Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2018

""Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina koma.

Formaður Hagþenkis, Jón Yngvi Jóhannsson kynnti 23. janúar tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis á Reykjavíkurtorg Borgarbókasafns í Grófinni, Tryggvagötu, 101 Reykjavík. Hagþenkir og Borgarbókasafnið munu í framhaldi bjóða almenningi upp á kynningu á bókunum í samstarfi við höfunda þeirra, 2. febrúar kl. 15-17, á Reykjavíkurtorgi. Viðurkenningin verður síðan veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars. Verðlaunin nema 1.250.000 kr.
 
Viðurkenningaráð Hagþenkis er skipað félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn og stendur það að valinu.Það hóf störf um miðjan október og fundaði vikulega fram yfir síðustu áramót. Viðurkenningarráðið skipa: Auður Styrkársdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Henry Alexander Henrysson og Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Er þeim þakkað mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins. Eftirfarandi höfundar og bækur voru tilnefndar: 

Alda Björk Valdimarsdóttir
Jane Austen og ferð lesandans. Skáldkonan í þremur kvennagreinum samtímans. Háskólaútgáfan.
Ítarleg og áhugaverð rannsókn á ímynd Jane Austen í samtímanum og áhrifum hennar á kvennamenningu, einkum
ástarsögur, skvísusögur og sjálfshjálparbækur.

Axel Kristinsson
Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands. Sögufélag.
Ögrandi söguskoðun og eftirtektarverður frásagnarstíll höfundar mynda öfluga heild.

Árni Daníel Júlíusson
Af hverju strái. Saga af byggð, grasi og bændum 1300–1700. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan.
Vönduð sagnfræðirannsókn og frumleg framsetning býður lesandanum í spennandi tímaferðalag aftur til lítt þekktra
alda Íslandssögunnar.

Bára Baldursdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir
Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi. Hið íslenska bókmenntafélag.
Faglega fléttað verk byggt á hárfínni heimildavinnu um sögu starfsgreinar þar sem sjónum er ekki síst beint að ólíkri
kynjamenningu.

Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar. Vaka-Helgafell.
Einstakt bókverk þar sem framúrskarandi fræðimennska, væntumþykja fyrir viðfangsefninu og listræn útfærsla mun
sameina kynslóðir í lestri.

Kristín Svava Tómasdóttir
Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar. Sögufélag.
Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu
efni.

Magnús Þorkell Bernharðsson
Mið-Austurlönd. Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning.
Sérlega aðgengileg og fræðandi bók um nútímasögu Mið-Austurlanda, sögu- og menningarlegt samhengi nýliðinna
viðburða og togstreitu milli heimshluta.

Ólafur Kvaran
Einar Jónsson myndhöggvari. Verk, táknheimur og menningarsögulegt samhengi. Hið íslenska bókmenntafélag.
Glæsileg og ríkulega myndskreytt bók um hugmyndafræði verka Einars og tengsl hans við alþjóðlegar listastefnur og
íslenska menningu á fyrstu áratugum 20. aldar.

Rósa Rut Þórisdóttir
Hvítabirnir á Íslandi. Bókaútgáfan Hólar.
Yfirgripsmikið safn frásagna um átök manna og hvítabjarna, unnið upp úr óvenjulegu gagnasafni sem nær allt frá
landnámi til okkar daga; efni sem höfðar til allra aldurshópa.

Sverrir Jakobsson
Kristur. Saga hugmyndar. Hið íslenska bókmenntafélag.
Fróðleg og sannfærandi framsetning á því hvernig hugmyndir manna um Krist þróuðust og breyttust gegnum aldirnar
í meðförum þeirra sem á hann trúðu.
 
Fyrri tilnefningar: https://hagthenkir.is/tilnefningar-fra-upphafi
 Viðurkenningarhafar Hagþenkis: https://hagthenkir.is/vidurkenningar-fra-upphafi