið skipa: Auður Styrkársdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Henry Alexander Henrysson og Svanhildur Kr. Sverrisdóttir.
 
Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina koma.
  
Sjá fyrri tilnefningar: http://hagthenkir.is/tilnefningar-fra-upphafi
 
Viðurkenningarhafar Hagþenkis: http://hagthenkir.is/vidurkenningar-fra-upphafi