Þjóðin ver að jafnaði 59 mínútum á dag í lestur samanborið við 69 mínútur fyrir tveimur árum

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn – Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands gera könnun á bóklestri þjóðarinnar. Rannsóknarfyrirtækið Prósent sá um framkvæmd könnunarinnar og fór hún fram dagana 7. til 20. október 2025.

 

Þetta er níunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað.

 

Niðurstöður úr nýrri lestrarkönnun, meðal Íslendinga 18 ára og eldri, sýna að þjóðin ver að jafnaði um klukkustund á dag í að lesa og/eða hlusta á bækur. Þrátt fyrir það hefur heildartíminn sem fólk ver í lestur/hlustun minnkað á undanförnum árum og fleiri segjast ekki verja neinum tíma í bóklestur daglega. Konur lesa að jafnaði meira en karlar, þau eldri meira en þau yngri og nær helmingur landsmanna er með áskrift að hljóðbókaveitu.

Að jafnaði lesa Íslendingar 2,3 bækur á mánuði, sem er svipað og undanfarin ár. Tölurnar sýna að dregið hefur úr lestri bóka á öllum formum, þ.e. hefðbundinna bóka, raf- og hljóðbóka. 37% svarenda sögðust ekki hafa lesið neina bók síðustu 30 daga, sem er umtalsverð hækkun frá því í fyrra þegar hlutfallið var 31%.Konur, ungt fólk og háskólamenntaðir eru líklegri en aðrir til að setja sér lestrarmarkmið og nýta sér fleiri leiðir til að nálgast bækur. Meirihluti þjóðarinnar, eða 62%, les oftar eða eingöngu á íslensku, en 20% lesa einungis eða oftar á öðru tungumáli.

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn – Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands gera könnun á bóklestri þjóðarinnar. Rannsóknarfyrirtækið Prósent sá um framkvæmd könnunarinnar og fór hún fram dagana 7. til 20. október 2025.

Þetta er níunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað.

Spurningar sem lagðar voru fyrir svarendur eru neðst í fréttinni. Sjá nánar á vef MIðstöðvar íslenskra bókmennta:

https://www.islit.is/frettir/thjodin-ver-ad-jafnadi-59-minutum-a-dag-i-lestur-samanborid-vid-69-minutur-fyrir-tveimur-arum