Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018 voru kynntar í 30. sinn við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum 1 desember.
(Frétt á Mbl 1. des 2018. Hinir tilnefndu á Kjarvalsstöðum. Ljósmynd/​Lárus Karl Ingason)
Tilnefnt er í flokki barna- og ungmennabóka, fræðibóka og rita almenns efnis og fagurbókmennta, en fimm bækur eru tilnefndar í hverjum flokki. Formenn dómnefndanna þriggja, sem valið hafa tilnefningarnar, munu í framhaldinu koma saman ásamt Gísla Sigurðssyni, sem er forsetaskipaður formaður, og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki.
Verðlaunin verða afhent á Bessastöðum um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk.
Tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
Þjáningarfrelsið. Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur
Flóra Íslands. Blómplöntur og birkningar eftir Hörð Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóru Ellen Þórhallsdóttur
Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson
Kristur. Saga hugmyndar eftir Sverri Jakobsson
Skúli fógeti – faðir Reykjavíkur eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur
Dómnefnd skipuðu Knútur Hafsteinsson, Kolbrún Elfa Sigurðardóttir og Þórunn Sigurðardóttir, formaður nefndar.
Tilnefningar í flokki barna- og ungmennabóka:
Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring
Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur
Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur
Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn
Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson
Dómnefnd skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, formaður nefndar, Jórunn Sigurðardóttir og Þórlindur Kjartansson.
Tilnefningar í flokki fagurbókmennta:
Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur
Lifandilífslækur eftir Bergsvein Birgisson
Sálumessa eftir Gerði Kristnýju
Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason
Haustaugu eftir Hannes Pétursson
Dómnefnd skipuðu Bergsteinn Sigurðsson, Ragnhildur Richter og Steingrímur Þórðarson, formaður nefndar.
Samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra bókaútgefenda (Fíbút) voru í ár samtals lagðar fram 138 bækur frá 37 útgefendum í öllum flokkunum þremur. Í flokki barna- og ungmennabóka voru alls lögð fram 31 verk frá átta útgefendum, í flokki fræðibóka og rita almenns efnis voru lögð fram 40 verk frá 22 útgefendum og í flokki fagurbókmennta voru lögð fram 67 verk frá 20 útgefendum.
Alls hafa 14 höfundar af þeim 20 höfundum sem nú eru tilnefndir fengið tilnefningar áður og sex þeirra hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þetta eru Auður Jónsdóttir fyrir Fólkið í kjallaranum 2004; Hildur Knútsdóttir fyrir Vetrarhörkur 2016; Auður Ava Ólafsdóttir fyrir Ör 2016, Gerður Kristný fyrir Blóðhófnir 2010; Hallgrímur Helgason fyrir Höfund Íslands 2001 og Hannes Pétursson fyrir Eldhyl 1993.
Fyrri tilnefningar höfunda ársins
Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring voru tilnefnd í flokki barna- og ungmennabóka í fyrra fyrir Fugla.
Hildur Knútsdóttir er tilnefnd þriðja árið í röð í flokki barna- og ungmennabóka, en 2017 var hún tilnefnd og verðlaunuð fyrir Vetrarhörkur, 2016 var hún ásamt Þórdísi Gísladóttur tilnefnd fyrir Dodda og 2015 fyrir Vetrarfrí.
Sigrún Eldjárn hefur í flokki barna- og ungmennabóka verið tilnefnd fyrir Fuglaþrugl og naflakrafl 2014 ásamt Þórarni Eldjárn og fyrir Strokubörnin á Skuggaskeri 2013.
Arnar Már Arngrímsson var einnig tilnefndur fyrir fyrstu bók sína um Sölva, þ.e. Sölvasögu unglings 2015 í flokki barna- og ungmennabóka.
Auður Jónsdóttir er sá höfundur í ár sem hlotið hefur flestar tilnefningar eða samtals sex. Hún var í flokki fagurbókmennta tilnefnd fyrir Stóra skjálfta 2015, Tryggðarpant 2006 og Stjórnlausa lukku 1998 auk þess sem hún var tilnefnd og verðlaunuð fyrir Fólkið í kjallaranum 2004. Í flokki fræðirita var hún tilnefnd fyrir Skrýtnastur er maður sjálfur 2002.
Jón Baldur Hlíðberg hefur áður verið tilnefndur í flokki fræðirita fyrir Íslensk spendýr í ritstjórn Páls Hersteinssonar árið 2004 og Íslenska fugla ásamt Ævari Petersen 1998.
