Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2015

""Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2015 voru kynntar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið þriðjudaginn 2. febrúar kl. 17 í Borgarbókasafni Grófarhúsi í  Tryggvagötu. 
Viðurkenning Hagþenkis 2015 verður síðar veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars og nema verðlaunin einni milljón króna.  Viðurkenningaráð, skipað fimm félagsmönnum, stendur að valinu en það hóf störf um miðjan október og fundaði vikulega með verkefnastýru. Viðurkenningarráðið skipa að þessu sinni:

Baldur Sigurðsson íslenskufræðingur, Kristin Svava Tómasdóttir sagnfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur, Þorbjörn Broddason félagsfræðingur, Þórunn Blöndal íslenskufræðingur. Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdastýra Hagþenkis.

Eftirfarandi höfundar og verk eru tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis 2015: 

Bjarni F. Einarsson. Landnám og landnámsfólk. Saga af bæ og blóti. Skrudda.
Í metnaðarfullu verki um einstakan fornleifafund er varpað nýju ljósi á líf og siðvenjur landnámsfólks á Íslandi.
 
Bjarni Guðmundsson. Íslenskir sláttuhættir. Opna og Hið íslenska bókmenntafélag.
Höfundur opnar lesandanum skýra sýn á stórmerkan þátt í atvinnusögu þjóðarinnar og tekst að gæða afmarkað viðfangsefni lífi og lit.
 
Gunnar Þór Bjarnason. Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918. Mál og menning.
Frumlegt verk þar sem fléttað er saman í læsilegum texta frásögnum af ógnaratburðum úti í heimi og viðbrögðum Íslendinga við þeim.
 
Mörður Árnason (umsjón og ritstjórn). Passíusálmarnir. Crymogea.
Í þessu mikla verki skýrir umsjónarmaður orð og hugsun í hverju erindi og hverjum sálmi og rekur kunnáttusamlega þræði hugmynda, skáldskapar og guðfræði.
 
Ólafur Gunnar Sæmundsson. Lífsþróttur, næringarfræði fróðleiksfúsra. Ós.
Vönduð bók, byggð á traustum fræðilegum grunni, þar sem upplýsingar um heilsusamlegt líferni og holla fæðu eru settar fram á skýran hátt í texta og myndum.
 
Páll Baldvin Baldvinsson. Stríðsárin 1938–1945. JPV.
Í þessu umfangsmikla verki er dregin upp fjölbreytt og áhrifarík mynd af ljósum og dökkum hliðum stríðsáranna, samfélagslegum átökum og örlögum einstaklinga.
 
Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir. Rof. Frásagnir kvenna af fóstureyðingum. Háskólaútgáfan.
Í þessu tímabæra verki er vakin athygli á mikilvægu málefni. Ólíkar raddir kvenna fá að hljóma og dregnir eru fram sameiginlegir þræðir í sögum þeirra.
 
Smári Geirsson. Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915. Sögufélag.
Afar fróðleg frásögn í máli og myndum af ævintýralegum þætti íslenskrar efnahags- og atvinnusögu.
 
Soffía Auður Birgisdóttir. Ég skapa — þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar. Opna.
Metnaðarfullt og þarft verk um framlag þessa sérstæða og umdeilda höfundar til íslenskra bókmennta, skrifað á aðgengilegan og líflegan hátt.
 
Þórunn Sigurðardóttir. Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Með smitandi áhuga sínum og þekkingu kennir höfundur lesendum að skilja og meta löngu gleymdan kveðskap 17. aldar.