Samningar við Námsgagnastofnun / Menntamálastofnun

Gamili samningurinn – og bráðabirgðasamkomulega  við Námsgagnastofnun
en nú standa fyrir samningaviðræður við Menntamálastofnun. 
Vinsamlegst hringdu í síma 5519599 ef spurningar vakna. 

 

Bráðabirgðasamkomulag
 

um viðmiðanir við gerð útgáfusamninga.

Gildir frá 18. nóv. 2002

 

Greiðsla fyrir hverja klukkustund er ákveðin kr. 4.435 
(Talan var uppfært 1. júli 2019)

Upphæð þessi tekur breytingum samkvæmt launavísitölu.

Grunnviðmiðanir um þóknun verða sem hér greinir: Í öllum tilvikum er um grunnviðmiðun að ræða sem kemur til hækkunar eða lækkunar eftir því sem verklýsing gefur tilefni til. Lækkun kemur þó aðeins til framkvæmda ef aðrir en höfundar vinna einhverja þeirra verkþátta sem taldir eru upp aftast í þessum kafla. Grunnviðmiðunin gildir að jafnaði bæði um útgáfu í prentuðu formi og rafrænu.

Við mat á verkum er miðað við eftirfarandi fjóra flokka:

1. Safnað efni, þýtt og staðfært svo og vinnublöð og vinnubækur sem byggjast á fremur einfaldri úrvinnslu og stuttum texta, vinna við myndefni takmarkast við val á fáum myndum og vinna við útlitshögun er í lágmarki. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum myndatextum eða atriðisorðaskrá í vinnublöðum og vinnubókum.

Greiðsluviðmiðun er 35 klst. fyrir örk af útgefnu efni.

Í þýddu efni er miðað við 1800 letureiningar á síðu. Ef nauðsynlegt reynist að semja nýtt efni umfram það sem teljast má eðlileg staðfæring, skal í hverju tilviki meta að hvaða marki það skuli greiða umfram þennan flokk.

2. Vinnubækur og kennarahefti þar sem lýst er í grófum dráttum markmiðum sem námsefninu er ætlað að þjóna og uppbyggingu þess. Ábendingar gefnar um notkun efnisins en ekki farið út í nákvæmar kennsluáætlanir og leiðbeiningar.

Greiðsluviðmiðun er 75 klst. fyrir örk af útgefnu efni.

3. Frumsamið námsefni og ítarlegar kennsluleiðbeiningar.

Fræðandi efni og smærri handbækur fyrir nemendur og kennara. Verkefna- og æfingabækur sem lagðar eru til grundvallar kennslu og gera sambærilegar kröfur til höfunda og algeng námsefnissamning.

Grunnviðmiðun er 85 klst. fyrir örk af útgefnu efni.

4. Frumsamið og flókið námsefni.

Efni sem krefst verulegrar undirbúningsvinnu og er yfirgripsmikið og flókið í samningu og ekki hægt að styðjast við hugmyndir að ráði. Í þennan flokk falla einnig viðamiklar handbækur fyrir kennara og nemendur sem gera sérstakar kröfur til höfunda.

Grunnviðmiðun er 110 klst. fyrir örk af útgefnu efni.

Við það skal miðað að texti sé að jafnaði 75% af efni bókar. Þó skal það myndefni jafngilt texta sem samið er með hliðsjón af hugmyndum höfundar og miðlar upplýsingum til jafns við texta. Fari brot bókar niður fyrir 17×24 cm er heimilt að meta áhrif þess á greiðslur fyrir verkið. Þessi atriði eiga þó ekki við um verkefna- og æfingabækur.

Sé eingöngu um textaritun að ræða (höfundur þarf ekki að huga að útliti eða uppsetningu efnisins) er heimilt að miða greiðslur við blaðsíðufjölda í handriti (m.v. 1800 letureiningar á síðu). Handrit getur eftir efni fallið í fleiri en einn flokk þegar það er metið til greiðslu. Við mat á endurskoðuðu efni skal hafa hliðsjón af framangreindri flokkun eftir því sem við á hverju sinni.

