Ríkisútvarp, sviðslistir, vísindarannsóknir og menningarstefna

 

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mælti miðvikudaginn 10. október, fyrir þremur frumvörpum til laga og einni tillögu til þingsályktunar. Um er að ræða eftirfarandi frumvörp:

 

 
  • Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu (heildarlög) 194. mál, lagafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra. Frumvarpið er afrakstur  endurskoðunar á gildandi lögum um Ríkisútvarpið nr. 6/2007 í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra laga og til að bregðast  við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA. Frumvarpið er m.a. byggt á vinnu nefndar sem gerði tillögur um úrbætur á fjárhags- og lagaumhverfi Ríkisútvarpsins ohf.  Að auki eru tilefni lagabreytinganna athugasemdir frá ríkisstyrkjadeild Eftirlitsstofnunar EFTA . Frumvarpið er samið af nefnd ráðherra um endurskoðun laga nr. 6/2007 í samráði við helstu hagsmunaaðila.
  • Sviðslistalög (heildarlög) 199. mál, lagafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra. Markmið frumvarpsins er að efla íslenskar sviðslistir, kveða á um skipan og fyrirkomulag og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, óperuflutning, listdans og skylda liststarfsemi, sem heyrir ekki undir lög um aðrar listgreinar. Frumvarpið felur í sér endurskoðun á leiklistarlögum nr. 138/1998. Lagt er til að endurskoðuð lög nái til allra sviðslista og heiti því sviðslistalög. Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila.
  • Opinber stuðningur við vísindarannsóknir (sameining og skipulag sjóða, markáætlun o.fl.) 198. mál, frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra til laga um breytingu á lögum nr. 3/2003. Meðal breytinga sem felast í frumvarpinu er að stefnt er að sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs og að Innviðasjóður taki við hlutverki Tækjasjóðs og hlutverk hans útvíkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, s.s. gagnagrunna. Þá er lagt til að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt sérstök lagastoð. Frumvarpið hefur skírskotun til samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar en þar sem m.a. segir að tryggja eigi áfram öflugt rannsóknarstarf á Íslandi. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við helstu hagsmunaaðila, s.s. vísinda- og tækninefnd og háskóla. Frumvarpið hefur verið birt opinberlega til almennra athugasemda.

Þá mun mennta- og menningarmálaráðherra mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um menningarstefnu, 196. mál. Með þingsályktunartillögunni er lögð fram heildstæð menningarstefna, sem myndar ramma um framtíðarsýn og áherslur ríkisins í menningarmálum. Menningarstefnan byggir m.a. á niðurstöðum menningarþingsins „Menningarlandið 2010 – mótun menningarstefnu“ og á skýrslunni: Sköpun, aðgengi og heildarsýn. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir um þetta málefni m.a.: „Mótuð verði menningarstefna til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa að menningarmálum“.