Íslenskar rannsóknir á námsgögnum, erindi Þorsteins Helgasonar

""

Námsgögn eru rannsóknarefni í mismunandi hlutverkum og frá mismunandi sjónarhornum sem spegla fjölbreytta stöðu þeirra. Slíkar rannsóknir hafa verið stundaðar um langan aldur og víða um lönd. Til hægðarauka má skipta rannsóknum á námsgögnum í nokkra flokka eftir viðfangsefnum hverju sinni.

 
  1. Einn rannsóknarþáttur er að skoða notkun gagnanna, námsgögn sem nytjahlut og verkfæri í höndum kennara og nemenda. Þá er kannað hvernig námsgögnin eru notuð, hvaða hlutverki þau gegna í kennslunni og hvernig þau henta ólíkum kennsluaðferðum. Aðgengileikinn, skýrleikinn, læsileikinn og áhugahvötin geta þá verið rannsóknarefni, einnig útlitið og verðið. Í höndum kennara getur næstum hvað sem er orðið að námsgögnum þó að hér sé einkum átt við efni sem sérstaklega er gert fyrir formlegt nám í skólum.
     
  2. Í öðru lagi er inntak námsgagnanna rannsakað. Kennslubækur og annað námsefni sem gefið er út til notkunar í skólum er vitnisburður um þekkingu, viðhorf og gildi sem uppi eru í samfélaginu á hverjum tíma. Í þessu samhengi hafa kennslubækur verið kallaðar „verkfæri þjóðminninga“ (Aleida Assmann o.fl.) enda hafa þær oft og víða gegnt því hlutverki að innprenta þær hugmyndir sem þjóðum er talið hollt að búa yfir. Hér ber þó að hafa þann fyrirvara á að námsgögn geta verið úrelt og úr takti við viðtekin sannindi en verið þó enn í umferð í skólum. Hitt getur einnig gerst að ákveðin námsgögn séu hrópandi í eyðimörk, nýjungarödd sem ekki nær meirihlutaeyrum og verða því ekki talin spegill almennra viðhorfa. Í öllu falli er þjóðfélagslegt hlutverk námsgagnanna hér í brennidepli.
     
  3. Í þriðja lagi er hægt að rannsaka ferli námsgagnanna, t.d. frá aðalnámskrá til þess náms sem fram fer hjá nemendum með viðkomu í höfundaverkinu, útgáfustarfseminni og vali kennara og skóla á námsgögnum sem í boði eru. Rannsóknarverkefnið í þessum flokki geta talist til námskrárfræða sem er viðamikið fræðasvið.

Rannsakendur geta kosið að hreinrækta þessa flokka eða tengja þá saman eftir því sem hentar eða mögulegt er hverju sinni. Flokkarnir ná heldur ekki yfir alla rannsóknarþætti sem fengist er við.

Notkun námsgagna

Rannsóknir á notkun námsgagna eru einna fyrirhafnarsamastar á sviði námsgagnarannsókna. Viðamesta rannsóknin sem fram hefur farið hér á landi á notkuninni birtist árið 1992 í doktorsritgerð Ingvars Sigurgeirssonar við Háskólann í Sussex, „The role, use and impact of curriculum materials in intermediate level Icelandic classrooms“. Ingvar fylgdist á skipulegan hátt með kennslu í fjölmörgum skólum og bekkjum, tók viðtöl, kannaði námsgögn o.fl. Þessi rannsókn Ingvars vakti alþjóðlega athygli og enn er vitnað til hennar. Ekkert viðlíka hefur verið gert hér á landi síðan en nokkrar athyglisverðar athuganir má nefna frá seinni árum þar sem notkunin er í brennidepli þó að ekki liggi ámóta vettvangskannanir til grundvallar.

Inntak námsgagna

Að vissu leyti er viðráðanlegra að rannsaka inntak námsgagn en notkun þeirra þar sem inntakið dvelur í áþreifanlegum stað sem ekki hleypur að jafnaði á brott – í kennslubók, á vefsíðu, í fræðslumynd. Þetta rannsóknarsvið er einnig fyrirferðarmikið í heiminum, með rannsóknarmiðstöð sem kennd er við Georg Eckert að þungamiðju. http://gei.de/  Á hennar vegum og í tengslum við hana hafa verið stundaðar rannsóknir á hlutverki og áhrifum kennslubóka og annars námsefnistexta á þjóðfélagsviðhorf um áratuga skeið. Á vegum stofnunarinnar og Berghan Books er gefið út tímaritið Journal of Educational Media, Memory, and Society sem opið er í landsaðgangi á Leitir.is. http://leitir.is/

Hér eru taldar nokkrar rannsóknargreinar eftir íslenska höfunda sem varða inntak námsgagna.