Auk þeirrar vinnu sem þýðing eða samning krefst eru eftirtaldir verkþættir innifaldir í greiðsluviðmiðun:

 1. Allt að fjórar klukkustundir miðað við hverja örk sem varið er til samráðs við ritstjóra, teiknara og aðra eftir því sem henta þykir.
 2. Úrvinnsla ábendinga og athugasemda frá ritstjóra og yfirlesurum.
 3. Lestur einnar prófarkar. Þó skal höfundur lesa eina próförk til viðbótar, óski útgefandi þess, hafi höfundur gert miklar breytingar á fyrstu próförk. Óski höfundur að lesa fleiri prófarkir, án þess að greiðsla komi fyrir, er honum það heimilt.
 4. Skoðun verksins í heild að loknu umbroti.
 5. Efnisyfirlit, atriðisorðaskrá og heimildaskrá.

Aðra vinnu við hvert verk skal skilgreina eins ljóst og unnt er í verklýsingu og greiða í samræmi við áætlaðan og unninn klukkustundafjölda.

Höfundi er skylt að leita samþykkis og staðfestingar hjá fulltrúa Námsgagnastofnunar fyrir greiðslukröfum umfram áætlun í verklýsingu.

Við mat á endurskoðuðu efni skal hafa hliðsjón af framangreindri flokkun eftir því sem við á hverju sinni.

Ófrávíkjanleg regla er að gerðar verði verklýsingar áður en hafist er handa við samningu námsefnis og gerð útgáfusamnings.

Breytingar á höfundasamningum

Útgefandi hefur forkaupsrétt að verkinu þegar samningur þessi fellur úr gildi. Skulu þá samningsaðilar gera með sér nýjan samning þar sem m.a. er kveðið á um þær breytingar sem æskilegt þykir að gera á verkinu svo og þóknun til höfunda. Verði samkomulag um að útgefandi kaupi útgáfurétt að verkinu óbreyttu til allt að 10 ára til viðbótar skal eigi greiða höfundi lægri þóknun en sem þá svarar til 75% þess er upphaflega var greitt sé efnið í álíka notkun og þrjú fyrstu árin. Upphæð sem svarar til 50% af upphaflegri greiðslu skal greiða ef efnið telst vera í notkun sem telst um helmingi minni en var þrjú fyrstu árin og 25% sé notkun um það bil fjórðungur þess sem var þrjú fyrstu árin. Helmingur upphæðarinnar greiðist við undirritun samnings og helmingur að fjórum árum liðnum.

Vinnuhópur

Samkomulag er um að setja á fót vinnuhóp sem endurskoðar samning Námsgagnastofnunar og Hagþenkis. Hvor aðili skal tilnefna 2 menn í hópinn.

Gildistími

Bráðabirgðasamkomulag þetta gildir til 1. mars 2003.

 

F. h. Hagþenkis:
Ragnheiður M. Guðmundsdóttir
F.h. Námsgagnastofnunar:
Ingibjörg Ásgeirsdóttir

 

Samningur um kjör námsefnishöfunda

milli Hagþenkis, félags höfunda fræðirita

og kennslugagna og Námsgagnastofnunar

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna og Námsgagnastofnun hafa komið sér saman um samning þann, er fylgir hér á eftir, um kjör námsefnishöfunda sem starfa fyrir stofnunina á grundvelli verkefnaráðningar.

Meginmarkmið þessa samnings eru:

 

 • Að festa betur í sessi samskipti höfunda og Námsgagnastofnunar og stuðla að skýrari verkaskiptingu, skipulegri vinnutilhögun og sem bestri samvinnu um hvert verk.
 • Að bæta kjör og starfsaðstöðu námsefnishöfunda.
 • Að stuðla að sem bestri þróun á sviði námsefnisgerðar og faglegum vinnubrögðum.
 • Að auka kröfur til námsefnishöfunda og Námsgagnastofnunar í því skyni að auka enn gæði námsefnis.

Samningur þessi byggist á samkomulagi um eftirfarandi þætti:

 1. Greiðslur til höfunda kennslugagna og fræðirita vegna tiltekinna verkefna.
 2. Grunnviðmiðanir.
 3. Verklýsingu og höfundasamning.
 4. Samstarfsnefnd Hagþenkis og Námsgagnastofnunar.
 5. Bókanir um afhendingu gagna, fastráðningu námsefnishöfunda, námskeið fyrir námsefnishöfunda, tilraunakennslu og mat á námsefni.
 6. Gildistíma og uppsagnarákvæði.

