Áskorun til stjórnvalda um hækkun fjárframlags til Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna

Mennta- og menningarmálaráðherra 
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Sölvhólsgötu 4
101 Reykjavík

Erindi: Beiðni um hækkun fjárframlags til Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna

 

Hagþenkir er annað af tveimur félögum höfunda á Íslandi, hitt er Rithöfundasamband Íslands. Innan Hagþenkis eru sjálfstætt starfandi fræðimenn sem leggja mikið af mörkum til samfélagsins með rannsóknum sínum og skrifum. Á hverju ári sækja margir þeirra um starfslaun í Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna líkt og til dæmis ritöfundar og listamenn sækja um í Launasjóð listamanna. Umsóknir í sjóðinn eru ávallt mun fleiri en Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna hefur tök á að afgreiða enda peningar takmarkaðir. Til dæmis bárust 76 umsóknir í sjóðinn 2019 en aðeins 30% umsókna voru styrktar. Í ár lítur út fyrir að þetta hlutfall verði enn lægra.
Stjórnvöld hafa ákveðið að auka fjármagn til rannsókna og þróunar til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Það er gert með því að efla Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð Vísinda- og tækniráðs. Einnig hafa þau ákveðið að efla listsköpun í landinu með sérstöku vorátaki 2020 og geta sjálfstætt starfandi hönnuðir, myndlistarmenn, rithöfundar, sviðslistafólk, tónlistarflytjendur og tónskáld sótt um laun í þann sjóð.
Hagþenkir vill með bréfi þessu vekja athygli á mikilvægi þess að framlag í Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna verði nú aukið með sama hætti og í aðra samkeppnissjóði fræða- og listamanna. 
 
Reykjavík, 18. maí 2020
Fyrir hönd stjórnar Hagþenkis,
 
 
dr. Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, formaður stjórnar

Samrit sent til forsætisráðuneytiis og fjármalaráðuneytiis