Pétur Gunnarsson hlýtur viðurkenningu Hagþenkis

""

Pétur Gunnarsson hlýtur viðurkenningu Hagþenkis árið 2009 fyrir framúrskarandi rit, bækurnar ÞÞ í forheimskunnar landi og ÞÞ í fátæktarlandi. Útgefandi er Forlagið, JPV útgáfa. 

Tíu höfundar og verk þeirra voru tilnefnd til viðurkenningarinnar þann 25. febrúar. Viðurkenningarhátíðin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni 25. mars. Framkvæmdastýra Hagþenkis, Friðbjörg Ingimarsdóttir afhenti Pétri viðurkenningarskjal fyrir hönd félagsins og kr. 750.000. Í upphaflega texta viðurkenningarráðs sagði um þessar bækur Péturs: „Brugðið er skærri birtu á líf og lifnað eins helsta rithöfundar Íslendinga með þeirri alvörublöndnu kímni sem hæfir viðfangsefninu.“ Greinargerð viðurkenningaráðs flutti Hrefna Róbertsdóttir formaður ráðsins og er hana að finna hér fyrir neðan.

 

Viðurkenningarráð fyrir árið 2009 skipuðu: Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur og formaður ráðsins, Ingólfur V. Gíslason félagsfræðingur, Jónína Vala Kristinsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur, Kristín Unnsteinsdóttir uppeldis- og kennslufræðingur og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur og ljósmyndari.

Ávarp Hrefnu Róbertsdóttur, formanns viðurkenningarráðs

Ágætu gestir,

Við erum hér samankomin í dag af verulega ánægjulegu tilefni. Hér verður viðurkenning Hagþenkis veitt fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“ fyrir árið 2009. Þessi viðurkenning hefur verið veitt allt frá árinu 1986 eða í hartnær aldarfjórðung.

Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af nokkrum fræðasviðum. Fyrir réttum mánuði, þann 25. febrúar síðastliðinn, tilnefndi ráðið 10 bækur sem til nánari skoðunar kæmu fyrir viðurkenninguna. Öll fræðirit sem koma út á Íslandi koma til greina við veitingu viðurkenningarinnar og eru óháð útgefanda eða tilnefningum. Verðlaunaupphæðin er 750.000 krónur.

Bækurnar tíu eru eftirtaldar:

Afturgöngur og afskipti af sannleikanum eftir Sigrúnu Sigurðardóttur

Árin sem enginn man eftir Sæunni Kjartansdóttur

Ásgerður Búadóttir – Veftir  eftir Aðalstein Ingólfsson

Blindramminn á bak við söguna eftir Gunnar Harðarson

Jón Leifs – Líf í tónum eftir Árna Heimi Ingólfsson

Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson

Saga viðskiptaráðuneytisins 1939-1994. Frá höftum til viðskiptafrelsis eftir Hugrúnu Ösp Reynisdóttur

Vestmannaeyjar – Ferðafélag Íslands árbók 2009 – eftir Guðjón Ármann Eyjólfsson

ÞÞ – Í forheimskunar landi og ÞÞ í fátæktarlandi eftir Pétur Gunnarsson

Ættartölusafnrit Séra Þórðar Jónssonar í Hítardal. I – II eftir Guðrúnu Ása Grímsdóttur

 

Einn þessara höfunda hefur verið valinn til að hljóta viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2009. Það er Pétur Gunnarsson fyrir bækurnar ÞÞ í forheimskunnar landi og ÞÞ í fátæktarlandi.

Í texta upphaflegu tilnefningarinnar segir viðurkenningarráðið um þessar bækur Péturs: „Brugðið er skærri birtu á líf og lifnað eins helsta rithöfundar Íslendinga með þeirri alvörublöndnu kímni sem hæfir viðfangsefninu.“ En við kynnumst ekki aðeins rithöfundinum og manninum Þórbergi, heldur er einnig dregin upp mynd af samfélaginu sem hann hrærðist í. Rammi og sjónarhorn bókanna er nýstárlegt og tengir á áhugaverðan hátt saman fræði og skáldleg skrif.

Skáldfræðisaga er hugtak sem Pétur notar sjálfur um bækurnar. Áður hafa menn notað ýmsar skilgreiningar á ævisögum, talað um skáldævisögur, fræðilegar ævisögur, sjálfsævisögur og fleira sem varpar ljósi á hvernig höfundurinn nálgast frásögnina af ævi viðkomandi, hvort heldur hann er að skrifa um sjálfan sig eða aðra, lifandi menn eða liðna. Heimildir og stílbrögð kallast á og skáldfræðisagan fléttast saman á einstakan hátt sem gerir textann trúverðugan og spennandi. Lesandinn hrífst með í leiðangrinum þar sem höfundurinn leitar heimilda um persónuna og rithöfundinn Þórberg og samtíma hans. Skáldfræðisagan hefur annað sjónarhorn en skáldævisagan og þessi skáldfræðisaga sker sig verulega úr öðrum ævisögum sem byggðar eru upp á grunni heimilda.

Samtími Þórbergs er annað svið í bókinni sem skýru og óvæntu ljósi er brugðið á. Varpað er upp myndum af samskiptum rithöfunda og listamanna á þessum árum, af hinum nána samgangi milli þeirra og hvernig þeir reyndu að sneiða hjá erfiðleikum þeim sem fámennið bauð upp á. Þeir skömmuðu ekki hver annan beint, heldur til hliðar. Unuhús er sýnt í öðru ljósi en áður, frjótt umhverfi sem þó var engin Paradís. Togstreitan við Laxness er undirliggjandi, langur skuggi í rithöfundasamfélaginu um miðbik 20. aldar. Hugsjónir Þórbergs verða ljóslifandi. Á undraverðan hátt leiðist lesandinn inn í þær miðjar, kommúnismann, esperantó, indverska speki, mælingar hans og talningar.

Fyrir lesandanum er rithöfundurinn og persónan Þórbergur annar maður en hann var áður. Umfjöllunin er opinská, heiðarleg, hlý og djúp. Hann stígur niður af stalli án þess að vera dreginn niður, hann er mannlegri en áður og ljóst að hann, líkt og við öll, var ofinn mörgum þráðum. Höfundur leggur sig allan fram við að reyna að skilja þann margbrotna og sérstæða persónuleika sem Þórbergur var og gerir það þannig að maðurinn verður ljóslifandi, mennskur og stundum berskjaldaður í sinni sérvisku og breyskleika. Fjölskyldan, konurnar, börnin, sveitin, afkoman, skáldskapurinn og alþjóðahyggjan. Hvernig rímar þetta allt eða rekst á í daglega lífinu?

Pétur Gunnarsson hefur með verkum sínum ÞÞ í forheimskunnar landi og ÞÞ í fátæktarlandi gefið okkur einstæðar bækur um rithöfundinn og alþjóðasinnann Þórberg Þórðarson. Í þeim er skáldinu og samfélaginu teflt saman, og textinn skrifaður af hlýju, alvörublandinni kímni og stílsnilli. Skáldfræðisagan er nýstárlegt verk og að lestri loknum langar lesanda mest til að byrja aftur á byrjuninni og lesa bækurnar aftur. 

Með þessum orðum óskum við þér Pétur innilega til hamingju með viðurkenninguna!