 

1. Samkomulag um greiðslur til höfunda kennslugagna og fræðirita

 

Greiðslur verði verktakagreiðslur. Kostnaður og launatengd gjöld eru innifalin.

Greitt verði fyrir hverja klst. kr. 3200.-  Uppfært  1. júlí 2014

Verk skal meta hverju sinni til klukkustunda samkvæmt höfundasamningi (sjá Viðauka 1) sem byggjast skal á (sjá Viðauka 2). Útgáfudagur verks skal færður sérstaklega inn á höfundasamning.

Greiðslur samkvæmt samningi hækka í samræmi við hækkun launa ríkisstarfsmanna sem taka laun samkvæmt launatöflu BHMR 505.

2. Samkomulag um grunnviðmiðun

Grunnviðmiðanir um þóknun á grundvelli samnings þessa eru sem hér greinir. Í öllum tilvikum er um grunnviðmiðun að ræða sem kemur til hækkunar eða lækkunar eftir því sem verklýsing gefur tilefni til. Lækkun kemur þó aðeins til framkvæmda ef aðrir en höfundur vinna einhverja þeirra verkþátta sem taldir eru upp aftast í þessum kafla. Við mat á verkum er miðað við eftirfarandi fjóra flokka:

1. Safnað efni og þýtt. Vinnublöð og vinnubækur sem byggjast á stuttum texta, vinna við myndefni takmarkast við val á fáum myndum og vinna við útlitshögun er í lágmarki. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum myndatextum eða atriðisorðaskrá í vinnublöðum og vinnubókum.

Grunnviðmiðun er 35 klst. fyrir örk af útgefnu efni. Í þýddu efni er miðað við 1800 letureiningar á síðu. Ef þýtt efni er að einhverju leyti staðfært skal í hverju tilviki meta að hvaða marki það skuli greiða umfram þennan flokk.

2. Vinnubækur. Kennarahefti þar sem lýst er í grófum dráttum markmiðum sem námsefninu er ætlað að þjóna og uppbyggingu þess. Ábendingar gefnar um notkun efnisins en ekki farið út í nákvæmar kennsluáætlanir og leiðbeiningar.

Greiðsluviðmiðun er 75 klst. fyrir örk af útgefnu efni.

3. Ítarlegar kennsluleiðbeiningar. Frumsamið námsefni sem ekki fellur í fjórða flokk. Fræðandi efni og smærri handbækur fyrir nemendur og kennara. Verkefna- og æfingabækur sem lagðar eru til grundvallar kennslu.

Grunnviðmiðun er 85 klst. fyrir örk af útgefnu efni.

4. Frumsamið námsefni sem krefst verulegrar undirbúningsvinnu og er yfirgripsmikið eða flókið í samningu. Í þennan flokk falla einnig viðamiklar handbækur fyrir kennara og nemendur.

Grunnviðmiðun er 110 klst. fyrir örk af útgefnu efni.

Við það skal miðað að texti sé að jafnaði 75% af efni bókar. Þó skal það myndefni jafngilt texta sem samið er með hliðsjón af hugmyndum höfundar og miðlar upplýsingum til jafns við texta. Fari brot bókar niður fyrir 17×24 cm er heimilt að meta áhrif þess á greiðslur fyrir verkið. Þessi atriði eiga þó ekki við um verkefna- og æfingabækur.

Sé eingöngu um textaritun að ræða (höfundur þarf ekki að huga að útliti eða uppsetningu efnisins) er heimilt að miða greiðslur við blaðsíðufjölda í handriti (m.v. 1800 letureiningar á síðu). Handrit getur eftir efni fallið í fleiri enn einn flokk þegar það er metið til greiðslu. Við mat á endurskoðuðu efni skal hafa hliðsjón af framangreindri flokkun eftir því sem við á hverju sinni.

Eftirtaldir verkþættir, auk hinnar eiginlegu samningar, eru innifaldir í greiðsluviðmiðun eftir því sem við á í hverju tilviki:

 1. Drög að útliti og högun.
 2. Tillögur að myndefni. Undirbúningsvinna með teiknara eða ljósmyndara. Gert er ráð fyrir allt að 8 klst. í fundahöld.
 3. Úrvinnsla ábendinga og athugasemda frá ritstjóra og yfirlesurum.
 4. Lestur einnar prófarkar.
 5. Efnisyfirlit.
 6. Atriðisorðaskrá.
 7. Heimildaskrá.

Aðra vinnu við hvert verk skal skilgreina eins ljóst og unnt er í verklýsingu.

Við mat á endurskoðuðu efni skal hafa hliðsjón af framangreindri flokkun eftir því sem við á hverju sinni.

3. Höfundasamningur og verklýsing

Aðilar hafa komið sér saman um meðfylgjandi höfundasamning og verklýsingu. Þessir samningar eru hluti af heildarsamningi þessum. Heimilt er að víkja frá einstökum atriðum ef nauðsyn ber til og samkomulag næst þar um.

Höfundasamningi (sjá Viðauka 1) fylgir verklýsing sem aðilar koma sér saman um varðandi hvert verk. Almennt er við það miðað að sérstakur höfundasamningur sé gerður um hvert einstakt verk.

Í höfundasamningi er skilgreining á vinnu höfundar við verkið, vinnuáætlun, ákvæði um skil handrita, yfirlit um helstu kvaðir er hvíla á báðum aðilum, ákvæði um greiðslur, ákvæði um hugsanlegar breytingar á vinnuáætlun og meðferð ágreiningsmála. Einnig er réttur útgefanda skilgreindur sem og forkaupsréttur hans og réttur til endurútgáfu, ákvæði um greiðslur fyrir afnot, endurskoðun verks, breytingar á verki, ákvæði um höfundarrétt og meðferð höfundarréttartákns, höfundareintök og rétt höfunda til að kaupa eigið efni.

Verklýsing (sjá Viðauka 2) fylgir verksamningi og er þar gerð nákvæm grein fyrir einstökum þáttum verksins, eðli þess og umfangi. Gerð er áætlun um vinnu við einstaka þætti verksins (t.d. um ritun texta, val eða gerð myndefnis, útlitshögun, frágang handrits, yfirlestur, prófarkalestur, tilraunakennslu og samráð við þá er tengjast hverju verki).

4. Hljóðbækur

Námsgagnastofnun hefur samkvæmt samningi þessum heimild til að gefa námsefni út í hljóðbókaformi. Fyrir slíka útgáfu greiðir stofnunin höfundi 9% af því sem greitt var fyrir prentaða útgáfu þess án tillits til eintakafjölda.

5. Birting úr áður útgefnum verkum

Námsgagnastofnun er heimilt að birta efni úr ritum sem áður hafa verið gefin út á hennar vegum. Skylt er stofnuninni að fá leyfi höfundar til að birta eftir hann efni og sýna honum af því eina próförk ef hann óskar þess. Höfundur skal jafnan fá eintak af bók þar sem birt er efni eftir hann. Um þóknun fyrir umrædd afnot skal samið hverju sinni (sjá þó 2. kafla höfundalaga).

6. Upplagstengdir samningar

Heimilt er höfundi og Námsgagnastofnun að gera upplagstengda samninga. Gilda þá ákvæði útgáfusamnings Rithöfundasambands Íslands og Félags íslenskra bókaútgefanda sem ekki brjóta að öðru leyti í bága við meginákvæði þessa samnings.

7. Samstarfsnefnd Hagþenkis og Námsgagnastofnunar

Samkomulag er um að skipa samstarfsnefnd Hagþenkis og Námsgagnastofnunar. Nefnd þessari er ætlað (1) að fjalla um ágreiningsmál sem upp kunna að koma milli höfunda og Námsgagnastofnunar og (2) að hafa eftirlit með framkvæmd þessa samnings. Nefnd þessa skal skipa fjórum mönnum, tveimur frá hvorum aðila.

Aðilum er ekki skylt að hlíta niðurstöðum nefndarinnar og gilda þá ákvæði verk- eða útgáfusamnings um meðferð mála.

Námsgagnastofnun og Hagþenkir skipta jafnt með sér kostnaði vegna þessarar nefndar.

8. Bókanir

8.1. Um afhendingu gagna
Námsgagnastofnun mun, áður en gerður er samningur við höfunda sem ekki eru aðilar að Hagþenki, afhenda þeim eftirfarandi gögn: (1) Samning Hagþenkis og Námsgagnastofnunar um kjör námsefnishöfunda. (2) Upplýsingar um Hagþenki sem félagið mun láta stofnuninni í té.

