Tilkynnt var 9. febrúar hvaða 10 rit eru tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og í samstarfi við Borgarbókasafnið og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Viðurkenning Hagþenkis verður síðan veitt við hátíðlega athöfn um miðjan mars og felst í viðurkenningarskjali og 1.250.000 kr. Viðurkenningarráð Hagþenkis skipað fimm félagmönnum til tveggja ára stóð að valinu og í því eru: Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Halldóra Kristinsdóttir, Súsanna Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir. Eftirfarandi rit og höfundar voru tilnefnd :
Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir. Samfélagshjúkrun. Iðnú útgáfa.
Þarft kennslurit um samfélagslega brýn málefni sem hefur víða skírskotun og nýtist bæði skólafólki og almenningi.
Aðalheiður Guðmundsdóttir. Arfur aldanna. I Handan hindarfjalls. II Norðvegur. Háskólaútgáfan.
Vandað og yfirgripsmikið rit sem opnar heillandi baksvið fornaldarsagna fyrir lesendum.
Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðni Valberg. Laugavegur. Angústúra.
Með göngu upp Laugaveginn fá lesendur nýja sýn á sögu og þróun húsanna við þessa aðalgötu bæjarins, verslun og mannlíf.
Arnþór Gunnarsson. Hæstiréttur í hundrað ár. Saga. Hið íslenska bókmenntafélag.
Verðugt afmælisrit sem grefur upp forvitnilegar og oft óvæntar hliðar á sögu æðsta dómstóls sjálfstæðs Íslands.
Auður Aðalsteinsdóttir. Þvílíkar ófreskjur. Vald og virkni ritdóma á íslensku bókmenntasviði. Sæmundur.
Brautryðjandaverk þar sem fjallað er um þróun bókmenntaumfjöllunar á Íslandi með hliðsjón af alþjóðlegum straumum.
Guðrún Ása Grímsdóttir (útgefandi). Sturlunga saga eða Íslendinga sagan mikla I-III. Hið íslenzka fornritafélag.
Úrvals textaútgáfa með greinargóðum inngangi um rannsóknir á Sturlungu og umgjörð hennar.
Lesendur fá góða innsýn í ófriðartíma 13. aldar.
Kristjana Kristinsdóttir. Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Þjóðskjalasafn Íslands.
Vandað og ítarlegt verk um stöðu Íslands sem léns í danska konungsríkinu, byggt á umfangsmikilli rannsókn á frumheimildum.
Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir. Reykjavík barnanna. Tímaflakk um höfuðborgina okkar. Iðunn.
Fjörleg og falleg bók fyrir alla aldurshópa um líf og starf í Reykjavík fyrr og nú.
Már Jónsson (ritstjóri). Galdur og guðlast á 17. öld. Dómar og bréf I-II. Sögufélag.
Rit sem opnar greiða leið að frumheimildum um galdramál og veitir jafnframt góða yfirsýn yfir framandlegt tímabil sögunnar.
Þórður Kristinsson og Björk Þorgeirsdóttir. Kynjafræði fyrir byrjendur. Mál og menning.
Vel unnið og vekjandi kennsluefni sem gerir nýrri námsgrein góð skil og tengir saman sögulegar forsendur og samtímaumræðu.