Ragnar Helgi Ólafsson var í fyrra tilnefndur í flokki fagurbókmennta fyrir Handbók um minni og gleymsku.
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir er annar tveggja höfunda í ár sem hlotið hefur næstflestar tilnefningar eða samtals fimm. Hún var tilnefnd fyrir Snorra á Húsafelli 1989 áður en verðlaununum var skipt upp í flokka, í flokki fræðibóka fyrir Upp á sigurhæðir 2006 og í flokki fagurbókmennta fyrir Kalt er annars blóð 2007 og fyrir Mörg eru ljónsins eyru 2010.
Auður Ava Ólafsdóttir hefur í flokki fagurbókmennta áður verið tilnefnd fyrir Undantekninguna 2012 og Ör 2016 sem hún var verðlaunuð fyrir.
Bergsveinn Birgisson hefur í flokki fræðirita verið tilnefndur fyrir Leitina að svarta víkingnum 2016 og í flokki fagurbókmennta fyrir Svar við bréfi Helgu 2010.
Gerður Kristný var tilnefnd og verðlaunuð fyrir Blóðhófnir 2010, en hafði áður verið tilnefnd fyrir Höggstað 2007 í flokki fagurbókmennta.
Hallgrímur Helgason er annar tveggja öfundar í ár sem hlotið hefur næstflestar tilnefningar eða samtals fimm. Í flokki fagurbókmennta var hann tilnefndur og verðlaunaður fyrir Höfund Íslands 2001, en hefur þess utan verið tilnefndur fyrir Sjóveikur í München 2015, Konuna við 1000° 2011 og Rokland 2005.
Hannes Pétursson var tilnefndur og verðlaunaður fyrir Eldhyl 1993 í flokki fagurbókmennta, en hefur síðan verið tilnefndur fyrir Fyrir kvölddyrum 2006.
Drifin áfram af bjartsýni, hugsjón og stórhug
Í ávarpi sem Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, flutti á Kjarvalsstöðum, kom fram að líklega megi telja að með öllum útgáfuformum verði samanlagður fjöldi útgefinna bóka í ár hátt í þúsund. Samkvæmt upplýsingum frá Fíbút er heildarfjöldi þeirra bóka sem kynntar eru í Bókatíðindum eru tæplega 800 og er þar einnig um öll útgáfuform að ræða.
Heiðar Ingi sagði ánægjulegt að tilkynnt væri um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama dag og 100 ár væru liðin frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918.
„Það er vel við hæfi á þessum degi að tilkynna um tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna því áhersla aldarafmælisins er einmitt á menningu og tungu okkar Íslendinga. Og hvað er þá meira viðeigandi í því samhengi en að halda bókmenningu okkar á lofti.
Nú er runnin upp sá árstími þegar við getum með sanni kallað okkur bókaþjóð, því þrátt fyrir allt er staða bókarinnar á íslenskum jólagjafamarkaði enn afar sterk. Og þó að ýmis ytri rekstrarskilyrði í bókaútgáfu hafi verið erfið undanfarin ár, þá kemur það alltaf þægilega á óvart að sjá úrvalið og fjölbreytnina sem gefin er út á hverju ári,“ sagði Heiðar Ingi og minnti á að sá mikli fjölda sem gefinn er út í ár beri vitni um að íslensk bókaútgáfa sé drifin áfram af bjartsýni, hugsjón og stórhug.
„Enda gengur það kraftaverki næst að hægt sé að reka metnaðarfulla bókaútgáfu hér á landi, þvert á markaðslegar forsendur um lágmarksstærð málssamfélags.
Nýtt frumvarp mikilvægt skref
Staðreyndin er nefnilega sú að bókaútgáfa er ein af lykilstoðum íslenskrar menningar og hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna í þróun íslenskrar tungu og þegar kemur að því að efla læsi. Til að staðfesta enn frekar mikilvægi bókmenningar, þá liggur núna fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra til stuðnings íslenskri bókaútgáfu. Frumvarpið er mikilvægt skref í þá átt að blása frekari bjartsýnisbyr í segl bókaútgefenda, stuðla að meira rými fyrir sköpun höfunda, auka fjölbreytni og efla samkeppnisstöðu bóka í síkviku og breytilegu nútíma samfélagi. Aðgerðin miðar að því að gera útgefendur betur í stakk búna til að mæta auknum kröfum og margþættum þörfum nútíma lesenda, með betra úrvali og meiri fjölbreytni, ekki síst þegar kemur að útgáfu barna- og ungmennabóka.“