8.2. Um fastráðningu námsefnishöfunda
Námsgagnastofnun stefnir að því að ráða námsefnishöfunda tímabundið í fast starf þegar það þykir henta og mun leita leiða til að þeir haldi öllum réttindum sínum að því er varðar orlof og lífeyri.

8.3. Um námskeið fyrir námsefnishöfunda
Aðilar stefna að því að efna til námskeiða fyrir námsefnishöfunda og aðra þá sem áhuga hafa á námsefnisgerð. Í samningi sem Námsgagnastofnun og Kennaraháskóli Íslands hafa gert með sér eru ákvæði um samvinnu um viðbótar- og framhaldsnám í námsefnisgerð.

8.4. Tilraunakennsla og mat á námsefni
Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að stöðugt sé aflað upplýsinga um þá reynslu sem fæst af notkun námsefnis og um viðhorf kennara og nemenda til þess. Námsgagnastofnun stefnir að því, m.a. með rannsóknum og tilraunakennslu, að afla slíkra upplýsinga í auknum mæli og miðla þeim til höfunda, enda sé þeim skylt að taka tillit til þeirra við gerð og endurskoðun efnisins.

9. Gildistími og uppsagnarákvæði

Samningur þessi gildir til 1. júní 1996. Hafi samningnum ekki verið sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara, framlengist hann til árs í senn.

Reykjavík, 6. júní 1996

 

F.h. Hagþenkis
Hjalti Hugason

F.h. Námsgagnastofnunar
Ásgeir Guðmundsson

 

 

 

 

Viðauki 1

 

Höfundasamningur

 

Nafn ________________________________________

Kennitala _______________________

Heimilisfang _________________________________

hér eftir nefnd(ur) höfundur, og NÁMSGAGNASTOFNUN, hér eftir nefnd útgefandi, gera með sér svofelldan

HÖFUNDASAMNING

Höfundur tekur að sér að _________________________________________________________________

Samningurinn byggist á skriflegri verklýsingu sem aðilar hafa komið sér saman um og fylgir hér með. Þar er gerð nánari grein fyrir einstökum þáttum verksins, eðli og umfangi.

Samningurinn nær eingöngu til þeirra þátta verksins sem tilgreindir eru með ótvíræðum hætti í verklýsingu eða samningi. Verði samkomulag um það milli höfundar og útgefanda að höfundur annist frekari vinnu við verkið skal sú vinna greidd sérstaklega.

Lestur einnar prófarkar telst þó hluti af samningi þessum nema annað komi fram í verklýsingu. Í öllum tilvikum skal höfundi heimilt að lesa fleiri prófarkir fari hann fram á það. Að öðru leyti sér útgefandi um prófarkalestur.

Höfundur gerir skýra grein fyrir hugmyndum sínum um myndefni og uppsetningu efnis. Um þátt höfundar í öflun myndefnis, útlitshönnun og frágangi er kveðið nánar í verklýsingu. Útgefandi ákveður endanlega uppsetningu og útlit í samráði við höfund.

Verkið skal unnið í samráði við námsefnissvið Námsgagnastofnunar. Aðilar skulu kappkosta að atriði sem fram koma í Gátlista Námsgagnastofnunar og leiðbeiningum um frágang og eiga við um verkið verði ekki fyrir borð borin.

Höfundur gerir grein fyrir framvindu verksins sem hér segir: _____________________.

Þegar höfundur skilar verkinu hefur útgefandi 1 mánuð til að lesa yfir og meta handritið. Að þeim tíma liðnum fær höfundur 1 mánuð til að bregðast við athugasemdum yfirlesara og ljúka frágangi á verkinu. Endanleg skil af hálfu höfundar verði eigi síðar en _______.

Handriti skal skilað á tölvudisklingi eða tilbúnu til setningar. Ef útgefandi óskar að nýta tölvusetningu höfundar skulu aðilar koma sér saman um þóknun fyrir hana. Að öðru leyti skal handritið vera þannig að ekki falli aukakostnaður á útgefandann vegna þess að handritið sé ógreinilegt. Handritið skal afhent gegn kvittun eða í ábyrgðarbréfi.

