Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í IÐNÓ sunnudaginn 24. febrúar. Er þetta í sjöunda sinn sem verðlaunin hafa verið veitt en Fjöruverðlaunin eru orðin mikilvægur hluti af bókmennta- og menningarlífi landsmanna en fyrst og fremst lykilþáttur í að vekja athygli á framlagi kvenna til íslenskra bókmennta.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, afhenti verðlaunin sem veitt voru í þremur flokkum, þ.e. fagurbókmenntum, fræðibókum og barna- og unglingabókum. Í flokki fagurbókmennta hlaut skáldsagan Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur (útgefandi Mál og menning) Fjöruverðlaunin. Af fræðibækum var bók Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur (útgefandi Sögufélagið) hlutskörpust og verðlaunin í flokki barna- og unglingabóka hlaut Þórdís Gísladóttir fyrir skáldsöguna Randalín og Mundi (útgefandi Bjartur).
Fjölmargir gestir lögðu leið sína á hátíðina en áður en að verðlaunaafhendingunni kom var boðið upp á skemmtileg tónlistaratriði og frú Vigdís Finnbogadóttir, ávarpaði samkomuna og sagði frá félagsskap fyrrverandi þjóðarleiðtoga. Að verðlaunaathöfninni lokinni fóru fram líflegar pallborðsumræður þar sem rætt var um hlutverk og sérstöðu kvenna í listum á Íslandi sem og nauðsyn sérstakra verðlauna fyrir framlag kvenna á mismunandi sviðum lista.