Minningarorð um Hörð Bergmann – heiðursfélaga Hagþenkis

""

Hörður Bergmann f. 24. apríl-d. 10. október 2020, var einn af stofnendum Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna árið 1983. Hann var formaður 1983-1989 og  framkvæmdastjóri 1993-2001. Hann sat fyrir hönd Hagþenkis í stjórn Fjölís 1986-2002. Á 25 ára afmæli Hagþenkis voru Hörður Bergmann og Ágúst H. Bjarnason fyrrum varaformaður gerðir að heiðursfélögum.

Gísli Sigurðsson, prófessor og fyrrum formaður Hagþenkis, ritaði minningargrein í Morgunblaðið um Hörð Bergmann, kennarann, baráttu- og hugsjónamanninn sem er birt á vef Hagþenkis með leyfi hans:

 

„Hörður var óvenju hreinskiptinn og stefnufastur hugsjónamaður um réttlæti; boðaði og lifði sjálfur eftir boðorðum um umbúðalaust og sjálfbært þjóðfélag, hjólaði og leitaði hagkvæmra lausna á húsnæðis- og samgönguvanda. Menntun og upplýsingu úr ólíkum málheimum taldi hann góða leið til að koma skynseminni til valda við ákvarðanir í almannaþágu.
Þau sem miðla fræðum eiga Herði mikla skuld að gjalda fyrir þrotlaust brautryðjendastarf hans í Hagþenki, félagi höfunda fræðirita og kennslugagna. Það var mjög á brattann að sækja þegar Hörður hóf baráttu sína fyrir því að höfundar fengju sanngjarnar greiðslur fyrir vinnu sína, hefðu tekjur af útgefnum verkum og gætu sótt í höfundasjóði vegna tiltekinna verkefna. Sjálfur varð hann fyrsti formaður Hagþenkis árið 1983 og allt í öllu á meðan hann fylkti fleirum með sér í lið um þennan nýstárlega málstað. Þegar ég varð formaður félagsins árið 1996 hafði Hörður tekið allt starfið að sér undir starfsheitinu framkvæmdastjóri. Það var því sérlega þægilegt að sinna baráttu og hagsmunagæslu fyrir félagsmenn með hann sér við hlið; ekki síst í samstarfinu við önnur höfundarréttarfélög innan Fjölíss þar sem Hörður hafði setið lengi og sá til þess að sitt fólk fengi sanngjarna sneið af kökunni sem þar var til skipta – og lagði áherslu á að sú sneið rynni óskert alla leið inn á reikninga félagsmanna sjálfra frekar en að étast upp í yfirbyggingu félagsins. Félagið hafði á þessum árum ekki aðra aðstöðu en borðshorn á heimaskrifborði Harðar sjálfs og kostaði því lítið í rekstri.
Það hafði lengi brunnið á Herði hve illa höfundum fræðirita gekk að sækja sér starfslaun í launasjóð rithöfunda. Þótt lög um sjóðinn gerðu ráð fyrir fræðibókahöfundum hafði framkvæmdin jafnan verið sú að túlka þau í þágu listrænna verka – og athugasemdir félagsins mættu daufum eyrum. Við breyttum því stefnunni og herjuðum nú á yfirvöld um að stofna sérstakan launasjóð fyrir okkar höfunda sem við töldum að lentu á milli sjóða í sjóðakerfi ríkisins. Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, hlustaði á röksemdir okkar, sá strax að við höfðum lög að mæla og ákvað að breyta skipulaginu. Á hátíðarsamkomu í húsi Rithöfundasambandsins hinn 18. desember 1998, þar sem úthlutað var í fyrsta skipti úr Bókasafnssjóði höfunda, tilkynnti hann um farsælar málalyktir þessa baráttumáls: að ríkisstjórnin „hefði samþykkt að stofna sérstakan launasjóð fyrir höfunda almennra fræðirita“ eins og sagði í frétt Morgunblaðsins af þessum viðburði. Það sýndi sig að mikil þörf var fyrir sjóðinn og útgáfa fræðirita hefur notið góðs af síðan. Á þessu ári gat sjóðurinn aðeins veitt 15 umsækjendum úrlausn af þeim 82 sem sóttu. Það er því löngu tímabært að bæta vel í, bókmenntalífinu, menntun og upplýsingu landsmanna til hagsbóta og minningu Harðar til sóma.
Eldhugur Harðar var smitandi og fékk þau sem í kringum hann voru til að leggjast á árarnar með honum; ekki síst vegna þess að sjálfur dró hann aldrei af sér eða taldi áratogin sem þurfti til að komast í áfangastað.“