góð ráð um höfundarrétt og útgáfu

Góð ráð um höfundarétt og útgáfu?

Hagþenkir hefur ekki sérstakan samning við íslenska bókaútgefendur en algengast er að notaður sé samningur Rithöfundasambands Íslands og Félags íslenskra bókaútgefenda. Umfjöllun um samninginn frá sjónarhóli Fagbókahöfunda má finna hér. Það er rétt að brýna fyrir þeim sem semja um útgáfu fræðirita að nota þennan samning ef nokkur kostur er. Sérstaklega er ástæða til að vara við samningum þar sem reynt er að fara í kringum grundvallaratriði í útgáfusamningum með því að kalla hlutina ekki sínum réttu nöfnum, samningar þar sem fjallað er um höfund sem verktaka eða höfundaréttur er í ríkum mæli færður yfir til útgefenda eða verktaka eru sérstaklega varasamir.

Góð ráð um höfundarétt og útgáfu?

Margar fyrirspurnir sem berast á skrifstofu Hagþenkis snúa að réttindum fólks sem semur rit, kennsluefni, fræðilegt efni eða kynningarefni í vinnutíma sínum og á vegum stofnana sem það vinnur hjá. Íslensk höfundalög eru ekki skýr hvað þetta varðar, og affarasælast er að handhafar höfundaréttar semji við vinnuveitendur sína um hvernig málum er háttað. Hér á eftir fara nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga við slíka samninga.

1. Höfundaréttur verður til hjá einstaklingi og helst hjá honum. Stofnun eða fyrirtæki getur ekki verið handhafi höfundaréttar. Framsal á útgáfurétti eða öðrum notkunarrétti jafngildir ekki framsali á höfundarétti sem slíkum.

Þetta er auðvitað sjálfsagður hlutur, en það þarf samt að segja fólki þetta skýrt og greinilega. Það virðist ákveðin tilhneiging til að færa ensk/amerísku hefðina upp á íslenskar aðstæður, þ.e. að sá sem kaupir verk eigi það og geti farið með að vild. Þetta á t.d. oft við um þýðingar.


2. Við ráðleggjum höfundum að semja alltaf fyrirfram um ráðstöfun hugverka við stofnanir sem þeir vinna hjá. Helst ætti að semja um slíkt strax í ráðningarsamningi þannig að staðan sé ljós áður en meiriháttar hagsmunir, t.d. fjárhagslegir koma til skjalanna.

Þetta er auðvitað aðalatriðið og kemur í veg fyrir deilumál síðarmeir. Ráðningarsamningar virðast almennt ekki taka á þessu. Í ákveðnum störfum, t.d. hjá fastráðnum háskólakennurum og sérfræðingum er þetta ekki vandamál, en þegar því sleppir er fólk á gráu svæði og virðing yfirmanna fyrir höfundarétti og þekking á honum virðist ekki alltaf vera nægileg.


3. Við ráðleggjum höfundum að semja alltaf um takmarkanir á útgáfu eða birtingu. Stofnunin hafi rétt til að prenta verk í ákveðnu upplagi eða í ákveðinn árafjölda, setja það á netsíður í ákveðinn tíma og svo framvegis.

Þetta á einkum við um stærri verk, ritgerðir og bækur. Í þeim fyrirspurnum sem mér hafa borist hef ég séð ótrúlega víð ákvæði hvað þetta varðar þar sem starfsmönnum er gert að afsala sér öllum rétti að endurbirtingu og nýtingu á verkum sínum, jafnvel þótt þeir hverfi úr starfi hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki.

 

4. Við ráðleggjum höfundum að framselja ekki réttindi til að selja útgáfurétt að verkum sínum til þriðja aðila nema um það sé samið sérstaklega og réttur höfundar til viðurkenningar og umbunar fyrir verk sitt sé tryggður.

Enn einu sinni sjálfsagður hlutur en verður samt að minna á. Stofnanir geta ekki skikkað starfsmenn sína til að selja útgáfurétt að verkum sínum til þriðja aðila án þess að um það sé samið sérstaklega. Það sama gildir um höfundarlaun sem greidd eru af þriðja aðila, þau hljóta alltaf að eiga að falla höfundi í skaut en ekki vinnuveitanda hans.

Nýtingarréttur vinnuveitanda sem skapast í vinnusambandi veitir vinnuveitanda aðeins þann „höfundarétt sem honum er nauðsynlegur til þess að nýta verkið í venjulegri starfsemi sinni, að svo miklu leyti sem sanngjarnt, nauðsynlegt og eðlilegt getur talist, ef markmið með vinnusamningnum á að nást.” (Páll Sigurðsson: Höfundaréttur. Meginreglur íslensks réttar um höfundavernd. (1994), 115)

 

5. Við ráðleggjum höfundum að tryggja rétt sinn til að koma í veg fyrir að verkum þeirra sé breytt án samþykkis þeirra.

Þetta á ekki einungis við um breytingar á texta heldur einnig um m.a. birtingu á vefsíðum, í gagnabönkum, þýðingar o.fl. Stofnanir eiga ekki rétt á að nota verk starfsmanna ótakmarkað í slíkum tilfellum og alls ekki til að framselja þau til annarra í slíkum tilgangi.

 

6. Höfundar mega ekki og eiga ekki að gefa eftir rétt sinn til að kallast höfundar að þeim textum sem þeir skrifa, þótt það sé gert í vinnutíma og á vegum stofnunar eða fyrirtækis, hvort sem verk er unnið í samvinnu við aðra eða ekki.

Þetta á einkum við um texta sem seinna eru notaðir í öðru semhengi, t.d. þar sem fleiri en einn vinna efni, en ritstjóri eða sá sem tekur efnið saman er einn talinn höfundur að fullbúinni skýrslu eða riti. Þetta getur verið mjög mikilvægt sérstaklega fyrir þá sem vinna að rannsóknum sem hluta af vinnu sinni án þess að vera ráðnir sem rannsóknarmenn sérstaklega. Það er mikið hagsmunamál fyrir þetta fólk að það sé viðurkennt sem höfundar að verkum sínum, bæði upp á faglega viðurkenningu og ekki síður upp á framtíðina þar sem fólk getur þurft að vísa til verka sinna þegar sótt er um nýtt starf.