Hafi handrit ekki verið afhent á umsömdum tíma hefur höfundur 14 daga frest til að gera grein fyrir ástæðum þess og fara fram á viðaukasamning um skil. Sé ekki staðið við þann samning eða hafi framangreindum fresti ekki verið sinnt hefur Námsgagnastofnun heimild til að krefjast tafabóta er nema 1% af heildargreiðslu fyrir verkið fyrir hverja viku sem dráttur verður á afhendingu umsamins verks. Hámark tafabóta getur numið 25% af heildargreiðslu fyrir verkið. Óski Námsgagnastofnun að rifta samningi eftir að mánuður er liðinn frá umsömdum skilum skal höfundur hafa eins mánaðar frest til að ljúka verkinu áður en til þess kemur.

Eftir að handrit hefur verið samþykkt til útgáfu getur höfundur ekki án samþykkis útgefanda gert málfarslegar né efnislegar breytingar á verkinu.

Vilji höfundurinn engu að síður gera slíkar breytingar skal hann leita um það samkomulags við útgefanda. Náist ekki samkomulag hefur útgefandinn ekki rétt á því að gefa verkið út í óbreyttu ástandi en getur hins vegar rift samningnum.

Frumhandritið er eign höfundarins og ber að skila höfundinum því, ef ekki er um annað samið, þegar þess er ekki lengur þörf við framleiðslu efnisins. Gert er ráð fyrir að afrit af handriti sé varðveitt hjá höfundinum.

Útgefanda er skylt að gefa verkið út innan 18 mánaða frá lokaskilum höfundar. Að öðrum kosti fellur útgáfuréttur aftur til höfundar. Aðilar geta þó samið um lengri tíma.

Heildargreiðsla fyrir verk það sem um ræðir í samningi þessum er umsamin

kr. ________________ eða sem svarar til _______ klukkustunda.

Sá hluti upphæðarinnar sem ógreiddur er hverju sinni skal breytast í samræmi við breytingar sem verða á launum starfsmanna í BHMR samkvæmt almennum kjarasamningum. Greiðslur skulu inntar af hendi í samræmi við framgang verksins. Lokagreiðsla fer fram við endanleg skil. Í þessu felst að höfundur selur útgefanda útgáfurétt á Íslandi á efni því sem getið er hér að ofan í 10 ár frá útgáfudegi verksins með þeim takmörkunum sem fram koma í samningnum. Eintakafjöldi á þessu tímabili ræðst af eftirspurn. Á samningstímanum er höfundi óheimilt að framselja öðrum aðila rétt til útgáfu verksins eða hluta þess nema með samþykki útgefanda.

Útgefandi hefur forkaupsrétt að verkinu þegar samningur þessi fellur úr gildi. Skulu þá samningsaðilar gera með sér nýjan samning þar sem m.a. er kveðið á um þær breytingar sem æskilegt þykir að gera á verkinu svo og þóknun til höfundar. Verði samkomulag um að útgefandi kaupi útgáfurétt að verkinu óbreyttu til allt að 10 ára til viðbótar skal eigi greiða höfundi lægri þóknun en sem þá svarar til 75% þess er kemur fyrir samningu og útgáfu verksins nú eða sem svarar til ________ klukkustunda samkvæmt þeim samningum sem þá verða í gildi. Helmingur upphæðarinnar greiðist við undirritun samnings og helmingur að fjórmu árum liðnum.

Heimilt er að jafna greiðslum fyrir 10 ára endurútgáfurétt á 6 ár þannig að 1/6 af heildarupphæðinni greiðist á hverju ári. Ef samið er til fimm ára eða skemur skal greiða hlutfall greiðslu fyrir 10 ára afnot og greiðist þá öll upphæðin við undirritun samnings. Einnig er heimilt að skipta upphæðinni þannig að helmingur greiðist við undirritun samnings og helmingur að tveimur árum liðnum.

Að liðnum þremur árum frá undirritun samnings um endurútgáfu, er útgefanda heimilt að segja upp samningum enda sé upplag verksins þrotið. Upplag telst þrotið þegar eftir eru á lager 200 eintök eða færri. Skal þetta tilkynnt höfundi skriflega. Ef um samning með 10 ára útgáfurétti er að ræða greiðir útgefandi höfundi upphæð sem svarar til 1/10 hluta af heildargreiðslu fyrir verkið. Við uppsögn samnings fellur útgáfurétturinn aftur til höfundar.

