Reykjavík útnefnd Bókmenntaborg UNESCO

 

 Reykjavíkurborg hefur verið útnefnd ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Tilkynning þess efnis barst borgarstjóra og Menningar- og ferðamálasviði borgarinnar þann 4. ágúst 2011. Í útnefningunni segir meðal annars að Reykjavík státi af framúrskarandi bókmenntahefð í formi ómetanlegra miðaldabókmennta sem varðveittar eru í borginni og eru Íslendingasögurnar, Eddukvæði og Íslendingabók nefnd sérstaklega. Þá segir að þessi rótgróna hefð sýni sig í varðveislu, miðlun, bókmenntakennslu og kynningu bókmennta í dag.  Einnig er tekið til þess að svo fámenn borg sinni bókmenntum af svo miklum krafti sem raun ber vitni, með þátttöku og samvinnu ólíkra aðila sem koma að bókmenningu og miðlun bókmennta, svo sem útgefenda, bókasafna og rithöfunda.

Á vefnum bokmenntir.is segir: „Ég fagna því innilega að Reykjavík skuli hafa verið valin bókmenntaborg UNESCO. Þetta er mikill heiður fyrir Reykjavík. Íslendingar eru þekktir fyrir listir og menningu út um allan heim og þetta er staðfesting á því hvað menning okkar er verðmæt. Af öllum okkar auðæfum er menningin dýrmætust,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri.

Sem Bókmenntaborg UNESCO mun Reykjavíkurborg, ásamt samstarfsaðilum sínum, renna enn frekari stoðum undir bókmenninguna í borginni, meðal annars með því að koma á fót miðstöð orðlistar í Reykjavík og lifandi vettvangi fyrir bókmenntaviðburði og dagskrár af öllum toga auk þess sem lestrarhvetjandi verkefni og samstarf við skóla mun skipa veglegan sess. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja ímynd Reykjavíkur sem bókmenntaborgar bæði innan lands og utan, bókmenntaslóðir verða til að mynda merktar á íslensku og ensku, haldið verður áfram að bjóða upp á bókmenntagöngur á íslensku og ensku og þær verða einnig gerðar aðgengilegar á rafrænu formi. Reykjavíkurborg leggur áherslu á góða samvinnu við alla þá mörgu aðila sem koma að bókmenningu í borginni, því Bókmenntaborgin Reykjavík er fyrst og fremst sameign þeirra allra svo og íbúa borgarinnar. Einnig horfir hún björtum augum til öflugs samstarfs við aðrar Skapandi borgir UNESCO.
 
Ali Bowden, framkvæmdastjóri Bókmenntaborgarinnar Edinborgar segir: „Við erum himinlifandi yfir því að Reykjavík hafi sé komin í hóp Bókmenntaborga UNESCO. Útnefningin mun eiga þátt í að vekja athygli á bókmenntum og bókmenntalífi borgarinnar út um allan heim. Hún mun stuðla að menningarlegum vexti borgarinnar líkt og gerst hefur í Edinborg og Reykjavík verður mikilvægur samstarfaðili í okkar alþjóðlega samstarfsneti.“

Reykjavík er fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan merka titil, en fyrir í samtökum Bókmenntaborga UNESCO eru Edinborg í Skotlandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Melbourne í Ástralíu og Dublin á Írlandi.  Reykjavík er því fyrsta borgin utan enska tungumálasvæðisins til að hljóta titilinn, sem er varanlegur að því tilskyldu að borgirnar standi undir skuldbindingum sínum.  Bókmenntaborginni Reykjavík verður formlega hleypt af stokkunum á Alþjóðlegu bókmenntahátíðinni í Reykjavík í september næstkomandi og einnig mun hún verða kynnt alþjóðlega með fjölbreyttum hætti á Bókasýningunni í Frankfurt í október í samvinnu við verkefnið Sögueyjan Ísland.

Bókmenntaborgirnar tilheyra svo stærra neti Skapandi borga UNESCO (Creative Cities Network) sem samanstendur af borgum sem leggja áherslu á tónlist, handverk og alþýðulist, kvikmyndir, hönnun, margmiðlunarlist og matargerðarlist, auk bókmenntanna.

Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar hafði veg og vanda að umsóknarferlinu í nánu samstarfi við Bókmenntasjóð Íslands, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Rithöfundasamband Íslands, Borgarbókasafn Reykjavíkur og Menntasvið Reykjavíkurborgar.

Umsókina er á íslensku og ensku á vefnum: http://www.bokmenntir.is

Verkefnisstjórar eru Kristín Viðarsdóttir og Auður Rán Þorgeirsdóttir.
Hafðu samband: bokmenntaborgin@reykjavik.is