Án bókmenningar ekkert lýðræði. Þessi sannindi eru svo sjálfsögð að þau eru ósýnileg. Það væri líka hægt að segja: Lýðræði er spottið úr bókum. Hvernig hefði verið hægt að ná fram þeim samtakamætti sem lagði grunn að þingræðinu og kosningarétti kvenna án þekkingar á fortíðinni, eða að byggja upp hugmyndafræði út frá hugmyndum um jafnvirði allra manna nema sameiginlega og í gegnum tungumálið? Hvernig ætti að vera hægt að byggja upp lýðveldi, viðhalda því og umbreyta án þess að um það væri skrifað og lesið, upplýsingum miðlað til borgaranna?
Virkt lýðræði lifir í algjöru, gagnvirku og lífsnauðsynlegu samlífi við ríkulega og vandaða bókmenningu. Til þess að lýðræðisleg framþróun geti orðið þurfa rithöfundar úr öllum lögum samfélagsins og af öllu tagi að hafa viðunandi forsendur að lifa og starfa út frá. Það þarf að vera til staðar fjölbreytileg flóra útgefenda og annarra sem koma bókum á framfæri, með víðfeðmt áhugasvið og stefnumið. Það þarf breitt og þéttofið net sem getur miðlað bókum af fagmennsku, þekkingu og alúð ef bókmenningin á að ná til eins margra og frekast er unnt.
Byrjum samt á réttum enda. Fjárfestar Spotify eru þeirrar skoðunar að tónlistin gefi af sér of lítinn gróða. Of miklir peningar fari til rétthafanna. Virði hlutabréfanna getur ekki byggt á viðvarandi tapi með loforði um yfirtöku alls markaðarins einn góðan veðurdag. Þess vegna komu hlaðvörpin til sögunnar. Svo hljóðbækurnar. Muni Spotify – eftir að hafa keypt hljóðbókaheildsöluna Findaway og eftir samstarfið við Storytel sem er margfalt minna í sniðum – gleypa það síðastnefnda, erum við nauðbeygð til þess að kvitta undir greiningu sænska hagsögufræðingsins Rasmusar Fleischer: „Ef svokölluð „hljóðbók“ og „lesturinn“ á henni nær ekki að raka saman nægilegum auði, verður þetta hvort tveggja gleymt og grafið fyrr en varir og eitthvað annað komið í staðinn.
Áhættufjármagnið stjórnar bókmenningunni. Ekki aðeins tegundaheitum innan hennar eða hvaða nöfnum allar athafnir og verknaður henni tengd skuli nefnast, heldur framboði, innviðum, kynningu, dreifingu, og í æ ríkara mæli sjálfri bókaframleiðslunni – og þar með einnig eftirspurninni. Allir sem starfa á sviði bókmenningar og með ýmsum hætti leggja meira upp úr gæðum en magni hafa skotið sjálfa sig í fótinn.
Hvað gerðist? Jú, það byrjaði á því að fólk hélt að allt sem væri á netinu væri einhvern veginn ókeypis. Sannleikurinn er sá að það kostar nákvæmlega jafn mikið og í okkar venjulega ,,áþreifanlega” heimi. Nema hvað peningarnir rata í vasa einhvers annars.
Hálf tilvera okkar í dag er stafræn og sá helmingur er að mestu í einkaeign. Við sjálf og upplýsingarnar um okkur er það sem skapar allan auðinn í þessum ,,ókeypisheimi” – og einfeldningshátturinn og þyngdarleysistilfinningin í hinum stafræna heimi er augljóslega enn þá svo sterk hjá allra flestum okkar að nauðsynlegt er að grípa til jarðbundins myndmáls til að okkur renni í grun hvaða skapnað við í sameiningu erum á góðri leið með að búa til: Afþakkið allar kökurnar um leið og þið smellið á nýjasta dægurþrasið, annars rekur bókafarandsalinn stálhertan skó sinn milli stafs og hurðar og þið lendið í klukkutíma yfirheyrslu um efnahag ykkar, einkahagi og áhugamál. Þetta er ekkert grín, heldur munu áhrifin til lengri tíma litið verða hrein hörmung fyrir framgang lýðræðisins. Og fyrir bókmenntirnar.
