Viðurkenningarráð fyrir útgáfuaríð 2021: Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Halldóra Kristinsdóttir, Sússana Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir og hún flutti rökstuðning Viðurkenningarráðsins:
Ágætu gestir,
Undanfarin hundrað ár eða svo hefur hugtakið fornsögur fyrst og fremst vakið í huga Íslendinga þanka um Íslendingasögur, um Sturlungu og um verk Snorra Sturlusonar. En færum við 250 ár aftur í tímann og nefndum fornsögur við þálifandi Íslendinga, er líklegt að það fólk vildi helst ræða um Friðþjóf hinn frækna, Hrólf kraka eða Hrafnistumenn, en síður um til dæmis Guðrúnu, Kjartan og Bolla. Þær sögur sem nú ganga undir samheitinu Fornaldarsögur Norðurlanda (og segja m.a. af þessum hetjum sem ég nefndi) voru óheyrilega vinsælar hér á landi öldum saman og fundu sér ekki einungis farveg í lausamálsfrásögnum heldur einnig í fjölda rímnaflokka. Vaxandi þjóðerniskennd og stýrandi smekkur menntamanna olli því að þessar skemmtibókmenntir urðu eins konar olnbogabörn þegar kom fram á 20. öld, já meira eins og curiosum heldur en fullgildar bókmenntir. En á síðustu 30 árum eða svo hefur orðið gleðilegur viðsnúningur á þessu. Fornaldarsögurnar eru rannsakaðar og ræddar frá sífellt nýjum sjónarhornum og nú hillir meira að segja undir að þær verði aðgengilegar í nýjum útgáfum.
Verkið sem í dag hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis sprettur úr þessari spennandi deiglu. Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur sinnt rannsóknum á fornaldarsögum og skyldu efni í um aldarfjórðung og hefur öðlast ómetanlega yfirsýn um sögurnar og fyrri rannsóknir á þeim. Í ritinu Arfur aldanna setur hún sér það metnaðarfulla markmið að fjalla á heildstæðan hátt um uppruna fornaldasagna, efnivið, útbreiðslu og bókmenntaleg einkenni. Þetta er ekkert smáræði, því sögurnar draga langan slóða. Rætur þeirra liggja í sameiginlegum germönskum sagnaarfi sem rekja má aftur á þjóðflutningatímann í Evrópu og landfræðilega verður að ferðast bæði suður í álfu og langt í austurveg til þess að ná utan um dreifingu og þróun sagnaminna sem að endingu öðluðust framhaldslíf í íslenskum frásögnum. Bækurnar tvær sem verðlaunaðar eru í dag, Handan Hindarfjalls og Norðvegur, fjalla einmitt um baksvið fornaldarsagnanna á meginlandi Evrópu annars vegar og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hins vegar. Í þeim opnar Aðalheiður lesendum sýn á fjölbreytt og heillandi samanburðarefni, allt frá króníkum á latínu og germönskum hetjukvæðum til útskurðar, vefnaðar og myndsteina. Hún dregur á ljósan hátt saman rannsóknir fyrri fræðimanna (ritaðar á ýmsum tungumálum) um leið og hún segir frá nýjum aðferðum til þess að nálgast þennan arf, til dæmis þeim sem taka mið af kenningum um minni eða um lifandi flutning og áhrif áheyrenda á sköpun söguefnis.
Þessi tvö bindi eru einungis fyrri hluti verksins Arfur aldanna. Í þeim tveimur bindum sem óútkomin eru ætlar Aðalheiður að færa sig til Íslands og fjalla um endursköpun þessa forna sagnaefnis á Íslandi, um heimsmynd sagnanna og bókmenntaleg einkenni. Hvatning er mikilvægur þáttur í Viðurkenningu Hagþenkis og skjalið sem Aðalheiður veitir viðtöku hér á eftir táknar því bæði verðlaun fyrir afbragðsgóðar bækur tvær og brýningu um að láta ekki deigan síga. Það er ómetanlegt fyrir íslenskt samfélag að öflugir fræðimenn eins og Aðalheiður skuli ekki einskorða sig við þá miðlunarleið rannsóknanna sem algengust er orðin og ábatasömust: þar á ég við fræðigreinar í erlendum bókum og tímaritum þar sem ensk tunga er orðin nánast einráð. Með ritinu Arfur aldanna færir hún áhugasömum lesendum hérlendis einstakt yfirlit um fornaldarsögur og leggur grunn að frekari fræðilegri umræðu á íslensku um þennan litríka sagnaflokk.
Ég get ekki skilist við bækurnar hennar Aðalheiðar án þess að nefna útlit og frágang, því þar á höfundurinn ríkan hlut að máli. Hún sagði fyrir um umbrot og valdi myndir — já og tók meira að segja margar þeirra sjálf. Frágangur bókarinnar eykur ánægjuna af því að lesa hana og ber, ásamt vandaðri heimildaskrá og nafnaskrá, vott um þann metnað sem að baki öllu verkinu býr. Fyrir hönd Viðurkenningarráðs Hagþenkis vil ég óska Aðalheiði hjartanlega til hamingju með vel unnið verk.