Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans voru kynntar við hátíðlega athöfn í Eddu, húsi Íslenskunnar þann 3. desember 2025.
Tilefnd eru fimm verk í þremur flokkum Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk fimm verka til Íslensku glæasagnaverðlaunanna. Félag íslenskra bókaútgefenda stendur að tilnefningunum og verðlaununum sem veitt verða í febrúar á Bessastöðum.
Eftirfarandi höfundar og rit eru tilnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
Kristín Svava Tómasdóttir
Fröken Dúlla: Ævisaga
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa
Umsögn dómnefndar:
Höfundur hefur unnið þrekvirki með því að skrásetja ævisögu Jóhönnu Knudsen (Dúllu). Yfirheyrslum og rannsóknum Jóhönnu á ástandsstúlkum hefur verið lýst sem umfangsmestu persónunjósnum Íslandssögunnar. Dómur sögunnar hefur því óneitanlega verið henni óhagstæður á síðari árum og í því felst mikil áskorun fyrir ævisagnaritara. Í verkinu er áleitnum spurningum svarað af festu og yfirvegun. Bókin byggir á styrkum fræðilegum grunni en frásögnin er lipur, áhugaverð og spennandi.
Chanel Björk Sturludóttir, Elinóra Guðmundsdóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir
Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi
Útgefandi: Vía útgáfa
Umsögn dómnefndar:
Ákaflega metnaðarfullt og mikilvægt verk sem miðlar fjölbreyttum sögum kvenna á Íslandi sem hafa oftar en ekki átt takmarkaða rödd í opinberri umræðu. Ritstjórar hafa með mikilli næmni og virðingu fyrir viðfangsefninu safnað saman ólíkum röddum og sjónarhornum kvenna sem eiga það sameiginlegt að vera af erlendu bergi brotnar, en hafa um leið auðgað íslenskt þjóðlíf svo um munar, hver á sinn hátt. Bókin er bæði skrifuð á íslensku og ensku, hana prýða fallegar ljósmyndir og það tekst afbragðs vel að kynna lesendur fyrir konunum sem deila sögum sínum.
Davíð Ólafsson og Arndís S. Árnadóttir
Mynd & hand: Skólasaga 1939–1999
Útgefandi: Sögufélag
Umsögn dómnefndar:
Í bókinni er fjallað með vönduðum og áhugaverðum hætti um 60 ára sögu Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þar er dregin upp ljóslifandi mynd af mikilvægu hlutverki skólans sem var í senn kennaraskóli, listiðna-, hönnunar- og myndlistaskóli. Lifandi frásagnarhátturinn varpar skýru ljósi á söguna en bókin er einnig ríkulega myndskreytt og fangar þannig andrúmsloftið í Mynd&hand. Fallegt og fróðlegt verk sem undirstrikar ómissandi þátt skólans í menningarsögu Íslands.
Gunnar V. Andrésson og Sigmundur Ernir Rúnarsson
Spegill þjóðar: Fréttamyndir í fimmtíu ár og sagan á bak við þær
Útgefandi: Mál og menning
Umsögn dómnefndar:
Ákaflega vandað og tímabært verk sem hefur að geyma margar af kunnustu fréttaljósmyndum Gunnars V. Andréssonar. Myndirnar spanna hálfrar aldar farsælan feril Gunnars. . Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur skráð sögurnar, á bak við myndirnar á lifandi hátt, sem gefa þeim samhengi og aukna dýpt. Bókin er áferðarfalleg og skemmtileg. Hún er á sama tíma mikilvægt innlegg í sögu þjóðarinnar og fjölmiðla á Íslandi, enda er þar að finna á annað hundrað myndir af augnablikum sem greypt eru í þjóðarsálina.
Sigrún Alba Sigurðardóttir
Þegar mamma mín dó
Útgefandi: Mál og menning
Umsögn dómnefndar:
Einstakt verk sem fjallar um reynslu höfundar af því að fylgja móður sinni síðasta spölinn. Um er að ræða einlæga og opinskáa lýsingu á þeim sterku tilfinningum sem kvikna í tengslum við dauðann og það að kveðja; bæði ást og umhyggju en einnig líðan á borð við samviskubit og vanmátt. Bókin á brýnt erindi við samtímann. Fjallað er um þær aðstæður sem samfélagið hefur búið dauðvona fólki og ekki síst álagið og ábyrgðina sem aðstandendur þurfa að takast á við á óumflýjanlegum tímamótum.
Dómnefnd skipuðu:
Björn Teitsson, Dagrún Ósk Jónsdóttir, formaður dómnefndar og Magnús Lyngdal Magnússon.
Aðrar tilnefningar: https://fibut.is/