Við sem lifum og störfum á Norðurlöndunum eigum nánast allt ógert í því að koma okkur út úr ráðleysinu, stefnuleysinu og einfeldninghættinum gagnvart hinum stafræna heimi. Til að skilja orsakir þess að handan við augljóst ríkidæmið, aðgengið, frelsið, lága verðið og möguleikana á takmarkalausu aðgengi, leynist vaxandi tilfinning fyrir einangrun og blóðmjólkun.
Hin sameiginlega vinna við að skilja orsök og afleiðingar verður að hefjast. Að skilja hvers vegna þetta breiða framboð af bókum nær til sífellt færri. Skilja hvers vegna unga fólkið les sífellt minna. Hvers vegna fjarar undan læsi. Hvers vegna sífellt færri bækur eru keyptar. Hvers vegna bókahillur verða sífellt sjaldséðari. Hvers vegna útlánum á bókasöfnum fer fækkandi. Hvers vegna bókasöfnum fækkar stöðugt. Hvers vegna hin faglega, innihaldsríka, vandaða, vekjandi og uppbyggilega miðlun bókmennta, með gagnrýni, menningarblaðamennsku, bókasafnsfræðingum, kennurum, leshópum og foreldrum verður sífellt sjaldséðari.
Og skilja hvers vegna tekjur norrænna höfunda og þýðenda hafa hrapað verulega í heildina. Hvers vegna upplagið snar minnkar. Hvers vegna greiðslan fyrir hljóðbók er aðeins brot af því sem greitt er fyrir prentaða bók. Og að lokum hvernig allt þetta er samofið viðgangi og þróun hins þingbundna lýðræðis.
Mestu ábyrgðina á þessu bera vitaskuld stjórnvöld á Norðurlöndum. Hlutabréfafyrirtækin hafa skuldbundið sig til að fylgja lögunum og skapa gróða fyrir eigendur hlutabréfanna. Það er skiljanlegt að tvenndirnar – Bonnier/BookBeat og Storytel/Norsteds o.s.frv. – sem í sameiningu eru á góðri leið með að leggja undir sig öll Norðurlöndin (ef Spotify kemur ekki upp á milli) skuli ásaka sambönd rithöfunda og þýðenda fyrir að vera afturhaldssöm, andsnúin tækni og framtíðarspillar. Af framansögðu ætti að vera augljóst að það er eins fjarri öllu sanni og hægt er að komast.
Við erum afar hrifin af öllum þeim tækifærum sem felast í hinum stafræna heimi fyrir tungumál, hljóð og mynd, á því leikur enginn vafi og ætti ekki að þurfa að nefna. Við erum einnig mjög hlynnt hlutdeild, aðgengi, fagmennsku og vönduðum vinnubrögðum í útgáfu, ríkulegum og fjölbreytilegum bókmenntum, bæði frumsömdum og þýddum. Við erum hrifnir af bókmenntalegu vistkerfi sem er uppfullt af höfundum, þýðendum, útgefendum, bóksölufólki, bókasafnsfræðingum, kennurum, foreldrum, börnum, gagnrýnendum og lesendum sem fara sínar eigin leiðir. Og okkur þykir vænt um og viljum vera þátttakendur í lýðræðislegri samfélagsbyggingu.
Stjórnvöld hafa verið alveg jafn grunlaus og aðrir samborgarar og þjóðfélagsþegnar. Komið hefur í ljós að samkeppnislög hafa verið alveg máttvana gagnvart alþjóðavæðingunni. Einkafyrirtækjum hefur verið leyft að taka yfir og soga til sín almenningsbókasöfnin.
Við erum 10 samtök rithöfunda- og þýðenda frá fimm Norrænum löndum með samanlagt um 12.500 meðlimi. Okkur finnst við ekki eiga annarra kosta völ en að koma sjónarmiðum okkar sameiginlega í fjölmiðla, hvert á sínu tungumáli, snúa okkur til almennings, bókafólks og stjórnmálamanna sem bera ábyrgðina.
Rithöfundasamband Danmerkur
Þýðendasamband Danmerkur
Rithöfundasamband Finnlands
Samband fræðirithöfunda í Finnlandi
Þýðendasamband Finnlands
Finnlands-sænska rithöfundasambandið
Rithöfundasamband Færeyja
Rithöfundasamband Íslands
Hagþenkir – Félag höfunda fræðirita og kennslugagna
Rithöfundasamband Svíþjóðar