Náist ekki samkomulag um endurútgáfu eða endurskoðun verksins að samningstíma liðnum er útgefanda heimilt að nota verkið óbreytt í tvö ár eftir að samningstíma lýkur gegn þóknun til höfundar sem nemur 2/10 af því sem nú er greitt fyrir verkið.

Nú óskar útgefandi að verkið verði endurskoðað eða því breytt eftir að samningur þessi hefur tekið gildi. Er útgefanda þá skylt að leita til höfundar um breytingartillögur og útfærslu þeirra enda verði samkomulag um breytingar þessar og greiðslur.

Ef höfundur óskar eftir breytingum á verkinu á samningstímanum og um þær næst samkomulag skal útgefandi taka þær til greina við næstu endurprentun verksins. Um breytingar þessar og greiðslur skal gert sérstakt samkomulag.

Náist ekki slíkt samkomulag er útgefanda heimilt að nota verkið óbreytt í þrjú ár til viðbótar en þá falli útgáfurétturinn aftur til höfundar.

Nú forfallast höfundur þannig að hann getur ekki lokið verkinu á umsömdum tíma, endurskoðað verkið eða breytt því. Heimilt er þá að leita til þriðja aðila um að ljúka verkinu eða endurskoðun þess enda skal samþykki höfundar eða umboðsaðila hans koma til. Höfundur skal þá fá sinn lutaverksins að fullu greiddan og teljast þá báðir aðilar höfundar. Óheimilt er að breyta útliti eða gerð verks nema með samþykki höfundar.

Útgefanda er heimilt að gefa verkið út á hljómbandi og skal greiðsla fyrir þau fara eftir samningi Námsgagnastofnunar og Hagþenkis. Greiðsla fyrir afnot þessi fari fram við útkomu hljómbandsins. Höfundur skal vera með í ráðum um frágang efnisins. Lesi höfundur bókina sjálfur skal hann fá greitt fyrir það.

Hyggist útgefandi gefa verkið út án texta til sérkennslu, á myndbandi, í tölvuforriti eða með einhverjum öðrum hætti en um ræðir í þessum samningi skal gerður um það sérstakur samningur.

Hyggist útgefandi gefa út annað verk, verkefni, ítarefni, myndbönd, tölvuforrit eða önnur gögn sem grundvallast á eða eru í ótvíræðum tengslum við það verk sem um ræðir í þessum samningi skal hafa um það fullt samráð við höfund. Ekki er hægt að gefa út verk í neinum formlegum tengslum við verk sem um ræðir í þessum samningi nema með samþykki höfundar.

Á öllum eintökum verksins skal vera höfundarréttartákn það sem lýst er í grein III í Alþjóðasamningi um höfundarrétt, Genfarsáttmálanum, ásamt nafni höfundar eða rétthafa og ártali fyrstu útgáfu. Merkingunni skal komið þannig fyrir að hún gefi ljóst til kynna hver sé eigandi höfundarréttarins. Þegar þetta á ekki við skal tekið fram með skýrum hætti þar sem við á hver sé þáttur höfundar í verkinu.

Ef höfundur óskar getur hann fengið án sérstaks endurgjalds allt að 25 eintök af verkinu en 15 ef höfundar eru fleiri en einn. Af hverri nýrri útgáfu getur höfundur fengið 10 eintök án endurgjalds óski hann þess. Óski höfundur þar fyrir utan að kaupa eintök af verkinu greiðir hann verð án álagningar.

Heimilt er með samþykki aðila að gera breytingar á vinnuáætlun og umsömdu verki á samningstímabilinu. Skal þá gerður um það skriflegur viðaukasamningur.

Rísi ágreiningur út af samningi þessum geta aðilar vísað honum til Samstarfsnefndar Námsgagnastofnunar og Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna. Fallist aðilar ekki á niðurstöður nefndarinnar má reka málið fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur án frekari sáttaumleitana eftir ákvæði laga nr. 85/1936 um rekstur einkamála í héraði.

Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum og heldur hvor aðili sínu.

____________________

Staður, dagsetning

 

Höfundur Námsgagnastofnun

Vitundarvottar

 

Viðauki 2

 

VERKLÝSING

Þegar gerður er verksamningur skal gerð verklýsing. Í henni skal gerð grein fyrir eftirfarandi atriðum:

VERKEFNIÐ

Gerð skal grein fyrir heiti efnisins og þeirri námsgrein eða sviði sem það tengist. Fram skal koma hvaða aldurshópi það er einkum ætlað og hvort um einnota eða margnota efni er að ræða. Ef við á skal og gera grein fyrir því hvort það tengist öðru námsefni. Einnig skal rekja hugmyndir um hugsanleg fylgigögn, kennsluleiðbeiningar, myndbönd, forrit, skyggnur, ítarefni o.s.frv.

