Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt á Bessastöðum við hátíðlega athöfn 28. janúar.
Sumarliði R. Ísleifsson fékk verðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina, Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Blokkin á heimsenda og Elísabet Kristín Jökulsdóttir í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Aprílsólarkuldi. Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar 1 .desember í Kiljunni á RÚV.
Tilnefnt var í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, flokki barna- og ungmennabóka og flokki skáldverka.
Fræðibækur og rit almenns efnis:
- Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir.Konur sem kjósa – aldarsaga. Sögufélag
Umsögn dómnefndar:
„Bókin er afrakstur mikilvægrar og vandaðrar fræðilegrar rannsóknar á jafnréttisbaráttunni á Íslandi í 100 ár, en einnig á stjórnmála- og menningarsögunni. Uppsetning bókarinnar er áhugaverð og hönnunin nýstárleg þar sem fjöldi ljósmynda, veggspjalda og úrklippa eru notaðar til að glæða söguna lífi.“
- Gísli Pálsson. Fuglinn sem gat ekki flogið. Mál og menning
Umsögn dómnefndar:
„Aldauða dýrategunda hefur ekki verið gefinn mikill gaumur til þessa hér á landi. Því er mikill fengur að þessari bók, sem beinir sjónum okkar m.a. að útrýmingarhættu og margvíslegum umhverfisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Geirfuglabækur tveggja breskra fræðimanna sem héldu í Íslandsleiðangur 1858 og höfundur hefur rannsakað í þaula varpa nýju ljósi á sögu og örlög síðustu geirfuglanna við strendur landsins.“
- Kjartan Ólafsson. Draumar og veruleiki –Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Mál og menning
Umsögn dómnefndar:
„Verkið er yfirgripsmikið og varpar áhugaverðu ljósi á stjórnmála- og stéttasögu vinstri manna hér á landi á 20. öldinni af miklu innsæi og hreinskilni. Um er að ræða tímamótarit þar sem nýjar og áður óaðgengilegar heimildir eru nýttar.“
- Pétur H. Ármannson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Hið íslenska bókmenntafélag
Umsögn dómnefndar:
„Vandað og löngu tímabært ritverk um fyrsta Íslendinginn sem lauk háskólaprófi í byggingarlist á síðustu öld. Líf Guðjóns Samúelssonar húsameistara var helgað starfi hans og list. Saga hans og ævistarfsins er vel og skilmerkilega rakin í bókinni. Höfundur byggir á víðtækum rannsóknum sínum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Fjölmargar myndir og uppdrættir prýða bókina.“
- Sumarliði R. Ísleifsson. Í fjarska norðursins : Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Sögufélag
Umsögn dómnefndar:
„Höfundi tekst að færa lesendum efni rannsóknar sinnar á mjög aðgengilegan og skýran hátt, þar sem hann varpar ljósi á rúmlega 1000 ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og vel myndskreytt.“
Dómnefnd skipuðu: Einar Örn Stefánsson, formaður dómnefndar, Björn Pétursson og Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir.
Fréttin í heild sinni á RUV: https://www.ruv.is/frett/2020/12/02/tilnefningar-til-islensku-bokmenntaverdlaunanna-kynntar