Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2014

""Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2014 voru kynntar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið fimmtudaginn 5. febrúar kl. 17 í Borgarbókasafni, Grófarhúsi Tryggvagötu 15,  101 Reykjavík
Viðurkenning Hagþenkis 2014 verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars. Hún felst í árituðu heiðurskjali og einni milljón króna.
Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekinupp sú nýbreytni að viðurkenningarráð tilnefnir tíu höfunda og bækur er til greina koma. Viðurkenningaráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn, stendur að valinu og hóf störf í október. Viðurkenningarráð Hagþenkis 2014 skipa: Bjarni Ólafsson íslenskufræðingur, Íris Ellenberger sagnfræðingur, Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorbjörn Broddason félagsfræðingur. Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdastýra Hagþenkis. 

Eftirfarandi höfundar og rit eru tilefnd: 

 

Ágúst Einarsson
Hagræn áhrif ritlistar. Háskólinn á Bifröst.
Ritlist sett í efnahagslegt samhengi og tengsl hennar við atvinnu- og efnahagslíf brotin til mergjar með óhefðbundnum efnistökum.
 
Brynja Þorgeirsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason
Orðbragð. Forlagið.Fersk og skemmtileg nálgun að íslenskri tungu. Fróðleik og umræðu um álitamál er haganlega fléttað saman.
 
Guðrún Kristinsdóttir (ritstj.)
Ofbeldi á heimili. – Með augum barna. Háskólaútgáfan.
Merkilegt brautryðjandaverk sem á ríkt erindi við kennara, foreldra og alla sem láta sér annt um börn og velferð þeirra.
 
Kristján Jóhann Jónsson
Grímur Thomsen. – Þjóðerni, skáldskapur, þversagnir og vald. Háskólaútgáfan.
Nýtt sjónarhorn á þjóðskáldið þar sem umfjöllun um ritstörf fléttast saman við nýstárlega greiningu á goðsögninni um Grím Thomsen.
 
Jón G. Friðjónsson
Orð að sönnu – íslenskir málshættir og orðskviðir. Forlagið.
Menningarsögulegt eljuverk þar sem höfundur hefur safnað íslenskum málsháttum frá fornu máli til nútíma og skýrir merkingu þeirra og uppruna.
 
Jónas Kristjánsson (†)og Vésteinn Ólason gáfu út                                                                                               Eddukvæði I og II. Hið íslenska fornritafélag.
Yfirgripsmikil og vönduð útgáfa eddukvæða þar sem fjallað er ítarlega um kvæðin í formála og þau skýrð þannig að hentar áhugafólki og fræðimönnum.
 
Páll Skúlason
Háskólapælingar. – Um stefnu og stöðu háskóla í samtímanum;  Hugsunin stjórnar heiminum;  Náttúrupælingar. – Um stöðu mannsins í ríki náttúrunnar. Háskólaútgáfan.
Í þessum þremur ritum er varpað ljósi á ýmis brýnustu álitamál samtímans frá sjónarhóli heimspekinnar. Djúp hugsun helst í hendur við læsilegan texta.
 
Ragnhildur Richter, Sigríður Stefánsdóttir og Steingrímur Þórðarson
Íslenska fjögur. – Kennslubók í íslensku fyrir framhaldsskóla. Forlagið.
Vel unnin og skýr kennslubók þar sem eftirtektarverður metnaður í aðlaðandi framsetningu auðveldar nemendum og kennurum notkun hennar.
 
Snorri Baldursson
Lífríki Íslands – vistkerfi lands og sjávar. Forlagið/Opna.
Í miklu og vönduðu verki gerir höfundur grein fyrir því hvernig vistkerfi landsins mótast af ytri skilyrðum náttúrunnar og á hvern hátt hinar ýmsu lífverur tengjast gangverki þeirra.
 
Úlfhildur Dagsdóttir
Myndasagan. – Hetjur, skrýmsl og skattborgarar. Froskur útgáfa.
Brautryðjandaverk um sögu og menningarlega stöðu vanmetinnar bókmenntagreinar hérlendis sem varpar m.a. ljósi á íslenskar myndasögur.