Erindi Sigrúnar Ingibjargar Gísladóttur flutt á málþingi Hagþenkis og Rithöfundasambands Íslands 5. október 2022 í Þjóðminjasafninu.
- Hugleiðingar um höfundarétt og tilgang hans
Höfundaréttur er að mörgu leyti sérstakt réttarsvið og skilgreining hans í sjálfu sér fyrsta áskorun lögfræðinga sem vinna á þessu sviði. Þannig byrja kennslubækur í lögfræði almennt á að staðsetja viðkomandi réttarsvið innan lögfræðinnar og er höfundaréttur gjarnan skilgreindur innan fjármunaréttar. Því fylgir hins vegar strax á eftir ákveðinn fyrirvari. Höfundarréttur er vissulega fjárhagslegs eðlis, en þar með er ekki öll sagan sögð. Það eru enda hliðar á höfundarréttinum sem ekki er hægt að skilgreina með þeim hætti s.s. sæmdarrétturinn sem er frekar skilgreindur sem einskonar siðferðislegur persónuréttur („droit moral“ á frönsku).
Þetta sérstaka eðli höfundaréttarins helgast m.a. af því að honum er í senn ætlað að vernda einstaklinginn og samfélagið. Við fyrstu sýn mætti ætla að höfundaréttinum væri fyrst og fremst ætlað að vernda höfund verks, tryggja að höfundurinn geti notið ávaxtar hugverksins. Í raun er því öfugt farið. Höfundaréttinum er í reynd ætlað að tryggja að almenningur geti notið verka höfunda. Ef höfundar nytu engrar verndar að lögum gætu þeir óttast að einhver myndi stela og hagnýta hugverki þeirra og þannig forðast birtingu verkanna. Með því að tryggja höfundum ákveðna vernd er ætlunin þannig að hvetja þá til birtingar verka sinna þannig að almenningur geti notið þeirra. Það stuðlar síðan að áframhaldandi þróun hugverka.
Vegna þessa samspils hagsmuna almennings annars vegar og höfundarins hins vegar er höfundarétturinn einnig sérstakur sem tegund af fjármunarétti. Höfundur nýtur einhverskonar eignarréttar yfir höfundarréttinum, en sá eignarréttur er takmarkaður bæði í tíma og rúmi. Þannig hefur lína verið dregin í sandinn 70 árum eftir andlát höfundar en þá eru hagsmunir almennings taldir vega þyngra til að njóta höfundaverk og höfundaréttur höfundar fellur að meginstefnu niður.
Á meðan verk er höfundarvarið eru yfirráð höfundar heldur ekki ótakmörkuð og hafa einstaklingar tilteknar (takmarkaðar) heimildir að lögum til nota verk í ófjárhagslegum einkatilgangi s.s. við á um eintakagerð skv. skilyrðum 11. gr. höfundalaga. Tilteknir angar höfundarréttarins geta síðan lifað lengur en höfundarverndin, þ.e. virðingarrétturinn (hluti sæmdarréttarins). Óheimilt er að framselja hann og óheimilt er að brjóta sæmdarrétt höfundar, jafnvel eftir að höfundarrétturinn er fallinn úr gildi.
- Hvað nýtur höfundarverndar?
Til þess að sköpun höfundar njóti þessarar verndar höfundarréttar þarf hún hins vegar að ná nægilegri „verkhæð” til að teljast höfundarverk. Mat á hvort verkhæð sé náð er lögfræðilegt atriði en ekki listrænt. Með öðrum orðum er ekki miðað við gæði verks, heldur felst athugunin í því hvort verk beri með sér nægilega mikinn frumleika og sjálfstæða sköpun, þannig að rétt sé að það njóti verndar sem höfundarverk. Hugmynd sem slík nýtur þannig engrar verndar samkvæmt höfundalögum en sjálfstæð útfærsla höfundar á þeirri hugmynd gerir það. Skilin þarna á milli eru matskennd en gegna lykilhlutverki við afmörkun réttindaverndar, hvort heldur sem er við mat á því hvort verk njóti höfundarverndar eða hvort um sé að ræða nýtt verk eða aðlögun á eldra verki.
