Tilnefningar til viðurkenningar Hagþenkis 2011

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekið upp sú nýbreytni að viðurkenningarráðið tilnefnir tíu höfunda og bækur er til greina koma og þykja framúrskarandi. Um það bil mánuði síðar er tilkynnt hver af þeim hlýtur viðurkenningu Hagþenkis, sem felst í sérstöku heiðursskjali og verðlaunafé að upphæð einni miljón króna. 

Viðurkenningarráð ársins 2011 er skipað fimm félagsmönnum og í ár eru það: Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur, Fanney Þórsdóttir lektor í sálfræði, Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur, Þorsteinn Helgason sagnfræðingur og Þórður Helgason bókmenntafræðingur. Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir. Ráðið hefur fundað vikulega síðan um miðjan október til að kynna sér útgáfu ársins.