INNTAK – UPPBYGGING

Hér skal lýsa sem best hvernig gert er ráð fyrir að verkið verði í endanlegri mynd hvað snertir inntak, uppbyggingu, umfang og ytri gerð þannig að ljóst sé hvernig verkið er í heild sinni og allir mikilvægir verkþættir eru vaxnir.

Alla jafna er gert ráð fyrir að hlutverk höfundar sé að vinna verkið í heild samkvæmt ofanrituðu en ef um frávik er að ræða þarf að skilgreina þau. (Sjá nánar í greiðsluviðmiðun).

Áætlaður vinnustundafjöldi höfundar.

Við gerð verklýsingar skal skoðað hvaða áhrif eftirfarandi þættir hafa á umfang verksins, eðli og verktíma:

 1. Hvort um er að ræða grunnefni sem lagt er til grundvallar kennslu í tilteknum námsgreinum, á tilteknu skólastigi eða fyrir tiltekinn hóp nemenda.
 2. Hvort efnið gerir sérstakar kröfur um einföldun eða knappa framsetningu.
 3. Hvort efnið gerir sérstakar listrænar eða fræðilegar kröfur.
 4. Hvort um óvenju flókið verk er að ræða.

Leitast skal við að afmarka eins skilmerkilega og unnt er hvað þessir þættir leiða af sér mikla vinnu fyrir höfund umfram lágmarksviðmiðun.

MYNDEFNI

Hér þarf að gera grein fyrir áætluðu myndefni, fjölda teikninga og gerð þeirra, fjölda ljósmynda og hvort um er að ræða söfnun mynda eða sértökur.

Skilgreina þarf hlutverk höfundar sem nákvæmast varðandi val og öflun myndefnis svo og hugsanlegt samstarf við teiknara og ljósmyndara. (Sjá nánar í greiðsluviðmiðun). Áætlaður vinnustundafjöldi höfundar: _____ stundir.

HÖGUN-ÚTLIT

Hér skal gera sem besta grein fyrir hugmyndum um uppsetningu og útlit væntanlegrar bókar eða verkefnis.

Þetta felur í sér áætlanir um brot og blaðsíðufjölda svo og hvort um er að ræða litprentun. Í framhaldi af þessu er hlutverk höfundar skilgreint. (Sjá nánar í greiðsluviðmiðun). Áætlaður vinnustundafjöldi höfundar er _____ stundir.

YFIRLESTUR- PRÓFANIR

Hér sé gerð grein fyrir hugmyndum um yfirlestur efnisins á ýmsum stigum, nauðsynlegri sérfræðiaðstoð, tilraunakennslu o.s.frv. Í verksamningi er gert ráð fyrir að höfundur lesi eina próförk. Ef um er að ræða meiri vinnu skal það skilgreint hér. (Sjá nánar í greiðsluviðmiðun). Áætlaður vinnustundafjöldi höfundar _____ stundir.

SÉRSTÖK ATRIÐI

Undir þessum lið verði gerð grein fyrir hlutverki höfundar í eftirfarandi þáttum verksins: Efnisyfirliti Formála Atriðisorðaskrá Heimildaskrá Orðskýring um Myndatexta. Áætlaður vinnustundafjöldi höfundar er _____ stundir.

ANNAÐ

Ef einhver atriði eru sem ekki hafa komið fram í þessari verklýsingu en ástæða þykir að nefna skulu þau tilgreind hér ásamt hlutverki höfundar.

Áætlaður vinnustundafjöldi höfundar _____ stundir.

TÍMASETNINGAR

Áætlun um vinnslutíma verksins:

 • Skil handrits – dags.
 • Yfirlestri lokið dags.
 • Myndefni tilbúið dags.
 • Tilraunakennslu lokið dags.
 • Endanlegur útkomutími dags:

Dagsetning verklýsingar _______________________

Höfundur Námsgagnastofnun

 

Höfundasamningur gerður (dags.) _______________________