Umsögn Hagþenkis um bókmenntastefnu 2025-2030 og boðaða aðgerðaráætlun.

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, fangar tilkomu þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2025–2030 og áréttar mikilvægi þess að boðuð aðgerðaráætlun verði samþykkt af Alþingi og framkvæmd.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið boðaði helstu hagaðila á sviði bókmennta á fund þann 3. október 2023, þar á meðal fulltrúa Hagþenkis. Í kjölfarið sendi Hagþenkir ráðuneytinu nokkrar skriflegar tillögur um hvað bókmenntastefnan ætti að fjalla sem og aðgerðaráætlun.

Hvort tveggja kemur ágætlega fram í greinargerð sem birtist í tillögu til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2025–2030, þingskjal 267—263, þar sem boðuð er framkvæmda- og aðgerðaráætlun bókmenntastefnunnar.

Meginsjónarmið Hagþenkis komu fram í umsögn félagsins um bókmenntastefnuna sem send var inn í samráðsgáttina þann 21. nóvember 2023, en félagið vill árétta eftirfarandi atriði:

12. liður í aðgerðaáætluninni: Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna.
Starfslaunsjóðurinn er gríðarlega mikilvægur og ekki um það deilt að hann er verulega vanfjármagnaður. Margar þeirra fræðibóka sem mesta athygli og viðurkenningu hafa hlotið á undanförnum árum og áratugum eru eftir sjálfstætt starfandi höfunda sem reyna af fremsta megni að hafa framfæri sitt af rannsóknum og ritstörfum. Við síðustu úthlutun fékk enginn umsækjanda úthlutað meira en níu mánuðum auk þess sem í öllum tilvikum ríkir óvissa um framhaldsstyrk. Það er álit Hagþenkis að eitt af forgangsatriðum í aðgerðaáætluninni hljóti að vera að efla umtalsvert Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna.

13. liður í aðgerðagerðaáætluninni: Stuðningur við óhagnaðardrifna útgáfustarfsemi.
Hagþenkir styður eindregið að stutt verði dyggilega við bakið á þeim félögum „sem sinna íslenskum menningararfi og fjölbreyttu fræðastarfi“. Vönduð fræðiritaútgáfa er ein af meginstoðum bókmenntalífs þjóðarinnar og því brýnt að hlúa að henni.

Eins og fram kemur í greinargerðinni er í bókmenntastefnunni ekki fjallað sérstaklega um námsbækur og önnur kennslugögn. En í 7. lið aðgerðaáætlunarinnar er fjallað um skólasöfn og kosti þess að starfrækja sérstaka skólasafnamiðstöð. Námsbækur eru auðvitað partur af bókmenntum þjóðarinnar og góð námsgöng geta haft úrslitaáhrif á námsárangur barna og unglinga. Hagþenkir telur því fulla ástæðu til að minna á mikilvægi þess að námsefnisgerð njóti góðra styrkja og námsefnishöfundum verði tryggðar bókasafnsgreiðslur líkt og öðrum rithöfundum.

Fyrir hönd stjórnar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna.

Gunnar Þór Bjarnason formaður og Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra