Höfundaréttur

Um höfundarétt og greiðslur fyrir netbirtingu

Kjarni höfundaréttarins felst í einkarétti höfunda til að heimila hvers konar afnot verka sinna. Eignarréttur höfundar á verki felur í sér þá grundvallarreglu að það verður að semja við hann um birtingu á hverju því verki sem réttur hans tekur til svo og eintakagerð. Um þetta segir í 3. gr. höfundalaga: „Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum.“ Þennan einkarétt nota rithöfundar til að gera útgáfusamning við þá sem hafa hug á að gefa verk þeirra út og birtingarsamning við þá sem hafa áhuga á að birta það.

Sé efni í rafrænu formi gert aðgengilegt fyrir hvern sem er á Internetinu er eðlilegt að líta á það sem opinbera birtingu. Opinber birting er skilgreind þannig í 2. gr. höfundalaga: „Verk telst birt, þegar það er með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega eða eintök af því hafa verið gefin út … .“ Birting í gagnabanka eða á vefsíðum á efni, sem höfundalög taka til, gefur hverjum sem hafa vill kost á að gera eintök eftir efninu sé aðgangur öllum opinn. Um slíka birtingu þarf því að gera samning við þá sem eiga höfundarétt á því efni sem ætlunin er að birta.

Í samningum um netbirtingu má taka mið af formi hefðbundinna útgáfusamninga. Það þarf ekki langan samningstexta sé tekið á aðalatriðum eins og dæmið á næstu síðu sýnir. Séu starfsmenn fyrirtækis eða stofnunar ráðnir til að semja efni til útgáfu eða annars konar birtingar er eðlilegt að ákveða munnlega eða í skriflegum ráðningarsamningi hve víðtæka notkun þess höfundur heimilar þeim sem hann er ráðinn hjá. Réttarvernd höfundalaga er veitt fyrir persónulegt framlag höfundar til verksins og öll notkun þess því háð samþykki hans.

Viðmiðun um greiðslur til rétthafa er ýmsu háð. Lausráðnir höfundar hljóta hverju sinni að leitast við að fá sem besta greiðslu fyrir verk sín. Þeir hljóta í fyrsta lagi að miða kröfur sínar við þann tíma sem ætla má að verkið taki og í öðru lagi við það hve víðtæk notkunin er. Samningar um útgáfu á prentuðu máli mótast af þessu og eins samningar um útsendingu verndaðs efnis í hljóðvarpi og sjónvarpi. Eðlilegt má telja að svipuð viðmið verði höfð í samningum um netbirtingu, þ.e. tíminn sem fer í frumsamningu og hve víðtæk notkunin er á frumsömdu og áður birtu efni. Telja má sanngjarnt að lægri greiðsla komi fyrir birtingu á áður útgefnu/útsendu efni en þegar um frumbirtingu er að ræða.

Ýmsar leiðir koma til greina þegar semja skal við rétthafa um netnotkun á efni þeirra:

  1. Eingreiðsla fyrir birtingu sem hlutaðeigandi stofnun eða fyrirtæki innir af hendi. Eðlilegt getur verið að takmarka birtingarleyfið við vissan tíma, einkum ef það er þess eðlis að endurskoðunar verði þörf.
  2. Greiðsla fyrir birtingu og afnotagjald þeirra sem kaupa aðgang að efninu og eru skráðir sem notendur þess.
  3. Eingöngu afnotagjald notenda, sbr. annar liður.

Birtingarsamningur

(Dæmi um hvernig orða má samning um netbirtingu á áður útgefnu efni sem er endurskoðað fyrir birtinguna)

Jón Ólafsson (Kt. 111105-7969), hér eftir nefndur höfundur, og Fræðslumiðstöð ríkisins gera með sér svofelldan birtingarsamning.

1. gr.
Höfundur heimilar birtingu á vefsíðum Fræðslumiðstöðvar ríkisins á texta sem hann hefur endurskoðað og upphaflega var saminn fyrir útgáfu í safnritinu Hagþenkir.

2. gr.
Heimild er veitt til birtingar með þessum hætti í fimm ár. Óski Fræðslu-miðstöð ríkisins eftir uppfærslu og endurskoðun á textanum á því tímabili skal hún gerð í samráði við höfund. Sé að tímabilinu liðnu óskað frekari notkunar á textanum með þeim hætti sem greint er í 1. gr. skal semja sérstaklega um hana. Lykla skal textann þannig að unnt sé að telja hve oft hann er opnaður.

3. gr.
Textinn skal birtur með eftirfarandi upplýsingum:„Texti þessi er saminn af Jóni Ólafssyni og upphaflega birtur í safnritinu Hagþenkir árið 1996. Textinn var endurskoðaður og styttur fyrir birtingu á vefsíðum Fræðslumiðstöðvar ríkisins í mars 1998. Heimilt er að afrita textann til fræðslu í skólum sem reknir eru fyrir opinbert fé án leyfis höfundar eða Fræðslumiðstöðvar ríkisins. Hvers konar sala á textanum í heild eða að hluta til er óheimil nema að fengnu leyfi höfundar og Fræðslumiðstöðvar ríkisins.”

4. gr.
Fyrir heimild til birtingar á hinum endurskoðaða texta með þeim hætti, sem lýst er í 2. gr., skal greiða 1000 kr fyrir hverjar 1000 letureiningar (characters). Textinn telst vera 27.000 letureiningar.

5. gr.
Samningur þessi er gerður í tveimur eintökum og heldur hvor aðili sínu.

Reykjavík í mars 1998

Um framsal á rétti höfunda

Hér er miðað við að fyrir netbirtingu á áður útgefnu efni séu greiddar 1000 kr fyrir hverjar 1000 letureiningar. Eðlilegt má telja að tvöfalt til þrefalt hærri greiðsla komi fyrir birtingu á frumsömdu fræðilegu efni. Greiðsla fyrir frumsamningu hlýtur jafnan að mótast af því hve mikillar vinnu verkið krefst, hvers konar kröfur verkið gerir til höfundar.


Byggt á efni frá Kopinor um áminningar um höfundarétt. Einnig var grein um sama efni birt í Morgunblaðinu þann 24. júlí 2002.