Rökstuðningur viðurkenningarráðsins

""Viðurkenningarráð Hagþenkis, Lára Magnúsardóttir, Þórólfur Þórlindsson, Snorri Baldursson, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Kolbrún S. Hjaltadóttir.

Rökstuðningur viðurkenningarráðsins fyir útgáfuárið 2019, fluttur af Láru Magnúsardóttur. 

Ágætu gestir, ég heiti Lára Magnúsardóttir.

Mér er það í senn heiður og ánægja að standa hér fyrir hönd viðurkenningarráðs Hagþenkis, nú þegar félagið veitir viðurkenningu sína í 33 sinn. Í ráðinu, sem starfaði með aðstoð Frið­bjargar Ingimarsdóttur fram­kvæmda­­stjóra, sátu auk mín Snorri Baldursson, Kol­brún Hjaltadóttir, Þórólfur Þór­linds­­son og Ásta Kristín Benediktsdóttir.
 
Viðurkenning Hagþenkis er veitt fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“ og í þetta sinn fyrir verk sem komu út árið 2019. Ófáar bækur hafa runnið í gegnum okk­ar hendur síðan í haust. Þótt smám saman hafi grynnkað í pottinum eins og til var ætlast má vel koma fram að flestar þótti okkur þær ágætar og margar hreint frábærar. Úrslitin voru ráðgáta fram á síðustu stundu.
 
Í febrúarbyrjun voru kynnt tíu rit sem hlutu tilnefningu til Viðurkenningar Hagþenkis:

 

 
Hið ljúfa læsi. Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema eftir Rósu Eggertsdóttur
Kjarval – Málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur
Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur
Ný menning í öldrunarþjónustu eftir  Sigrúnu Huld Þorgrímsdóttur
Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi I–II eftir Björk Ingimundardóttur
Tíminn sefur. Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi eftir Árna Einarsson
Tónlist liðinna alda. Íslensk handrit 1100–1800 eftir Árna Heimi Ingólfsson
Um Alþingi. Hver kennir kennaranum? eftir Hauk Arnþórsson
Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnasonog að lokum
Öræfahjörðin. Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur Viðurkenningu Hagþenkis að þessu sinni hlýtur Björk Ingimundardóttir fyrir Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi sem Þjóðskjalasafn gefur út.
 
Um er að ræða frumkvöðlastarf og grundvallarrit í tveimur bindum þar sem  lýst er landfræðilegri afmörkun prestakalla, sókna og prófastsdæma um aldir og fram til þessa dags, eins og segir í formála þjóðskjalavarðar.
 
Ég hygg að það sé tilviljun að verkið kemur út á þeim tímamótum sem urðu um síðustu áramót þegar sú skipan var afnumin að prestar væru opinberir emb­ætt­is­menn hérlendis. Svo hafði þá verið í 745 ár, eða frá árinu 1275. Í því ljósi virðist með ólíkindum að fram að þessu hafi ekki verið til á einum stað sam­an­tekin gögn um grunneiningar starfs kirkjunnar sem opinberrar stofnunar. Á þessu hefur nú verið ráðin veruleg bót.
 
Kirkjan var frá fornu fari skipulögð stofnun sem deildi verkefnum sínum niður í landfræðilega skilgreind um­dæmi og í aldaraðir voru þessi verkefni bæði fleiri og víð­tækari en skyldur verald­arvaldsins. Prestarnir starfa um allt land og þeir voru einu embættis­mennirnir sem í starfi sínu höfðu samskipti við almenning í dagsins önn, hvort sem það voru börn, konur eða karlar, ríkir eða fátækir. Lengi voru klerkleg embætti einnig hin einu sem kröfðust sérstakrar mennt­­unar og þess vegna urðu þar líka til auðugar heimildir.
 
Í skjölum um starf presta liggja fjársjóðir með upplýsingum um líf þjóð­ar­innar og stjórnmálasögu landsins, sem eru þó vannýttir, ekki síst vegna þess að skort hefur skilning á kerfislegu samhengi heimildanna.
 
Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi er lykill að heimildum og upp­lýs­ing­um, ekki ósvipað og orðabók er lykill að tungumáli. Lykilinn opnar margar dyr og þess vegna er ekki hægt að spá fyrir um notkun verksins, en afraksturinn er strax farinn að sjást á kortunum tveimur sem fylgja bókunum og sýna prestaköll á Íslandi árin 1801 og 1920.  Þar er er í fyrsta sinn hægt að sjá stjórnsýsluskipan kirkjunn­ar á auga­bragði og bera saman tímabil, í stað þess að þurfa að leggja á sig jafn­mikla und­­irbúningsvinnu og Björk hefur gert. Búið er að tengja skrárnar inn á landfræðileg kort á vef Þjóðskjalasafns og hafin er vinna við að setja efnið inn á vefinn heimildir.is. Þar er von á meiru, meðal annars á skrá Bjarkar yfir 1400 hug­tök sem opnuð verður á vordögum. Hver veit nema kirkjusaga verði eftirleiðis á allra vörum!
 
Ég óska Björk Ingimundardóttur hjartanlega til hamingju með verkið og verð­laun­in.