´Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunamma voru kynntar 1. desember af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Kjarvalsstöðum, fyrir hönd FÍBÚT – félag bókaútgefanda.
Tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
- Árni Snævarr fyrir Ísland Babýlon: Dýrafjarðarmálið og sjálfstæðisbaráttan í nýju ljósi sem Mál og menning gefur út. „Skemmtileg frásögn um lítt þekktan kafla í sögunni sem sýnir sjálfstæðisbaráttuna frá nýju sjónarhorni. Höfundur leitast við að setja Ísland í samhengi við byltingasögu Evrópu. Þetta er vandlega unnið verk sem fær lesendur til að endurmeta stöðu Íslands í umheiminum.“
- Kristín Svava Tómasdóttir fyrir Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 sem Sögufélag gefur út. „Vandað verk sem veitir innsýn í þróun heilbrigðis- og velferðarmála á Íslandi. Sagan er vel skrifuð, út frá sjónarhorni húss sem gegndi ólíkum en mikilvægum hlutverkum í þróun nútímasamfélags. Margar eftirminnilegar persónur úr öllum þjóðfélagshópum koma við sögu og ríkulegt myndefni styður vel við frásögnina. Falleg og fróðleg bók.“
- Ragnar Stefánsson fyrir Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta sem Skrudda gefur út. „Stórfróðlegt yfirlitsrit um jarðskjálfta sem lærðir og leikir munu hafa gagn og gaman af. Hér birtist afrakstur áratuga rannsókna eftir einn af okkar helstu sérfræðingum um efnið og er hann bjartsýnn á að unnt verði að segja fyrir um jarðskjálfta. Með vönduðum texta og lýsandi skýringarmyndum auðveldar höfundur almenningi skilning á jarðskjálftum.“
- Stefán Ólafsson fyrir Baráttuna um bjargirnar: Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags sem Háskólaútgáfan gefur út. „Í bókinni greinir höfundur efnahagslíf, völd og stjórnmál á Íslandi með vandlega rökstuddum málflutningi. Greiningin byggist á umfangsmiklum gögnum sem sett eru fram í skýrum og lýsandi myndritum þar sem þróun á íslensku samfélagi er sett í alþjóðlegt samhengi. Slíkt rit er nauðsynlegt fyrir stjórnmálaumræðu á Íslandi.“
- Þorsteinn Gunnarsson fyrir Nesstofu við Seltjörn: Saga hússins, endurreisn og byggingarlist sem Þjóðminjasafn Íslands gefur út. „Hús okkar fyrsta landlæknis, sem byggt var á árunum 1761-1767 á sér merkilega sögu. Ritið á erindi til allra sem er umhugað um húsverndun og varðveislu menningararfsins. Líkt og við byggingu og endurgerð Nesstofu hefur höfundur verksins nostrað við hvert smáatriði. Með vandaðri framsetningu mynda lesendur sterk tengsl við húsið, íbúa þess, starfsemi og sögu.“
Dómnefnd skipuðu Skúli Pálsson, formaður dómnefndar, Margrét Auðunsdóttir og Sara Hrund Helgudóttir.
Aðrar tilnefningar má sjá á mbl: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/12/01/tuttugu_baekur_tilnefndar/