Það er sameiginleg menningarstefna allra Norðurlanda að styðja útgáfu og dreifingu bókmennta og lista til allra þegna sinna. Alþjóðavæðing og tæknibylting nútímans hefur breytt forsendum þessarar menningarstefnu í grundvallaratriðum. Því er brýnt að laga hana að nýjum aðstæðum, þannig að hún taki einnig skýrt og ótvírætt til kennslugagna og annarra fræðirita.
Sérstaða fræðirita er fólgin í tengslum þeirra við raunveruleikann. Fræðirit geta verið sagnfræðirit, landafræðilýsingar, bæklingar, annálar, skólabækur og önnur kennslugögn, alþýðleg fræðirit, vísindarit, samtalsrit, bréf, ritgerðir, ævisögur, trúboðsrit, uppsláttarbækur, lögfræðirit og margt fleira. Fræðirit eru gefin út sem bækur, hefti og tímarit eða er dreift í rafrænu formi.
Fræðirit fela í sér þekkingu. Þau eru grundvöllur kennslu í almennum skólum og háskólum og í hvers konar starfsmenntun. Nýjar rannsóknir og rannsóknarniðurstöður eru yfirleitt kynntar í fræðiritum.
Fræðirit fela í sér miðlun og tjáskipti. Þau mynda grundvöll að umfjöllun fjölmiðla og opinberri umræðu. Fræðirit eru uppsprettur skoðanaskipta á öllum sviðum samfélagsins.
Fræðirit fela í sér sameiginlega reynslu mannsins. Henni er safnað saman í yfirlitsverkum og bókasöfnum, í lagatextum og opinberum skjölum, í heimspekilegum og trúarlegum textum.
Fræðirit eru orkugjafi lýðræðis. Í fræðiritum eru þróuð hugtök og heiti, kynntar aðferðir til greiningar og flokkunar, röksemdir prófaðar og reglur settar um góð skoðanaskipti.
Fræðirit fela í sér menntun. Þau fjalla um allar hliðar mannlegrar tilveru. Vaxandi kröfur til þekkingar og símenntunar hafa sýnt fram á nauðsyn þess að víkka skilgreiningu bókmennta og líta á þær sem margbreytilegan textaheim.
1: Bókmenntastefna er menningarstefna. Þjóðmenning á ekki að stjórnast af markaðslögmálunum einum.
2: Bókmenntastefna á að ná yfir kennslugögn og önnur fræðirit jafnhliða fagurbókmenntum. Tryggja þarf höfundum góð starfsskilyrði til að stuðla að útgáfu allra tegunda góðra bókmennta.
3: Bókmenntastefna á að vera málstefna og stuðla að útgáfu ritverka á öllum þjóðtungum.
4: Bókmenntastefna er lýðræðisstefna. Forsenda fyrir lýðræðisþjóðfélagi er að umræðan um lífskjör og samfélag mannsins sé öflug og að rituð séu vel unnin verk sem vekja umhugsun og miðla þekkingu, þau séu gefin út og gerð öllum aðgengileg.
Samþykkt á sjötta fundi norrænna fræðiritahöfunda í Uppsölum 20. september 2008.