  • Kristín Loftsdóttir, Learning Differences? Nationalism, Identity and Africa in Icelandic School Textbooks, Internationale Schulbuchforschung 29:1, 2007.
     
  • Kristín Loftsdóttir, Hin mörgu andlit Íslands. Framandleiki og fjölmenning í námsbókum, Netla, 2007. http://netla.khi.is/greinar/2007/015/index.htm
  • Kristín Bjarnadóttir, The History of Public Education in Mathematics in Iceland and its Relations to Secondary Education, í Bharath Sriraman o.fl. (ritstj.), The First Sourcebook on Nordic Research in Mathematics Education, Charlotte, NC: Information Age Publishing. (2010).
     
  • Kristín Bjarnadóttir, Reikningsbók Eiríks Briem, Netla, 2010. http://netla.khi.is/greinar/2010/012/index.htm
  • Kristín Linda Jónsdóttir, Rannsókn á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu á miðstigi grunnskóla, Jafnréttisstofa, 2011. http://www.jafnrettiiskolum.is/D10/_Files/Ranns%C3%B3kn%20%C3%A1%20n%C3%A1msb%C3%B3kum.PDF
  • Þorsteinn Helgason, Er þjóðarsagan karlkyns? Netla, 2011. http://netla.hi.is/menntakvika2011/031.pdf
  • Þorsteinn Helgason, Tyrkjaránið í námsgögnunum (væntanleg).
     
  • Þorsteinn Helgason, History under Fire in Iceland, í Luigi Cajani/Simone Lässig/Maria Repoussi (ritstj.): History Education under Fire. Curricula and Textbooks in International Perspective, Georg-Eckert Institut (væntanleg).
     

Verkefni

Á árabilinu 2004-2010 var unnið að allstóru norrænu rannsóknarverkefni um námsgögn í sögu í grunn- og framhaldsskólum og var umsjón þess á Íslandi. Aðalþátttakendur hér voru Þorsteinn Helgason dósent við KHÍ/Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Guðlaugur Pálmi Magnússon sögukennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð og Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið var þrískipt:

  •  Átakaatburðir í sögu norrænna þjóða. Hér var athugað hvernig umfjöllun hefur breyst um valin átakaatburð í sögu fimm landa: Borgarastríðið í Finnlandi 1918, Skotin í Ådalen í Svíþjóð 1931, sambandsslit Noregs frá Svíþjóð 1905, byltingu og einveldistöku í Danmörku 1660 og Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Greinar sem urðu til í þessum rannsóknum hafa beðið útgáfu í Svíþjóð en sjá væntanlega dagsins ljós innan tíðar.
     
  •   „Við“ og „hin“ í kennslubókunum. Hér var rýnt í norrænt námsefni, gamalt og nýtt, til að sjá hvernig framandleiki var skilgreindur og skilinn, hvort sem um var að ræða Sama eða Afríkumenn, og greind kynþáttahyggja og staðalímyndir.
     
  • Viðhorf kennara til námsgagna í sögu. Gerð var netkönnun um þessi viðhorf og svöruðu henni 407 sögukennarar á öllum stigum grunn- og framhaldsskóla í fimm Norðurlanda í nóv. 2006 – apríl 2007. Með könnunina sem viðmið voru skrifaðar nokkrar greinar sem settu hana í samhengi við aðrar rannsóknir.
     

Tveir síðarnefndu hlutarnir í norrænu rannsókninni vöktu athygli Stofnunar Georgs Eckert sem tók þá undir sinn verndarvæng og birti á bók:

Margt er athyglisvert í þessari bók og vísast því til hennar. Hér skal aðeins tekinn síðasti liðurinn í spurningakönnuninni sem var af öðru tagi en aðrar spurningar en vekur almennan áhuga. Þar var hver kennari beðinn „að meta hversu mikið þú notar eftirtaldar tegundir námsgagna í kennslu þinni yfirleitt.“ Niðurstöðurnar eru í takti við það sem sést hefur annars staðar á Vesturlöndum þó að upptalningin á því sem talið er námsgögn sé óvenjuvíð.