Svanhildur Kr. Sverrisdóttir nýr formaður Hagþenkis

""
Á aðalfundi Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, sem fram fór 3. apríl 2019, var Svanhildur Kr. Sverrisdóttir kosin nýr formaður stjórnar. Svanhildur Kr. Sverrisdóttir er doktor í menntunarfræði. Sérsvið hennar er kennsluhættir og íslenskukennsla. Hún hefur einnig lokið háskólaprófi í list- og verkgreinum. Svanhildur hefur reynslu af kennslu á öllum skólastigum, stjórnsýslu, ritstjórn, verkefnisstjórn og námsefnisgerð.

Svanhildur tók við formennsku stjórnar af Jóni Yngva Jóhannssyni bókmenntafræðingi. Með henni í stjórn eru Ásdís Lovísa Grétarsdóttir framhaldsskólakennari, sem jafnframt er varaformaður, Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarkona, Henrý Alexander Henrýsson heimspekingur og Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur.