Sigrún Helgadóttur hlýtur viðurkenningu Hagþenkis 2008

""

Sigrún Helgadóttir hlýtur viðurkenningu Hagþenkis árið 2008 fyrir framúrskarandi rit, bókina Jökulsárgljúfur – Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli. Útgefandi er Bókaútgáfan Opna.  Tíu bækur voru tilnefndar til viðurkenningarinnar. Athöfin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni 23. mars. Formaður Hagþenkis, Jón Yngvi Jóhannsson veitti Sigrúnu viðurkenninguna og kr. 750.000. Í greinargerð viðurkenningarráðs segir um bókina:  Lykill að stórbrotnu svæði, þar sem afar vel er fléttað saman sögu, náttúrufræði og bókmenntum.

Viðurkenningarráð  er skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af ólíkum fræðasviðum og hafa þeir fundað reglulega síðan í lok október. Í Viðurkenningarráði eru: Sesselja. G. Magnúsdóttir formaður ráðsins, Baldur Hafstað, Ingólfur V. Gíslason, Jónína Vala Kristinsdóttir og Ólafur K. Nielsen. 

Hér fyrir neðan er að finna ávarp Sesselju G. Magnúsdóttur fyrir hönd viðurkenningarráðs. Ræðu Sigrúnar og að lokum stutt samantekt um ferli Sigrúnar:

 

 

 

Ávarp Sesselju G. Magnúsdóttur fyrir hönd viðurkenningarráðs.

 

Stjórn Hagþenkis núverandi og fyrrverandi, eldri viðurkenningarhafar, tilnefndir einstaklingar til viðurkenningar Hagþenkis 2008 og aðrir gestir.

 Hér er komið að leiðarlokum í leiðangri okkar félaga í viðurkenningarráði Hagþenkis í gegnum heima þeirra fræði- og kennslubóka og bóka almenns eðlis sem út komu árið 2008. Leiðangursfélagar mínir hafa verið þau: Dr. Baldur Hafstað prófessor í Íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Dr. Ingólfur V. Gíslason lektor í félagsfræðum við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, Jónína Vala Kristinsdóttir lektor í stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Dr. Ólafur Karl Nílssen vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, sjálf er ég dansfræðingur og starfa sem fræðimaður og kennari við Listdansskóla Íslands. Leiðangursstjórn var í höndum Friðbjargar Ingimarsdóttur framkvæmdastýru Hagþenkis.

     Leiðangurinn hófst í lok október á veitingahúsinu Maður Lifandi í Borgartúni. Þar færði foringi vor okkur fyrstu bækurnar frá forlögunum til að skyggnast í og það átti hún eftir að gera vikulega næstu tvo mánuðina. Einnig fínkembdum við hvert fyrir sig bókatíðindi til að tryggja að ekkert áhugavert færi fram hjá okkur. Eftir að nýliðar nefndarinnar höfðu verið kynntir fyrir markmiðum leiðangursins og faglegar ákvarðarnir teknar um vinnulag, skiptum við bókunum á milli okkar og héldum hvert sína leið. Framundan voru einstaklingsferðalög um undraveraldir þær sem höfundar höfðu skapað. Að mörgu var að hyggja á leið í gegnum hverja bók eins og faglegri nálgun, frumleika, frágangi, framsetningu, fræðilegu gildi og ekki síst viðmóti við þá ferðalanga sem ferðast myndu um orðanna heim. Eftir vikulega fundi fram í janúar, þar sem bornar voru saman bækur komum við okkur smám saman niður á hvaða 10 bækur yrðu tilnefndar til viðurkenningar Hagþenkis. Það var erfitt val því ýmsir staðir sem leiðangursmenn höfðu kannað snertu þá djúpt. Þeir tíu titlar sem fengu tilnefningu voru þeir sem höfðu hrifið flesta meðlimi nefndarinnar. Hvert á sinn hátt bjuggu þessi verk yfir ógleymanlegri fegurð og visku.

     Í gegnum tíðina hefur ritað mál verið algjörlega ráðandi sem viðurkennt form fræðilegrar miðlunar. Hugmyndir um hvað er fræðitexti hafa þó víkkað á síðustu árum meðal annars hafa myndir fengið aukið vægi sem texti í sjálfum sér en ekki eingöngu skreyting við hið ritaða orð. Í takt við þetta voru það fyrst og fremst fræðandi heimar bókaformsins sem við höfðum til skoðunar hjá viðurkenningarráðinu þó önnur framsetning fræðilegs efnis bærist einnig inn á borð til okkar. Aukin tækni gefur sífellt meiri möguleika í miðlun fræðilegs efnis og þá ekki síst á netinu. Þetta kallar að okkar mati á umræðu um fræðilegt gildi gagnvirks efnis innan fræða- og háskólaheimsins. Hvernig á að meta fræðilegt gildi netefnis? Hversu stór þáttur er hönnunin og tæknivinnan? Er hægt að skilja að efni- og tæknivinnu? Hvaða vinnu við þess konar efni ætti að verðlauna; texta, myndir, hönnun, tæknilega útfærslu, gagnvirkni efnisins og svo mætti lengi telja. Það er ósk okkar hjá viðurkenningarráðinu að þessi umræða verði tekin upp svo þessi flokkur fræðilegs efnis geti með góðu móti komið til greina til viðurkenningar Hagþenkis.    

     En svo við snúum okkur að viðurkenningu Hagþenkis hér í dag, lokaniðurstöðu leiðangurs okkar félaga. Á topp tíu listann höfðum við valið höfundana: Aðalstein Ingólfsson, Gyrðir Elíasson, Nökkva Elíasson og Sigurlaug Elíasson fyrir bókina Elías B. Halldórsson. Málverk/Svartlist Leitin að uppruna lífs. Líf á jörðu, líf í alheimi Átta-tíu, námsefnisflokkur í stærðfræði fyrir unglingastig Andi Reykjavíkur Frá Sýrlandi til Íslands. Arfur Tómasar postula Kristmund Bjarnason fyrir Amtmaðurinn á einbúasetrinu. Ævisaga Gríms Jónssonar Nýtt fólk. Þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901-1944 Jökulsárgljúfur – Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli. Friðlýst svæði á Íslandi Íslenskar kynjaskepnur og Vilhjálm Árnason fyrir Farsælt líf, réttlátt samfélag – kenningar í siðfræði. Tíu vönduð fræðirit en mjög ólík að eðli og innihaldi.

          Þegar við settumst niður í leit að loka niðurstöðu, finna rit sem fremst gæti talist meðal jafningja, beindust sjónir okkar fljótt að lítilli, fallega skreyttri bók sem minnti okkur á bjartar sumarnætur og fegurð íslenskrar náttúru. Það var samdóma niðurstaða hópsins að bók Sigrúnar Helgadóttur, Jökulsárgljúfur, Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli  skyldi hljóta viðurkenningu Hagþenkis árið 2008. 

     Bókin er lykill að stórkostlegu landsvæði sem á engan sinn líka í víðri veröld. Í henni hefur Sigrún safnað saman ótrúlega fjölbreyttum upplýsingum um svæðið, upplýsingum sem rekja má til ólíkra greina eins og bókmennta, jarðfræði, sögu og dýrafræði. Á fyrstu tæplega 100 síðum bókarinnar fjallar Sigrún um þjóðgarðinn almennt. Hún leiðir okkur inn á svæði gljúfranna sjálfra með lýsingum og fróðleik um,Vatnajökul, sem kalla mætti faðir gljúfranna og Jökulsá á Fjöllum sem kalla mætti móður þeirra. Þegar uppruni gljúfranna hefur verið kynntur er sagt frá þeim sjálfum, hvernig þau mynduðust, hver er sérstaða þeirra og hvernig gróðurfari, dýra- og mannlífinu á bökkum þeirra er og hefur verið háttað. Lesandi fær að skyggnast inn í heim sem hefur ekki aðeins útlit og áferð heldur er lífheimur út af fyrir sig. Þannig er sagt frá landnámi bæði manna og músa og sambýli þeirra við frumbyggja svæðisins refinn. Sagt er frá hvernig sambýli manna, dýra og náttúru hefur verið háttað í tengslum við nýtingu svæðisins til búskapar og skógarhöggs. Sérstaklega þankavekjandi er umfjöllun um virkjanahugmyndir tengdar því mikla vatnsfalli sem Jökulsáin er sem og hugmyndafræði friðunar svæðisins. Í því samhengi er skemmtilegt að lesa um hugmyndir Einars Benediktssonar um Dettifoss en hann annars vegar heillaðist svo af fossinum að hann orti um hann eitt af sínum fegurstu ljóðum og hins vegar sá í honum ógnþrungið afl sem nýta mætti til tæknivæðingar sem og fjárhagslegs ábata.

     Eftir lestur fyrrihlutans fyllist maður óþreyju að skoða svæðið betur og það er á ferð um svæðið sem seinni hlutinn nýtist best. Þar er búið að skipta þjóðgarðinum upp í nokkur svæði og sagt frá göngu- og reiðleiðum á hverju þeirra. Leiðarlýsingar eru skýrar og kort sem fylgir bókinni greinargott. Lýsingarnar eru ekki aðeins skýrar að því leyti að gott sé að komast frá einum stað til annars heldur er í bókinni frásagnir sóttar í mismunandi heimildir af svo mörgu sem á vegi manns verður sem gefur upplifun manns af svæðinu nýjar víddir. Lýsandi og fallegar ljósmyndir spila mikilvægan þátt í framsetningu bókarinnar og auðga hinn eiginlega texta. Langflestar þessara mynda eru einnig höfundarverk Sigrúnar. Brotið á bókinni er handhægt og gerir hana einkar aðlaðandi ferðafélaga á göngu eða reið um gljúfrin sem og þægilega til að taka með í svefnpokann að kvöldi. Það er ekki síst brot bókarinnar sem undirstrikar sérstöðu hennar. Textinn er líka einkar þjáll og höfðar bæði til ungra sem og aldraðra.  

     Að ferðast með bókina sér við hönd er eins og að vera leiddur um svæðið af heimamanni.  Eini munurinn er sá að bókin fer betur í bakpoka. Og hér er kannski komið að stærstu töfrum bókarinnar. Texti og frásagnarháttur ber þess merki að hún er skrifuð af manneskju sem gjörþekkir svæðið. Eingöngu heimamenn/hálfgildis heimamenn geta sagt frá öllum litlu lítt þekktu örnefnunum sem þekking á gerir mann heimakominn. Það er ekki fyrr en eftir langa viðkynningu á svæði sem menn öðlast næmni fyrir hversdagslegum töfrum náttúrunnar og þekkingu á sögum sem búa í hverjum hól og hverri laut. Lýsingar á staðháttum og því sem fyrir augum ber einkennast líka af væntumþykju sem smitar út frá sér.

     Sigrún Helgadóttir hefur með verki sínu: Jökulsargljúfur, Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli opnað stórkostlegt svæði fyrir öllum þeim sem yndi hafa af íslenskri náttúru og lagt fram mikilvægt hjálpargagn til að upplýst umræða um mikilvægi og verðmæti íslenskrar náttúru geti farið fram. Útlit bókarinnar og framsetning efnisins þjónar mjög vel markmiðum hennar og þörfum kaupanda því nálægðin við náttúruna samhliða fræðslu gefur annað og meira en lestur góðrar bókar heima í stofu eða í sumarbústaðnum

         Það er von okkar í viðurkenningarráði Hagþenkis að verðlaun þessi verði þér hvatning til að leiða ferðalanga um fleiri náttúruperlur Íslands.  

Til hamingju Sigrún Helgadóttir

 

Sesselja G. Magnúsdóttir

Formaður

viðurkenningarráðs Hagþenkis 2008

 

 

 

Sigrún Helgadóttir

Þakkir fluttar við afhendingu viðurkenningar Hagþenkis, 23. mars

 

Formaður Hagþenkis, gestir og vinir

Þegar ég settist niður til að hugsa hvað ég ætti að segja hér í dag, til að þakka fyrir mig, skildi ég eiginlega alveg útvaldar fegurðardrottningar sem bresta í grát og óskarsverðlaunahafa sem bulla frammi fyrir heiminum.

Ég var alsæl að bókin mín komst í 10 bóka úrval hjá viðurkenningarráði Hagþenkis. Þegar við hittumst til að fagna því ræddum við, nokkur í hópnum, stöðu fræðibóka, og höfunda þeirra, og vorum sammála um að okkur þætti hlutur þeirra rýr hvað varðar athygli og styrki. Um svipað leyti var tilkynnt hverjir hlytu laun úr Launasjóði rithöfunda. Í þeim hópi eru nánast eingöngu höfundar fagurbókmennta þrátt fyrir að í lögum sé kveðið á um að bæði íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita hafi rétt til greiðslu úr sjóðnum. Í kjölfar umræðu okkar ákvað ég að láta í mér heyra og skrifaði Launasjóði rithöfunda. Þetta var nokkuð ítarlegt bréf með alls kyns rökum og miklum tölum og prósentum. Ég ákvað svo að senda Hagþenki afrit af bréfinu, félaginu til fróðleiks. Ég hafði varla gert svo þegar Jón Yngvi, formaður Hagþenkis, hringdi í mig. Og fyrsta hugsun mín var að nú ætlaði hann að skamma mig fyrir framhleypnina, ég hefði gert einhverja vitleysu með þessu bréfi. En það voru þá ekki aldeilis skammir sem ég fékk heldur vildi formaðurinn segja mér að viðurkenningarráð hefði valið mína bók til verðlauna. Mér létti auðvitað stórlega, varð síðan ósegjanlega glöð og hagaði mér og talaði alveg örugglega ekki síður heimskulega en fegurðardrottningar og óskarsverðlaunahafar.

Fyrir næstum hálfri öld fékk ég líka viðurkenningu fyrir skrif mín, þá 11 ára gömul. Það var ritgerðarsamkeppni í skólanum og ég fékk 1. verðlaun. Ég á gullskrautritað spjald því til staðfestingar. Þar stendur: Sigrún Helgadóttir hlýtur 1. verðlaun fyrir ritgerð sína „Hundarnir í sveitinni“. Líka þá fékk ég verðlaun fyrir að skrifa um sveitina mína – rétt eins og nú. Það stendur ekki á þessu spjaldi, en ég man það þó vel, að viðurkenningunni fylgdu ákveðnar ávítur. Formaður dómnefndar lýsti því yfir að nefndin hefði ákveðið að verðlauna ritgerðina mína þrátt fyrir að hún væri morandi í stafsetningarvillum, ég, höfundur hennar, yrði að taka mig á í stafsetningu. Spjaldinu fylgdu 15 krónur og þær eru hér enn. Mér skilst að viðurkenningu Hagþenkis nú fylgi líka peningar. Ég get lofað ykkur því að þá peninga mun ég ávaxta betur en þessa og mun ekki sýna þá óhreyfða eftir hálfa öld – enda hafa engar skammir fylgt þessari viðurkenningu – bara hvatning og gleði.

Ég stend í þakkarskuld við mörg ykkar sem hér eruð í dag, og reyndar líka aðra sem ekki eru hér. Hér er karlinn minn hann Óli og stelpurnar mínar og gönguhóparnir mínir tveir, fólk sem hefur arkað með mér um Björgin, skorað á mig, hvatt mig áfram við skrifin. Öll sú aðstoð var ómetanleg.  

Fjárhagslegan stuðning fékk ég líka frá ýmsum og þakka sérstaklega Launasjóði fræðiritahöfunda, Hagþenki, umhverfisráðuneyti , Umhverfisstofnun og Alþingi.

            Þegar handritið var tilbúið og loksins virtist sjást fyrir endann á því urðu eigendaskipti á bókaforlaginu sem hafði ætlað að gefa það út og um tíma leit út fyrir að það endaði í skrifborðsskúffunni minni. Þá stofnuðu þau Sigurður Svavarsson og Guðrún Magnúsdóttir nýtt bókaforlag, Opnu, og vildu gefa gripinn út. Á þeirra vegum kom til verksins kona sem heitir því viðeigandi nafni Björg og er Vilhjálmsdóttir og vann myndir og setti bókina listilega vel. Án framlags þessa þríeykis væri bókin varla komin út og sannarlega ekki sú sem hún er. Bókinni fylgir líka myndarlegt kort sem Hans A. Hansen lagði mikla natni og nákvæmni í að gera sem best úr garði. Takk fyrir þetta allt.

Hvatning, áeggjan, framlög og styrkir skipta höfuðmáli til að verk sem þetta vinnist. Krafturinn sem kom því af stað, hélt mér að verki og dró mig áfram, þegar ég barðist við letina eða önnur verkefni toguðu í mig, á sér hins vegar djúpar rætur

Svæðið sem ég skrifaði um hefur verið samtvinnað lífi mínu allt frá því ég fór þangað fyrst til sumardvalar með mömmu minni eins og hálfs árs gömul. Síðan hefur það alið mig upp, agað mig, kennt mér, mótað líf mitt. Þar hef ég átt margar mínar eftirminnilegustu stundir. Ég, Reykjavíkurstelpan, þekkti miðbæ Reykjavíkur og – sveitina við Jökulsá, annað ekki, og ég hélt að allar sveitir á Íslandi væru líkar minni sveit.

Þegar ég fór að ferðast um landið, og til útlanda, opnuðust augu mín fyrir því að sveitin mín væri sérstök. Þar er einstök náttúrufegurð, hrikaleg og ljúf. Þar kallast andstæðurnar á, berar auðnir, gróska og blómskrúð, tærar lindir og beljandi, kolmórautt jökulvatnið, svört björg og grænir hvammar. Í viðbót við fegurðina má lesa úr landinu ákaflega merkilega jarðsögu, um atburði, einstaka á heimsvísu. Og saga fólksins sem þarna hefur búið er Íslandssagan í hnotskurn.

Ung varð ég landvörður í Gljúfrum og lærði þá, það sem reyndar var löngu þekkt í útlöndum, að virkasta tæki náttúruverndar væri fræðsla. Ef fólk þekkir svæði, skilur verðmæti þess og lærir að njóta, fer því að þykja vænt um svæðið og vill vernda það.

Þótt ég snéri mér að öðru slitnaði aldrei þráðurinn við Gljúfrin, eða Björgin eins og heimamenn kalla þau, þangað hef ég farið nánast á hverju sumri og leitað mér lífsbjargar, gengið, upplifað, notið, nærst. Ég var oft hvött til að skrifa um Jökulsárgljúfur en eyddi því jafnan, kannski óx mér það í augum, kannski vildi ég bara eiga gljúfrin út af fyrir mig.

Fyrstu árin sem ég var landvörður í Gljúfrum voru vinnubúðir frá Orkustofnun í nágrenni Dettifoss. Vinnuflokkur kannaði möguleika á að virkja þennan risafoss og aðra fossa árinnar. Ég skildi ekki hvernig nokkur gat unnið við slíkt í alvöru og trúði því ekki að áin yrði hamin og vegir, hús og mannvirki byggð í þennan helgidóm. Það var svo ekki helgi staðarins sem flæmdi virkjanamenn í burtu heldur jarðskjálftar og Kröflueldar og farið var að leita leiða til að veita Jökulsá á Fjöllum austur á land, þar mætti virkja vatn hennar til orkuframleiðslu. Ég var enn bláeyg, trúði því ekki að nokkur léti sér í raun detta slíkt í hug.

Ég kom fyrst að Hafrahvammagljúfrum við Kárahnjúka með Kára Kristjánssyni sumarið 1998. Haustið 2002 flaug ég að Kárahnjúkum. Lent var á náttúrlegum flugvelli sem síðar varð athafnasvæði og er nú kominn undir Hálslón. Þá var þarna fegurðin ein og friður, algróið land upp að jökli og við óðum í marglitu lynginu og skófluðum upp í okkur bústnum berjum. Datt virkilega einhverjum í hug að eyðileggja þessa dýrð? Næstu sumur á eftir gekk ég um Kringilsárrana og með norðausturjaðri Vatnajökuls, þar sem fljótin streyma frá honum, og reiðin ólgaði í mér. Mér fannst svo erfitt að lifa við það að svo mikið og fagurt og merkilegt land yrði eyðilagt um ókomna framtíð. 

En Björgin? Þau yrðu þó látin í friði, eða hvað?

 Mér brá verulega þegar ég áttaði mig á hve auðvelt væri að veita austustu kvíslum Jökulsár á Fjöllum, Kverká og Kreppu, yfir í Hálslón en um það voru til, og eru enn til, áætlanir hjá Landsvirkjun. Ef það gerðist þá minnkaði vatnsmagn Jökulsár verulega og hún yrði ekki svipur hjá sjón. Baráttan um Kárahnjúkasvæðið sýndi mér að það þýddi lítið að öskra sig hásan á Austurvelli, skrifa blaðagrein eftir blaðagrein, tala við ráðamenn, fylla Háskólabíó og alls kyns sali með fundum og ráðstefnum og rökræðum. Kárahnúkasvæðinu var fórnað af því að fólk þekkti það ekki, allt of fáum þótti vænt um það, fólki þykir ekki vænt um það sem það ekki þekkir. Svo að ég fann að ég yrði að kynna Jökulsárgljúfur fyrir sem flestum, leiða fólk um Gljúfrin, sýna, segja frá, reyna að gleðja, hrífa, vekja með fólki ánægju og elsku. Ég hóf skriftir.

Í upphafi setti ég mér ýmis markmið með þessari bók, hvernig hún þyrfti að vera til að ná til fólks. Það að ég stend hér í dag segir mér að kannski hafi ég náð einhverjum þeirra. Mikilvægasta markmiðið hefur þó ekki enn náðst enda langtímamarkmið. Það er að margir, mjög margir, fái áhuga á svæðinu norðan Vatnajökuls og skapanorn þess, Jökulsá á Fjöllum.  Að þjóðin læri að meta þetta land að verðleikum og vilji vernda það í alvöru en ekki bara með sýndarþjóðgarði – og að – björgunum verði bjargað. 

Bókin um gljúfrin er fyrsta bókin í bókaflokki sem Opna hyggst gefa út um friðlýst svæði á Íslandi. Ég hef verið beðin um að taka líka saman næstu bók, um Þingvelli. Það er sannarlega ögrandi verkefni. Þingvöllum kynntist ég í raun ekki fyrr en á fullorðinsárum þegar ég var þar landvörður eitt sumar. Þeim kynnum hefur verið viðhaldið. Kannski get ég líkt sambandi mínu við Jökulsárgljúfur við fjölskyldu sem ól mig upp. Þingvellir eru mér hins vegar sem góður og traustur vinur. Það er ómetanlegt að geta skotist þangað í heimsóknir, stuttar eða langar, nánast hvenær sem er og komið endurnærður af slíkum fundum, rétt eins og þegar góður vinur er heimsóttur.

Vinir mínir sem fagnið með mér. Ég verð líklega líka að vara ykkur við. Það er næsta víst að nú fari ég að reyna að draga ykkur með mér um úfið Þingvallahraun, um mjóa stíga yfir hyldjúpar gjár, upp á fjöll og um vatnsbakka og – þá ekki síður ganga á ykkur og spyrja og spyrja til að njóta góðs af þekkingu ykkar og sérsviðum.

            En enn ég er ekki byrjuðu á því verkefni. Nú er bara að gleðjast yfir því sem búið er. Ég þakka fyrir þessa góðu viðurkenningu frá Hagþenki, þakka þessa uppskeruhátíð, og þakka ykkur öllum fyrir að vera hér og samfagna.

 

 

Brot af ferli Sigrúnar

Sigrún er fædd og uppalin í Reykjavík en var hvert sumar í sveit í Öxarfirði á austurbakka Jökulsár á Fjöllum. Hún lauk kennara- og stúdentsprófi frá Kennaraskóla Íslands, 1971 og 72. Hún starfaði við kennslu á landsbyggðinni áður en hún hóf nám í líffræði við Háskóla Íslands sem hún lauk 1978. Hún var landvörður í Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum í fimm sumur frá 1974, með fyrstu landvörðum landsins. Hún dvaldi í Bandaríkjunum og Skotlandi á árunum 1978-1981 og lauk MS prófi frá Edinborgarháskóla í umhverfisfræðum með áherslu á þjóðgarða og önnur friðlýst svæði. Árið 1982 lauk hún framhaldsnámi frá Kennaraháskólanum og tíu árum síðar námi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands. Á þessum árum gifti Sigrún sig líka og eignaðist fjögur börn sem fædd eru á árunum 1970-1986.

Störf

Sigrún hóf störf hjá Náttúruverndarráði 1982 og vann fyrir náttúruverndaryfirvöld öðru hverju í nokkur ár. Hún var jafnframt stundakennari við Kennaraháskólann frá árinu 1988 í rúman áratug og leiðbeindi um umhverfismennt og útikennslu. Við Háskóla Íslands (ferðamálafræði) hélt hún fyrirlestra um náttúruvernd og friðlýst svæði í nokkur ár.

Árið 1989 tók Sigrún að sér fyrsta verkefnið fyrir Námsgagnastofnun, að þýða og staðfæra bandarískt námsefni í umhverfis- og náttúrufræði, Náttúruverkefni. Í framhaldi af því hélt hún fjölmörg námskeið í að kenna þessi sömu fræði. Frá aldamótum hefur hún verið í fjögurra kennara hópi Námsgagnastofnunar sem skrifað hefur námsefni í náttúru- og samfélagsfræði fyrir yngsta stig grunnskólans, Komdu og skoðaðu. Fimmtánda Komdu og skoðaðu bókin er nú að koma út og hefur Sigrún skrifað um helming bókanna.  

Á árunum 1998-2003 var Sigrún verkefnisstjóri í Selásskóla í Reykjavík við að setja skólanum umhverfisstefnu og auka þar útikennslu og umhverfismennt. Árin 2000-2008 vann hún hjá Landvernd við uppbyggingu verkefnisins Skólar á grænni grein. Þátttökuskólar setja sér umhverfisstefnu með það að markmiði að flagga svo kölluðum Grænfána en hann er alþjóðlegt umhverfismerki skóla.

Félagsmál

Sigrún hefur verið virk í félagsmálum og setið í alls kyns stjórnum og ráðum. Hún var t.d. einn af stofnendum Landvarðafélags Íslands og fyrsti formaður þess, fulltrúi stúdenta í Háskólaráði, í stjórn Landverndar, Hagþenkis, Foreldrafélags Selásskóla og Heimilisiðnaðarfélags Íslands en hún var formaður þess síðastnefnda árin 2003-2007. Hún var virk í Kvennaframboði og Kvennalista frá árinu 1981 og þar til yfir lauk. Hún lagði áherslu á að móta umhverfisstefnu Kvennalistans, sat í ýmsum ráðum og nefndum og var framkvæmdastjóri þingflokksins um tíma. Hún var varaþingmaður og sat sem slík á þingi í nokkrar vikur árin 1989 og 1991 og fór í hópi Kvennalistakvenna til að kynna stefnu hreyfingarinnar bæði til Sovétríkjanna 1989 og Kanada 1990. 

Líðandi stund

Vorið 2008 sló Sigrún öllu upp í kæruleysi, sagði upp stöðu sinni hjá Landvernd og ákvað að reyna að lifa á ritstörfum og öðrum skemmtilegheitum. Bók hennar; Jökulsárgljúfur, Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli kom út í júlí. Sú bók er fyrsta bók Bókaútgáfunnar Opnu í bókaflokknum Friðlýst svæði á Íslandi. Næsta bók í þeim flokki á að vera um Þingvelli og er Sigrún að hefja vinnu við hana. (Hún var landvörður á Þingvöllum sumarið 1992.) Sigrún er jafnframt ritstjóri bókar um íslenska faldbúninginn sem Heimilisiðnaðarfélag íslands hyggst gefa út. Þess á milli dundar hún sér við jurtalitun og litar útsaumsgarn í blómstursaum á faldbúningapils!