Síðastnefnda atriðið, þ.e. um mörkin milli þess hvað telst nýtt verk og hvað telst vera aðlögun á eldra verki, hefur reglulega skotið upp í gegnum tíðina í almennri umræðu, enda fylgja því bæði siðferðisleg og lögfræðileg álitaefni. Hver er staða eldri höfundar þegar nýtt verk er birt og minnir mjög á eldra verk?
Lagalega skiptir þar öllu máli hvort verk teljist nýtt og sjálfstætt verk, eða hvort nýtt verk teljist aðlögun eldra verks. Þannig þarf alltaf samþykki frumhöfundar til að birta aðlögun eldra verks skv. 2. mgr. 4. gr. höfundalaga (sæmdarréttur) en ef slíkt samþykki liggur fyrir eignast síðari höfundurinn sjálfstæðan höfundarrétt yfir breytta (aðlagaða) verkinu. Ef verkið telst hins vegar nýtt og sjálfstætt verk þarf ekki samþykki höfundar skv. 2. mgr. 5. gr. höfundalaga enda heimilar ákvæðið að nota höfundavarið verk „sem fyrirmynd eða með öðrum hætti við gerð annars verks, sem telja má nýtt og sjálfstætt“.
Með öðrum orðum er óheimilt að birta aðlagað verk án heimildar höfundar, en heimilt er að nota það sem hugmynd eða hluta af nýju verki sem er nægilega frumlegt til að teljast sjálfstætt verk óháð fyrra verki. Skemmst er frá því að segja að skilin þarna á milli eru mjög matskennd og fólk getur haft ólíkar skoðanir á því hvar mörkin liggja. Þar fer lögfræðileg skilgreining og siðferðislegt mat hvers og eins ekki alltaf saman eins og umræða undanfarinna ára sýnir.
- Álitaefni
Þrátt fyrir að reglulega skjóti upp í umræðunni álitaefni þessu tengdu má segja að dómaframkvæmd um atriði sem varða sæmdarrétt og álitaefni um mörk milli aðlögunar og nýs og sjálfstæðs verks sé nokkuð takmörkuð hér á landi. Óvísindalegt dæmi um þetta er að á leitarvél í dómasafni koma upp um 10 sinnum fleiri dómar sem varða hvaða viðmiðunarlaun eigi að leggja til grundvallar við útreikning skaðabóta vegna líkamstjóns heldur en um þessi grundvallaratriði er varða höfundarétt. Velta má upp hvernig.
Hugsanlega spilar kostnaður við rekstur dómsmála þar inn í eða sá tími sem dómsmál taka, en málarekstur getur tekið einhver ár (sjá t.d. nýlegan dóm í Landsrétti í máli nr. 266/2020) og kostnaður hæglega orðið meiri en þær miskabætur sem dæmdar eru ef mál vinnst. Þá getur reynst erfitt að standa í málarekstri og þung skref að höfða dómsmál gegn öðrum höfundi . Aðrar ástæður gætu spilað inn í s.s. að um sé að ræða siðferðisleg álitamál ekki síður en lögfræðileg og ef til vill nái lögin ekki að öllu leyti utan um þau sjónarmið sem eru í umræðunni.
Ástæðurnar geta verið margar en eitt er þó þó ljóst og það er að þau álitamál sem hafa farið hátt í almenningsumræðu rata alls ekki alltaf fyrir dóm. Í því samhengi getur verið ástæða til að kanna hvort sé grundvöllur til að setja upp annan farveg fyrir ágreiningsmál, s.s. ýmsar starfstéttir hafa gert t.d. í formi úrskurðarnefnda eða siðanefnda. Það flækir hins vegar málið að álitaefnin myndu alla jafna varða ágreining milli höfunda og félagsmanna sömu félaga og því gæti verið flókið að finna réttan vettvang fyrir slíka úrlausn ágreiningsmála. Eitt er þó víst að þörf er á umræðu um það hvernig er best að leysa siðferðisleg- og lagaleg álitaefni um höfundarétt.