Eftirfarandi stéttar- og fagfélög kalla eftir svörum frá menntamálaráðherra hið fyrsta vegna úthlutunar úr Bókasafnssjóði þar sem brotið er gróflega á rétti félagsmanna okkar. Höfundar sem eiga rétt á afnotagreiðslum fyrir verk sín úr sjóðnum fá þær ekki á réttum tíma þetta vorið þar sem ráðuneytið afgreiðir ekki skipun úthlutunarnefndar, þrátt fyrir margítrekaða kröfu okkar um að gengið verði í það verk hið fyrsta.
Það á að vera afar einfalt að afgreiða skipunina, enda liggja fyrir tillögur frá fagaðilum þess efnis. Skrifstofa RSÍ greiðir út úr sjóðnum til allra réttahafa. Peningarnir eru tilbúnir, upplýsingar og gögn liggja fyrir og hafa gert um mánaðarbil, en allt strandar á ráðuneytinu.
Sjöhundruð höfundar áttu von á greiðslum úr Bókasafnssjóði nú í mánaðarlok og eru mjög margir orðnir ævareiðir enda verið að svíkja fólk um greiðslur fyrir afnot af verkum sínum, fjármuni sem láglaunastétt gerir ráð fyrir í sínu heimilisbókhaldi. Það verður að teljast forkastanlegt að draga fólk með þessum hætti á lögbundnum greiðslum. Þarna eru tekjur sem höfundar þessa lands ganga að vísum ár hvert, enda búið að nota verk þeirra og lögbundið að greiða fyrir. Samkvæmt úthlutunar- og starfsreglum sem samþykktar eru af menntamálaráðuneyti skal úthlutun lokið fyrir fyrsta júní ár hvert.
Við krefjumst þess að ráðherra og starfsfólk hans virði okkur svars og gefi skýringar á þessu framferði hið fyrsta.
Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður RSÍ
Jón Yngvi Jóhannsson, formaður Hagþenkis
Ragnar Th. Sigurðsson, formaður Myndstefs